04.02.1980
Efri deild: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

73. mál, heilbrigðisþjónusta

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 108 hef ég ásamt hv. þm. Agli Jónssyni og hv. þm. Tómasi Árnasyni leyft mér að flytja litla brtt. við lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 57 20. maí 1978, þannig að á Eskifirði verði H2 stöð. Það er H1 stöð sem þar er nú. Það er eina efni frv.

Skipting í H1 og H2 stöðvar var á sínum tíma mjög umdeild. Urðu þá þegar nokkur frávik frá þeirri höfuðreglu sem sett var. Því þykir rétt að láta reyna á það nú, hvort á því getur orðið breyting, þar eð þannig er ástatt með íbúafjölda á heilsugæslusvæðinu Eskifjörður, Reyðarfjörður, Helgustaðahreppur og suðurbyggð Reyðarfjarðar að íbúafjöldi er nákvæmlega á þeim mörkum sem miðað var við í upphafi, þ.e. að svæði með íbúafjölda undir 2000 fengu ekki H2 eða tveggja lækna stöðvar, en þau svæði, sem voru með yfir 2000 íbúa, náðu því marki að verða tveggja lækna stöðvar. Þetta svæði er núna rétt í jaðrinum með milli 1900 og 2000 íbúa. Á báðum þéttbýlisstöðunum fer fólki fjölgandi, og reikna má með að það geti orðið þegar á næsta ári að íbúatalan nái þessu marki.

Á svæðinu hefur, allt frá því að lagafrv. um heilsugæslu fyrst kom fram, verið mikill áhugi á að læknar yrðu tveir, ekki síst á Reyðarfirði þar sem íbúar eru á áttunda hundrað. Upphaflega var ráð fyrir því gert að þarna yrði um H2 stöð að ræða eða tveggja lækna stöð, en þá yrði svæðið stærra og næði allt suður á Fáskrúðsfjörð. Á því varð svo breyting. H1 stöð varð á Fáskrúðsfirði, sem betur fór, en það varð til þess að við á Eskifirði og Reyðarfirði náðum ekki fyrrgreindum mörkum og þar varð aðeins eins læknis stöð.

Um þetta hafa verið flutt tvö frv. Fyrst var það flutt sem brtt. við heilsugæslulögin, þegar þau voru til almennrar endurskoðunar í þinginu 1978, af 1. flm. nú og hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Þá var till. naumlega felld hér í deildinni. Á þinginu 1978–1979 var frv. flutt eins og það er núna og var Vilhjálmur Hjálmarsson þá meðflm. 1. flm. nú.

Ég vil aðeins segja um málið nokkur almenn orð.

Með löggjöf um heilbrigðisþjónustu var brotið í blað í heilsugæslumálum landsbyggðarinnar. Aðalmarkmið löggjafarinnar var að tryggja fyrirbyggjandi aðgerðir, nægilega örugga heilsugæslu hvarvetna til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Myndarleg átök hafa svo verið gerð í krafti þeirrar löggjafar víða um land.

Læknaskortur á landsbyggðinni, öryggisleysi í heilsugæslumálum er einn erfiðasti byggðavandinn. Þar duga engin einhlít lagafyrirmæli. Samræmt átak hvað snertir uppbyggingu hefur víða verið gert, víða komið að tilætluðum notum, en allt of víða er enn búið við óviðunandi aðstæður, enn er öryggisleysið allt of víða algert eða svo til. Heilbrigðisyfirvöld á hverjum tíma hafa þó vissulega unnið vel og óefað ekki legið á liði sínu að koma málum í viðunandi horf.

Fyrst á eftir virtist nokkuð rofa til í læknamálum, en aftur hefur svo sigið á ógæfuhlið. Það eru fyrst og fremst H1 stöðvarnar, og þá þær sem við lakasta aðstöðu búa og í mestri einangrun eru, sem harðast hafa orðið úti. Þar má nefna dæmi frá Vestfjörðum alveg sérstaklega, og eystra er það Djúpivogur sem sker sig úr og þar ríkir nú ófremdarástand sem úr verður að bæta hið bráðasta.

Við flm. þessa frv. vitum vel að hægara er um að tala en úr að bæta. En svo sem segir í nýlegri samþykkt þar austur frá á sameiginlegum stjórnarfundi kvenfélaganna á þessu svæði öllu, sem haldinn var í Hamraborg 11. jan. 1980 eða alveg nýlega, þ.e. á öllu heilsugæslusvæði stöðvarinnar á Djúpavogi, „þá er óhjákvæmilegt að bregða hér skjótt við og leita allra möguleika.“ Á þetta verður að minna nú þegar rætt er um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu almennt.

