13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá fjh.- og viðskn. hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og ég tel rétt að gera grein fyrir hvers vegna það er gert. Það er þó rétt að taka fram strax að það er ekki vegna andstöðu við málið sem slíkt. Það er ekki talið óeðlilegt að í því ástandi, sem nú ríkir, sé farið fram á slíka greiðsluheimild sem hér er gert ráð fyrir. En ástæðan fyrir þeim fyrirvara, sem ég geri hér, er sú sem reyndar kom fram í máli formanns og frsm. nefndarinnar, að ekki lá fyrir áætlun um í hvað ætti að nota þær greiðslur.sem hér er farið fram á.

Það verður að mínu viti að teljast eðlilegt að bæði nefnd og þingi sé gerð grein fyrir því, til hvers á að nota þær greiðslur sem hér er farið fram á að hæstv. ríkisstj. fái næsta 11/2 mánuð. Þetta er svo sjálfsagt sem vera má. Við það bætist svo að sjálfsögðu að núv. hæstv, fjmrh. og flokkur hans gerðu eðlilega kröfu til þess í desembermánuði, þegar efnislega samhljóða frv. var hér til meðferðar, um bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði, að lagðar yrðu á borðið um það upplýsingar, til hvers ætti að nota þá fjármuni. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. og hans flokkur, sem nú er kominn í ríkisstj., sé sama sinnis enn um það, að eðlilegt sé að Alþ. sé gerð grein fyrir til hvers eigi að nota þessa fjármuni.

Að vísu verður það að segjast, að engin slík krafa kom fram frá fulltrúum þess flokks í nefndinni, hver sem sú ástæða er. Það gæti, að ég held, haft áhrif á afstöðu þm. til þessa frv., í hvað ætti að nota þessar tilteknu greiðslur. Það er ekki einvörðungu um upplýsingamiðlun að ræða.

Nú stendur málið svo, að hér er komið til 2. umr. og engar upplýsingar hafa enn fengist frá fjmrn. eða ríkisstj. um það, í hvað eigi að nota þessa fjármuni. Menn standa því frammi fyrir því hvort þeir vilja snúast gegn málinu á þeim forsendum að viðkomandi upplýsingar hafi ekki borist. Ég hef persónulega engan áhuga á slíkum vinnubrögðum. En ég held að hæstv. núv. ríkisstj. svo og aðrar ættu að temja sér þau vinnubrögð, að allar upplýsingar varðandi mál sem þessi svo og önnur gætu legið fyrir áður en endanlega er til þess ætlast, að alþm. taki afstöðu til málanna.

Ég taldi nauðsynlegt að gera með þessum örfáu orðum grein fyrir fyrirvara mínum sem byggist á þessu, að engar upplýsingar hafa borist um það enn, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, til hvers á að nota þær greiðsluheimildir sem hér er farið fram á. Það er rétt að þingheimur viti það áður en afstaða er tekin í málinu.