12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er óþarfa hæverska eða lítillæti hjá hæstv. sjútvrh. að eigna mér þá ákvörðun sem hefur verið tekin í dag. Hann tók svo til orða, að þessi ákvörðun hefði í raun verið tekin í s.l. viku. Þetta er hreinlega rangt og þess vegna á þetta lítillæti ekki við. Þessi ákvörðun var ekki tekin, hvorki í raun né raunalaust, í s.l. viku.

Hitt er svo annað mál, að ég taldi rétt að nota tækifærið í s.l. viku, þegar fsp. kom hér fram um dreifingu loðnuaflans, til þess að reifa einmitt þetta mál og gera grein fyrir því, að menn þyrftu að taka ákvörðun í því á næstu dögum. Ég gerði það einmitt með tilliti til þess, að nýr maður væri að setjast í stól sjútvrh., að ný ríkisstj. væri að taka við völdum. Ég vildi gera öllum ljóst og þá sérstaklega hinni nýju ríkisstj., að hér væri um að ræða atriði sem þyrfti að taka ákvörðun um. Ég gekk meira að segja svo langt, að ég reifaði mitt persónulega mat á því, hver staðan væri á þeirri stundu, svo að menn þyrftu ekki að velkjast í neinum vafa um, að hér væri einmitt komið að því að bráðlega ræki til ákvörðunar. Og ég tók svo til orða, að það mundi verða hæfilegt að gera upp hug sinn um þetta mál um næstu helgi, sem reyndar er nú orðin fyrrverandi helgi.

Auðvitað stóð aldrei til hjá fyrrv. ríkisstj. eða hjá mér að fara að taka ákvarðanir fyrr en þær væru tímabærar. En einmitt með þessum hætti taldi ég að ég hefði vakið sérstaka athygli á málinu og að sá, sem eftir kæmi, þyrfti að taka um það ákvörðun.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði áðan, að hér hefði verið ríkisstj. sem taldi sig ekki geta tekið á þessu máli. Þetta er rangt. Ég veit raunar ekki hvort hv. þm. átti við dreifingu loðnunnar, en þá gildir reyndar sama viðhorf hjá núv. sjútvrh. og fyrrv. ráðh. og þá ekki rétt að binda þetta sérstaklega við fyrrv. ríkisstj. Það stóð aldrei til að fyrrv. ríkisstj. færi að grípa fram fyrir hendur komandi ríkisstj, áður en ákvörðun væri tímabær. Þær ákvarðanir, sem þurfti að taka af fyrrv. ríkisstj., voru hins vegar teknar.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál að öðru leyti, en viðhorf mín í þessu máli hafa komið fram hér áður. Það er óþarfi að tíunda þau nánar nú. Þau voru einmitt rakin til þess að auðvelda þeim, sem við tæki, að taka ákvörðun. Og mér finnst að það sé óþarfa lítillæti af núv. hæstv. sjútvrh. að eigna mér ákvörðun sem ég hef ekki tekið. Ég þykist hafa tekið nóg af þeim samt.