12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. þau svör sem hann gaf við fsp. mínum hér í dag, en þó er ég ekki að öllu leyti ánægður með svör hans. Sumum spurningunum, sem ég lagði fyrir hann, veigraði hann sér við að svara. Ég spurði hann um það, hvort hæstv. ríkisstj. hefði samþykkt fyrir sitt leyti þessa ákvörðun hans. Því svaraði hann ekki. Hins vegar heyrðist mér á hv. 4. þm. Suðurl., Alþb.-þm., að hann gerði ráð fyrir að ráðh. Alþb. hefðu vitað um afgreiðslu á þessu máli. Fyrst hæstv. sjútvrh. fæst ekki til þess að svara þessari spurningu minni — (Sjútvrh.: Ég skal svara henni.) þá léki mér hugur á að vita hvað hæstv. forsrh. segir um þetta og þá jafnframt hvort hæstv. forsrh. telur þessa ákvörðun sjútvrh. rétta, að stöðva nú loðnuveiðar og annaðhvort binda 53 loðnuveiðiskip og gera 750 sjómenn atvinnulausa, eða hvort hann telur eðlilegra að flest þessara skipa vendi sínu kvæði í kross og fari sem allra fyrst á netaveiðar til þess að auka sóknina í þorskinn, sem mér skilst að sé búið að ákvarða við 75 þús. tonn af bátaflotanum í marslok og 110 þús. tonn í apríllok, og ef þessi floti á að fara á þær veiðar, hvort hann sé ánægður með þá stefnu að stytta á þann veg vetrarvertíð alls bátaflotans. Það mega gjarnan heyrast svör frá þeim báðum, forsrh. og sjútvrh., í þessum efnum.

Hæstv. sjútvrh. og hv. 4. þm. Suðurl. lásu hér kafla úr bréfi frá Hafrannsóknastofnuninni, og hæstv. sjútvrh. spurði mig að því, hvað ég teldi vera óhætt að veiða mikið af loðnu. Ef hann hefur ætlað að fara eftir mínu áliti, þá er þetta síðbúin spurning, og í framtíðinni ráðlegg ég honum að spyrja mig áður en hann tekur ákvarðanir ef hann ætlar að fara eftir því sem ég segi.

Ég ætla aðeins að minna hæstv. ráðh. á það, að ekki eru nema rúm tvö ár síðan okkar ástkæru fiskifræðingar sögðu að það væri óhætt að veiða allt upp í 1.5 millj. lesta af loðnu. Það er eitthvað nálægt því að vera 21/2 ár. Það ríkti mikil bjartsýni bæði í útgerð og við vinnslu á loðnu við þessar fréttir, sem eðlilegt er, og það hefur aldrei verið veitt nálægt því það magn, sem þeir lögðu til, fyrr en á vertíðinni 1979, að fór aðeins fram yfir. Þrátt fyrir það segja þeir í bréfi sínu frá 1. febr.: „Aðaltilgangurinn með stjórnun veiðanna er að tryggja nægilega stóran hrygningarstofn.“ Þetta tókst árið 1979, þrátt fyrir að það var eina árið sem fór aðeins fram yfir. „Enda þótt nauðsynleg lágmarksstærð hrygningarstofns íslensku loðnunnar sé ekki þekkt með vissu er ljóst, að viðkoman hefur stundum verið skert, t.d. vorið 1978.“ Viðkoman var skert að þeirra dómi 1978, og ég hef enga þekkingu á því að mótmæla þessari fullyrðingu þeirra eða skoðun. En viðkoman skerðist þrátt fyrir það að ekki er veitt það magn sem þeir telja að sé hæfilegt og óhætt að veiða. Það fer því ekki alltaf eftir veiðunum hvort viðkoma stofnsins skerðist eða ekki. Þetta er eitt dæmi um það.

