13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér finnst ástæðulaust að eyða svo miklu máli sem raun ber vitni í þetta frv. Mér finnst lögin vera mjög ljós. Í 1. gr. segir:

„Þá er ríkisstj. heimilt að greiða úr ríkissjóði nauðsynlegar greiðslur til að standa við þegar gerða samninga vegna fjárfestinga ríkisins.“

Og í 3. gr. laganna stendur:

„Fjmrh. f.h. ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að 12 milljörðum kr. á árinu 1980 og verja andvirði þess í samráði við fjvn. til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja“.

Þessar framkvæmdir voru lagðar fyrir fjh.- og viðskn. í des. s.l. og ég er með yfirlit um þær hér á blaði. Þar er bæði um að ræða framkvæmdir í gangi og nýjar framkvæmdir. Ég get nefnt sem dæmi, að reiknað er með að í jan. og febr. verði varið til Landsvirkjunar 263 millj. og til Lánasjóðs ísl. námsmanna 700 millj. Þetta var sundurliðað þá og er háð samþykki fjvn., þannig að slíkt kemur til meðhöndlunar þar og peningar þessir verða ekki greiddir nema að fengnu samþykki fjvn. Um þetta er ekki gerð nein brtt. Mér sýnist því að þetta atriði liggi tiltölulega ljóst fyrir í þeim lögum sem nú er verið að framlengja.