Til að ítreka þetta tel ég rétt nú að lesa áskorun til ráðamanna, — áskorun þá til hæstv. heilbr.- og trmrh. sem ég er með undir höndum og við þm. höfum fengið, svo hún fáist inn í þingtíðindi og til áherðingar á úrlausn ef á væri nokkur kostur. — Raunar hef ég í hyggju að flytja ásamt meðflm. mínum að þessu frv., frv. um vanda H1 stöðvanna og mögulega úrlausn á þingi sem sérstakt þingmál, því að eitthvað verður að gera til viðbótar við þá annars ágætu löggjöf sem við búum við í þessum efnum. En samþykktin austan af Djúpavogi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fundurinn beinir þeirri eindregnu áskorun til heilbrrh., landlæknis svo og þm. Austurl., að þeir beiti áhrifum sínum til að bætt verði úr því ófremdarástandi sem ríkir í heilbrigðismálum Djúpavogslæknishéraðs, þar sem héraðið hefur verið læknislaust meira og minna s.l. tvö ár. Því hefur verið þjónað frá Höfn og Fáskrúðsfirði og þar sem um svo miklar vegalengdir er að ræða er það háð færð og veðráttu hverju sinni hvort við fáum tækni einu sinni í viku eða ekki. Hvorki er hjúkrunarfræðingur né ljósmóðir í þrem hreppum af fjórum í læknishéraðinu. Við teljum það höfuðforsendu til að þessir staðir séu byggilegir að bætt verði úr þessu neyðarástandi hið bráðasta með því að ráða lækni og hjúkrunarfræðing í héraðið strax og veitt verði fjármagn til bættrar heilbrigðisþjónustu, svo sem byggingar heilsugæslustöðvar á Djúpavogi. Okkur finnst við vera aftarlega á blaði með fjármögnun til þeirra framkvæmda. Það er von okkar að bætt verði úr þessu neyðarástandi hið allra fyrsta.“

Undir þetta skrifa formenn þessara kvenfélaga: Sigurrós Ákadóttir, Anna Antoníusdóttir og Guðríður Gunnlaugsdóttir.

Þetta kann að virðast útúrdúr frá aðalefni frv., en í grg. þess er sagt flest það sem segja þarf og ég hef þegar komið inn á þau vissu atriði sem eru höfuðrök okkar fyrir málinu, að íbúafjöldinn á þessu svæði er alveg við þau mörk, sem við hefur verið miðað varðandi það að fá tveggja lækna stöðvar, og eins þá miklu nauðsyn sem það er fyrir Reyðfirðinga alveg sérstaklega og aukna öryggi ef þarna kæmi tveggja tækna stöð og annar læknirinn yrði búsettur á Reyðarfirði, svo sem okkur flm. þykir sjálfsagt ef lagabreytingin nær fram að ganga.

Bæði á Eskifirði og Reyðarfirði er aðstaða fyrir tækni í lágmarki, einkum þó á Reyðarfirði þar sem bráðlega þarf verulega úr að bæta. Rétt er og skylt í þessu sambandi að geta um þá miklu bót sem á varð fyrir Reyðfirðinga þegar þangað fékkst hjúkrunarfræðingur í hálft starf, sér í lagi vegna þess að þar er um að ræða einstakan aðila sem sinnir ekki aðeins beinum skylduverkum, heldur er í raun ætíð viðbúin. Hefur reynst ómetanlegt fyrir byggðarlagið að eiga völ á svo frábærri þjónustu sem núverandi hjúkrunarkona þar hefur veitt. En vitanlega er ekki á neinu öruggu að byggja varðandi þá ágætu manneskju. Við vitum ekki hvað lengi okkur helst á henni austur þar. Og þar er ekki um nema hálft starf að ræða og áreiðanlega ekki auðvelt að fá einhvern til að koma þangað austur aðeins til að gegna hálfu starfi. Læknisskortur hefur hins vegar ekki hrjáð okkur. Nú er á Eskifirði hinn ágætasti læknir með góða reynslu og samviskusamur hið besta, en álag á honum er ærið og þegar vissir annatímar bætast við, svo sem á loðnuvertíð, er í raun ofvaxið einum manni yfir að komast.

Eins og ég tók fram áðan varðandi búsetu annars læknis af tveim á Reyðarfirði er þar um hreint öryggisatriði að ræða, alls ekki að hvor læknir um sig starfi sjálfstætt, heldur þvert á móti. Á aðalstöðinni á Eskifirði hlýtur aðalstarfið að fara fram um leið. Þá ber að vinna að því, þegar stöðvar á Fáskrúðsfirði og Djúpavogi eru komnar á góðan rekspöl, að á Eskifirði verði hafist handa af fullum krafti við nýja og fullkomna heilsugæslustöð, því að íbúar fyrrnefndu staðanna tveggja eiga tvímælalaust að fá sína aðalþjónustu þar, alveg án tillits til nálægðar við heilsugæslustöð á Egilsstöðum og sjúkrahús í Neskaupstað. Þó ekki hafi enn nema um stundarsakir vantað lækni við H1 stöðina á Eskifirði óttast ég framtíðina þar, eins og gagnvart H1 stöðvunum almennt. Og ég tel að rétturinn, miðað við upphafleg mörk, sé ótvíræður um H2 stöð eða tveggja lækna stöð, ekki síst í ljósi þeirra frávika sem þegar voru samþykkt í upphafi. Ég ætla því að vona fyrir hönd okkar flm. að þetta sanngjarna frv. fái brautargengi á þessu þingi.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.