19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er 42. mál þessarar hv. d. og á þskj. 42, fjallar um að ríkisstj. verði heimilt að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1979, að teknu tilliti til almennrar verðlagsþróunar, öll venjuleg rekstrargjöld og önnur gjöld, sem talist geta til venjulegra fastra greiðslna ríkisins, annars vegar og hins vegar að fjmrh. sé fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að taka lán allt að 12 milljörðum kr. á árinu 1980 og verja andvirði þess í samráði við fjvn. til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurlána til sveitarfélaga eða samtaka á þeirra vegum.

Það er augljóst hvers vegna frv. þetta er flutt. Það er vegna þess að ljóst er að ekki verður unnt að afgreiða fjárlög fyrir árið 1980 fyrir næstu áramót og því ber brýna nauðsyn til að veita ríkisstj. þær heimildir sem frv. þetta gerir ráð fyrir, þannig að ekki komi til greiðslustöðvunar hjá ríkissjóði þegar hinn 1. jan. n.k. Ef til slíkrar greiðslustöðvunar kæmi næði hún m.a. til allra samningsbundinna greiðslna ríkissjóðs, þ. á m. launa, auk allra venjulegra rekstrargjalda og annarra gjalda sem talist geta venjulegar fastar greiðslur ríkissjóðs.

Það er auðvitað alveg ljóst, að til þess má ekki koma að frá og með 1. jan. n.k. geti ríkissjóður ekki greitt slík gjöld, þ. á m. lögboðin gjöld og launakostnað. Því verður að fara þá leið nú, sem iðulega hefur verið farin á Alþ. áður, að samþykkja lög um bráðabirgðafjárgreiðslur til þess að ekki komi til greiðslustöðvunar af þessum sökum.

Ég vil aðeins taka það fram, að ég hef sent drög að þessu frv. fyrir nokkrum dögum til formanna þingflokkanna svo að þeir og þingflokkar þeirra gætu fengið ráðrúm til að kynna sér efni frv. Ég óskaði eftir því að fá að vita afstöðu þingflokkanna til frv. og hvort óskir væru um að einhverjum ákvæðum þess yrði breytt með einhverjum hætti.

Í umr. á Alþ. í gær lýstu formælendur allra flokka yfir að þeir mundu standa að samþykkt laga um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, eins og frv. það fjallar um sem hér er fram lagt. Hins vegar var ég ekki búinn að fá svör frá þingflokkunum um það, hvort þeir óskuðu eftir breytingum á þeim frumvarpstexta sem hér er lagður fram, svo að ég átti ekki annars kost en að leggja fram í gær og láta útbýta þessu frv. eins og það var í upphaflegri gerð, til þess að ekki kæmi til þess að leita þyrfti afbrigða við fyrstu afgreiðslu þess.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég er jafnreiðubúinn nú og ég var þegar ég ræddi við formenn þingflokkanna til að gera þær breytingar og fallast á þær breytingar á þessu frv. sem þingflokkar og fjh.- og viðskn.-menn telja eðlilegar. Mér er t.d. ekki fast í hendi að bráðabirgðafjárgreiðsluheimildin verði veitt til ótiltekins tíma eða þar til fjárlög hafa verið afgreidd eins og segir í frv., heldur get ég mætavel fallist á og stutt það, ef sú niðurstaða yrði í hv. fjh.- og viðskn., að veita aðeins bráðabirgðafjárgreiðsluheimild til tiltekins tíma. E.t.v. væri líka skynsamlegra að haga málum svo, því það væri þó alltént ákveðinn þrýstingur á Alþ. að afgreiða fjárlög innan þess tíma. Ef það tekst ekki er ávallt hægt að framlengja viðkomandi bráðabirgðafjárgreiðsluheimild með lagabreytingu.

Í 1. gr. frv. er eins og þar segir, leitað eftir heimild til að greiða öll venjuleg rekstrargjöld ríkissjóðs, en auk þess heimild til að greiða úr ríkissjóði nauðsynlegar greiðslur til að standa við gerða samninga vegna fjárfestinga ríkisins. Samninga um fjárfestingar er ekki getið í fyrri lögum um bráðabirgðafjárgreiðslur, en skýringin er vafalaust sú, að þá hafi ekki verið jafnmikið um samninga við verktaka og nú er orðið. Hins vegar er að sjálfsögðu ljóst að ríkissjóður þarf að geta staðið við samninga sem gerðir hafa verið við verktaka, þannig að heimild sé veitt til slíkra greiðslna með sama hætti og annarra óhjákvæmilegra greiðslna ríkissjóðs.

Í 2. gr. þessa frv: er síðan leitað eftir heimild til að stofna til tímabundins yfirdráttar á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum á árinu 1980. Þessarar heimildar hefur hin síðari ár verið leitað við setningu fjárlaga og er hún samhljóða ákvæði í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1979.

Í 3. gr. er síðan leitað heimildar til að taka lán allt að 12 milljörðum kr. á árinu 1980 til þess að halda megi áfram verkefnum sem unnin eru fyrir lánsfé. Langveigamest af þessum verkefnum eru á sviði orkumála. T.d. verður að afla fjár til áframhaldandi framkvæmda við Vesturlínu, en sú framkvæmd nálgast nú lokastig og ef til stöðvunar á þeirri framkvæmd kæmi mundi ríkisstj. og Alþ. ekki geta staðið við þær skuldbindingar að línan yrði tekin í notkun á næsta hausti. Hliðstæðu máli gegnir um ýmsar framkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Gjaldfallinn fjármagnskostnaður við byggðalinur er umtalsverður á fyrri hluta ársins 1980 og því nauðsynlegt að fjár verði aflað til að inna þær greiðslur af hendi.