Hvernig dettur hæstv. sjútvrh. í hug að fara eftir því, þó að tveir ágætir fiskifræðingar segi við hann í morgun að þeir telji að loðnan sé á miklu minna svæði en sjómenn og skipstjórnarmenn telja og því sé ekkert að marka þessa miklu veiði? Þeir vita þetta ekki sem ekki er von. Þeir eru með eitt rannsóknarskip. Ég legg meira upp úr því, hvað fjöldi skipstjórnarmanna og reyndra sjómanna segir í þessum efnum. Ég minnist þess, að fiskifræðingar sögðu oft þegar togarar fengu góða veiði: Það er ekkert að marka þessa veiði. Það er verið að ganga of nærri fiskistofnunum. Fiskurinn þéttir sig á tiltölulega takmörkuðum veiðisvæðum og þar moka togararnir fiskinum upp. — Ég spyr: Hvernig stendur þá á því, að línuveiði á s.l. hausti er sú besta í manna minnum, ekki á einhverju tilteknu þröngu svæði, heldur allt frá Snæfellsnesi, vestur og norður fyrir land og fyrir Norðausturlandi — besta línuvertíð í manna minnum? Ekki er það vegna þess að fiskurinn þéttir sig á einhverju litlu svæði á öllu þessu gífurlega hafsvæði. Sem betur fer, segja reyndir menn, er meiri fiskur í sjónum en sagt hefur verið.

Nú kem ég að öðru atriði, að fiskifræðingar sögðu að það væri ekki óhætt að veiða meira en 250 þús. tonn af þorski á s.l. ári, árinu 1979. Fyrrv. sjútvrh. sagðist stefna að því, að það yrðu veiddar 280–290 þús. lestir, og eitthvað tveimur dögum seinna sagði þáv. forsrh. í sjónvarpinu að hann teldi alveg óhætt að veiða 300 þús. lestir. Þrátt fyrir allar aðhaldsaðgerðir reyndist veiðin verða 350 þús. lestir, fyrir utan það magn sem útlendingar veiða, sem er sáralítið. Það eru nú aðallega Færeyingar í þorskstofninum.

Nú skyldi maður ætla að fiskifræðingar segðu eitthvað eftir að slíkt hefur skeð og það ekki þetta eina ár, árið 1979, þetta var búið að viðgangast hjá manni sem var ráðh. á undan fyrrv. sjútvrh. og var stórkostlegur afbrotamaður, var búinn að láta drepa allan þorsk í sjónum og var búinn að fá þann dóm með heimsstyrjaldarletri í Dagblaðinu og öðrum menningarblöðum þessa lands, að hann væri þorskamorðingi. Sennilega hefur allur þessi fiskur, sem hefur veiðst síðan og er verið að vinna og selja til útlanda, allur þessi þorskur verið afturgöngur. En hvað gera þessir menn eftir að búið er að fara svo langt fram úr því sem þeir töldu óhætt? Lækka þeir ekki kvótann árið 1980 úr 250 þús. lestum? Nei, þeir hækka hann, eftir að búið er að fara 100 þús. lestir fram úr, og segja: Nú er óhætt að veiða 300 þús. lestir. — Svo á að fara alltaf eftir þessum mönnum. Ég spyr: Til hvers er verið að hafa sjútvrh.? Af hverju geta þeir í Hafrannsóknastofnuninni ekki gert allt þetta og sparað?

Ef hæstv. núv. sjútvrh. eða hæstv. ríkisstj. telur sig komna í ráðherrastóla til þess að framkvæma stefnu kratanna, þá spyr ég: Þurfa þeir að vera svona margir að þessu? Það voru þó ekki nema sex kratar í ráðherrastólum fyrir nokkrum dögum, en þeir eru búnir að troða hér inn tíunda stólnum núna, eru nú 10 að fást við það að framkvæma stefnu kratanna. Og þetta er lukkustjórn þjóðarinnar, hamingjustjórnin sem enginn sá sólina fyrir um helgina. En nú dregur ský fyrir sólu.

