07.02.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst, að það er áfall fyrir atvinnulíf og afkomu fólks og fyrirtækja á Suður- og Austurlandi, Vestmannaeyjum og Suðurnesjum ef lítið sem ekkert af bræðsluloðnu berst þangað í ár. Af þessum sökum hafa þessi mál verið til athugunar í rn. að undanförnu og þau viðhorf loðnunefndar, sem hv. þm. rakti í fsp. sinni, hafa komið fram í rn. og í loðnunefnd einmitt af þessu tilefni.

Það er sem sagt ljóst, að sjútvrh. hefur ekki almennt lagaheimild til þess að gera veiðar háðar því skilyrði, að afla sé landað á ákveðnum stað eða svæði. Einu undantekningarnar frá þessu er að finna í sérstökum lögum um þetta ákveðna tilvik, þ.e. lögum um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem eru háðar sérstökum leyfum, og eiga einungis við um rækju- og skelfiskafla. Einasta lagaákvæðið sem hér kemur til athugunar er einmitt ákvæði 2. gr. laga um löndun á loðnu til bræðslu, eins og hv. þm. gat um, þar sem segir að loðnunefnd sé heimilt að stöðva löndun um takmarkaðan tíma á ákveðnum svæðum eða í einstakar verksmiðjur án tillits til móttökugetu þeirra. Og í grg. með frv. segir beinlínis, að með þessari breytingu á lögunum sé loðnunefnd gefin heimild til þess að stöðva löndun í verksmiðjur, sem næstar eru veiðisvæðum hverju sinni, enda þótt þróarrými sé fyrir hendi hjá þeim, en láta veiðiskipin þess í stað flytja loðnu til annarra verksmiðja sem annars væru verkefnalausar. Enn fremur segir í grg.: „Tilgangurinn með þessari breytingu er sá, að stuðla að því, að vinnslugeta verksmiðjanna í landi verði nýtt betur en undanfarin ár, og auka þannig aflamöguleika loðnuflotans í heild yfir vertíðina.“ Það kemur fram sem viljayfirlýsing Alþingis á þeim tíma, að þetta sé hugsað til þess að auka aflamöguleika loðnuflotans í heild yfir vertíðina.

Það er skoðun lögfróðra aðila, að þegar þannig standi á, að tilgangur komi fram í grg., verði að fara eftir því sem segir í grg. Loðnunefnd er þessarar skoðunar. En auðvitað getur það gerst, að viðhorf breytist í þessum efnum, eins og hér hefur átt sér stað, og þá væri eðlilegt að Alþ. léti í ljós álit sitt á þeim efnum. Það ætti að vera nægjanlegt til þess að rn. og loðnunefnd teldu sér mögulegt að grípa inn í á öðrum forsendum en gerð var grein fyrir þegar lögin voru sett á sínum tíma. Þetta er kjarni málsins.

Málið hefur að undanförnu verið til skoðunar í rn. vegna einmitt þeirra sjónarmiða sem voru rakin hér áðan. Og það var einmitt til skoðunar með tilliti til þess — svo ég svari öðrum spurningarþættinum — að það kynni að vera sanngjarnt að grípa inn í eins og á stendur. En að því er það þriðja varðar — túlkun laganna eða breytingu á lögunum — virðist eðlilegast, ef Alþ. í ljósi nýrra viðhorfa telur að beita eigi lögunum með örðum hætti en tilgangurinn var í upphafi, að vilji Alþingis í þeim efnum komi fram þannig að taka megi af öll tvímæli.

Ég get aðeins getið þess í þessu sambandi — vegna þess að hv þm. rakti ákvarðanir rn. varðandi loðnuveiðar — að það hefur komið í ljós á undanförnum vikum, að söluhorfur á frystri loðnu og loðnuhrognum eru mun óvissari en ætlað var í upphafi. Hins vegar sýnist fyllsta ástæða til þess, að nokkru magni sé haldið eftir engu að síður til þess að mæta þessu verkefni, þannig að við dettum ekki út af markaðnum í Japan og höldum samhengi í þeim málum, og enn eru möguleikar á því, að fengist geti þokkalegt verð fyrir þessar afurðir. Auk þessa er það náttúrlega verulegt atvinnuspursmál fyrir fólkið í landinu og afkomu fyrstihúsanna, að þessu verkefni sé sinnt. Þess vegna hefur það verið skoðun mín, að halda ætti eftir nokkru magni í þessum tilgangi.

Segja má að í þessu sambandi sé um þríþættar ákvarðanir að ræða, ef maður tekur meginefni fsp. með í þá ákvarðanatöku sem þetta varðar.

Fyrsta spurningin er auðvitað: Hver á heildarveiðin á loðnunni að vera á þessum tíma? Ég get þess, að ekkert hefur komið fram enn þá sem bendir til þess, að ráðlegt sé að auka það magn verulega eða stætt á því að auka það magn verulega sem gert hefur verið ráð fyrir, þannig að mér sýnist á þessari stundu að heildaraflamagn á þessari vertíð eigi ógjarnan að fara fram úr 300 þús. tonnum.

Þá vaknar næsta spurning: Hvernig á að skipta þessu aflamagni milli frystingar annars vegar og loðnubræðslu hins vegar? Ég hef talið með tilliti til markaðsaðstæðna, eins og ég hef rakið áður, að halda ætti nokkru eftir til frystingar og hrognatöku, en ekki ætti að taka svo mikið magn frá sem gert var ráð fyrir í upphafi. Þetta mundi geta þýtt að einhvers staðar í kringum 250 þús. tonn — að mínu áliti eins og ég met stöðuna í dag — ætti að ætla til þeirra veiða sem nú eru í gangi og þá dregur að því undir helgina að ákvörðun þurfi að taka. — Ég vil gera grein fyrir þessum sjónarmiðum hér, svo að öllum sé ljóst og það sé upplýst, að staðan er metin út frá þeim upplýsingum sem fyrir hendi eru í dag, en ævinlega eru að bætast við upplýsingar í þessum efnum. Skoðun mín er sú, eins og kom reyndar fram í seinustu fréttatilkynningu rn., að það verði í vikulokin sem rétt sé að menn átti sig endanlega á þessu.

Þriðja ákvörðunaratriðið er það sem ekki hefur tekist að leysa úr á grundvelli gildandi laga með tilliti til tilgangs þeirrar lagagreinar sem til er vitnað. Það er spurningin um dreifingu loðnunnar á verksmiðjur með sérstökum aðgerðum eða inngripi af hálfu loðnunefndar eða rn., og viðhorfin í því máli hef ég reifað hér allítarlega.