Í lögum um heimild til lántöku fyrir árið 1979 fengu ýmsar stærstu hitaveitur landsins heimild til erlendrar lántöku til framkvæmda. Eigi þessar framkvæmdir að ganga með eðlilegum hætti á árinu 1980 er óhjákvæmilegt að afla nokkurs erlends lánsfjár.

Í þessu frv. er að því stefnt, að fjmrh. í samráði við fjvn. endurláni erlent lánsfé til þeirra hitaveituframkvæmda sem þegar eru hafnar, og ég legg áherslu á og vek athygli á að í frv. er beinlínis svo fyrir mælt, að þetta skuli gert í samráði við fjvn. Alþingis.

Ég get mönnum til fróðleiks upplýst hvaða framkvæmdir það eru sem hér um ræðir, sem ýmist eru þegar hafnar og þarf fram að halda eða afráðnar hafa verið af fráfarandi ríkisstj. og við fyrri afgreiðslu. Samkvæmt upplýsingum fjárlaga- og hagsýslustofnunar er hér um að ræða í A-hluta fjárlaga framkvæmdir í gangi sem hér segir: Vegna Þjóðarbókhlöðu 300 millj. kr., vegna vegagerðar 2500 millj. kr., vegna landshafna 75 millj. kr., vegna hafnargerðar á Grundartanga 100 millj. kr., vegna Járnblendiverksmiðju 195 millj. kr., og vegna Byggðasjóðs 2 milljarðar kr. Nýjar framkvæmdir, sem þegar hafa verið afráðnar og þarf að afla fjár til, eru: Vegagerð 2800 millj. kr., landshafnir 50 millj. kr., Landsvirkjun 263 millj. kr., Byggðasjóður 635 millj. kr. og Fiskveiðasjóður 900 millj. kr.

Í B-hluta eru ráðstafanir og framkvæmdir sem þegar eru í gangi:

Byggðasjóður 1300 millj. kr., Ríkisútvarp 250 millj. kr., framkvæmdir á vegum Rafmangsveitna ríkisins 2 milljarðar kr., vegna byggðalína 4 milljarðar 300 millj. kr., vegna Kröfluvirkjunar 1200 millj. kr., vegna dreifikerfis í sveitum 300 millj. kr., vegna sveitarafvæðingar 100 millj. kr., vegna jarðhitaveitna 400 millj. kr., vegna skuldagreiðslu vegna byggðalína 3 milljarðar 90 millj. kr., vegna hitaveitulána 500 millj. kr., vegna Pósts og síma 200 millj. kr., vegna jarðstöðvar 469 millj. kr. og vegna endurlána 34 millj. kr. Alls eru þetta 19.3 milljarðar kr. Vegna nýrra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru: Til Byggðasjóðs 1200 millj. kr., vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna 700 millj. kr., vegna Ríkisútvarps 250 millj. kr., vegna Rafmagnsveitna ríkisins 1000 millj. kr., vegna byggðalína 409 millj. kr., vegna dreifikerfis 400 millj. kr., vegna sveitarafvæðingar 115 millj. kr., vegna einkarafstöðva 20 millj. kr., vegna jarðhitaleitar 200 millj. kr. og vegna Pósts og síma 200 millj. kr. Auk þess eru framkvæmdir í gangi utan fjárlaga vegna hitaveitna upp á 4500 millj. kr., vegna Orkubús Vestfjarða 400 millj. kr. og til ýmissa aðila 250 millj. kr. Nýjar framkvæmdir fyrirsjáanlegar vegna hitaveitna eru 1800 millj. kr., vegna Orkubús Vestfjarða 346 millj. kr. og til ýmissa aðila 250 millj. kr. Samtals eru þessar lánsfjármögnuðu framkvæmdir upp á um 36 milljarða kr., sem áætlað er að skiptist þannig að innlend fjáröflun sé 13.8 milljarðar kr., en erlend lánsfjárþörf 22.2 milljarðar kr. Lagt er til að af þessu heildarfjármagni, um 36 milljörðum kr., verði veitt heimild í þessum brbl. til öflunar 12 milljarða kr. sem síðan sé ráðstafað í samráði við fjvn.

Þessar upplýsingar allar munu að sjálfsögðu liggja fyrir fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. sem og aðrar þær upplýsingar, er n. telur sig þurfa við afgreiðslu þessa frv.

Ég legg svo til, herra forseti, að máli þessu verði að lokinni umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn., og vil vekja athygli n. á því, að út úr texta frv. hafa fallið tvö orð, sem skipta mjög verulegu máli, þ.e. niður hefur fallið heimild til þess að afla jafnvirðis 12 milljarða kr. í erlendri mynt. Það eru þessi orð „í erlendri mynt“ sem hafa fallið út og ég mælist til þess, að úr því verði bætt hjá n. Þetta er í 3. gr. Þar stendur: „Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að 12 milljörðum kr.“ — „í erlendri mynt“ á þarna að koma til viðbótar.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. fjh.- og viðskn.