Hæstv. sjútvrh. sagði að við hefðum notað rök fiskifræðinga í samningum, t.d. í samningum við Breta, víð Efnahagsbandalagið og við fleiri þjóðir. Það er alveg rétt. Vitaskuld notuðum við rök okkar vísindamanna þegar við vorum að sannfæra aðrar þjóðir um, að ekki væri hægt að veita þeim veiðileyfi hér, og við vorum að reyna að losna við þær úr 200 mílna fiskveiðilandhelgi. Ég er alveg sammála fiskifræðingum í því, að þeir eiga að vera varkárir og þeir eiga að vera varfærnir í því sem þeir leggja til við stjórnvöld. Aldrei þorði ég að ganga í berhögg við þá á þröngum veiðisvæðum þegar ég var sjútvrh., eins og t.d. í sambandi við kvóta á rækju og öðru því sem er mjög takmarkað. Ég lagði ekki í það. Ég tók ekki einn ákvarðanir í þessum efnum. Ég hafði samband og samráð við menn sem höfðu reynslu og eyddi í það löngum tíma, — ekki við menn á einhverjum ákveðnum bletti í þessu landi, heldur vítt og breytt um allt landið, — menn sem höfðu þekkingu og reynslu, og einnig við fiskifræðinga og aðra vísindamenn sem þekkingu höfðu. Þessir menn voru ekki alltaf sammála, síður en svo. Að lokum kom að því að ég varð að taka ákvörðun. Þá ákvarðanatöku hafði ég fyrir sið að kynna og ræða ítarlega við forustumenn á sviði sjávarútvegs og þá ekki síst hér innan þings og hafði síður en svo á móti því að ræða við menn úr þáv. stjórnarandstöðu. Ég veit að t.d. hv. fyrrv. þm. Lúðvík Jósepsson mun staðfesta það, að ég hafði mjög oft samband og í raun og veru alltaf samband við hann þegar um mikilvægar ákvarðanir var að ræða. Ég tel það ekki vera ráðh. neitt til vansæmdar að hafa slíkan hátt á. (StJ: Þú tókst ábendingum stundum illa.) Já ef þær voru mjög vitlausar.

Hæstv. sjútvrh. segir að hann sé nú að bjarga þeim stöðum, sem hafa enga loðnu fengið á þessari vertíð, með því að leyfa þeim að fiska eina ferð þannig að þeir geti komist til sinnar heimahafnar. Þetta er allt gott og blessað. Það var hægt að beita flutningasjóði með allt öðrum hætti. Það var hægt að auka framlag til hans til þess að þau skip, sem þurftu að fara með loðnuna langa leið, biðu ekki skaða af og aðrir fleyttu rjómann. Þetta skipulag hafa sjómenn virt og útgerðarmenn. Þeir hafa ekki allir verið ánægðir með það, en þeir hafa virt það og þeir hafa skilið að það hefur þurft að jafna þarna á milli.

Ég ætla ekki að segja hæstv. sjútvrh., fyrst hann spurði mig ekki fyrir fram, hvað ég tel óhætt að veiða af loðnu. En ég ætla að segja honum það, að honum hefði verið alveg óhætt að dómi flestra þeirra, sem þekkja til þessara mála, skipstjórnarmanna og annarra, að vera ekki svona brátt í brók eins og honum var með þessa frétt og ákvörðun í morgun.

Hv. 4. þm. Suðurl. talaði um að pappírstígrisdýr og súkkulaðidrengir væru um þessar mundir að taka við stjórn í þingflokkum. Ég veit ekki hvað hv. þm. átti við með því. Sennilega er hann kunnugastur í eigin þingflokki, þó að ýmislegt gangi nú á í sumum öðrum, og þá var mér strax hugsað til hvort hann ætti hér við hinn nýja formann þingflokksins. Það væri gaman að fá að vita þetta. (Gripið fram í: Hann er nú ekki í fleirtölu.) Ja, hann er margfaldur miðað við hvað hann er búinn að vera í mörgum flokkum.

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. öllu meira. En þó vil ég segja eitt að lokum. Ég þakka hæstv. sjútvrh. það, að hann sagði áðan að þessi ákvörðun hans stæði ekki í sambandi við neinn ótta við Norðmenn. En svo hélt hann aðeins áfram og þá óx hjá mér ótti um að hæstv. sjútvrh. — ég segi ekki að hann sé óttasleginn við Norðmenn, en ofurlítið hræddur, og ég vil vona að þm. almennt, hvar sem þeir eru í flokki, hjálpi hæstv. sjútvrh. að eyða þessum ótta hans.