19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Frv. þetta, sem hæstv. fjmrh. hefur hér kynnt, mun koma til meðferðar í þeirri n. sem ég á sæti í. Ég vil taka það fram nú strax í upphafi, að við framsóknarmenn viljum standa að því að nauðsynleg starfsemi ríkissjóðs geti gengið með eðlilegum hætti og þar komi ekki til greiðslustöðvunar. Hitt vil ég taka skýrt fram, að við viljum að í 1. gr. frv. komi fram takmörkun um það, hvað þessi heimild gildi til langs tíma.

Ég er ekki á þessu stigi máls tilbúinn til að segja hver þessi tími eigi að vera, en fyrir okkur vakir að hann miðist við það, sem óhjákvæmilegt er til þess að greiðslur geti átt sér stað nú á næstunni, og síðan verði málið tekið fyrir að nýju ef ekki verður mynduð þingræðisleg ríkisstj. nú á næstunni.

Í öðru lagi vil ég segja það, að ég vildi gjarnan fá um það sundurliðaðar upplýsingar — og má vera að þær séu á þessu blaði sem hæstv. fjmrh. rétti mér — hvaða greiðslur það eru sem ríkissjóður þarf að inna af hendi nú á næstunni, þ.e. þessir 12 milljarðar. Ég vildi fá að vita nákvæmlega um hvaða framkvæmdir hér er að ræða, þannig að það liggi ljóst fyrir, þegar þessi heimild er samþ., til hvers hún er veitt og hvernig eigi að nota þessa peninga, að það sé í þær ákveðnu framkvæmdir og engar aðrar.

Í þriðja lagi fjallar þetta frv. um heimild fyrir fjmrh. til að stofna til tímabundins yfirdráttar á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum. Ég vildi gjarnan fá upplýst með hverjum hætti hæstv. fjmrh. hyggst ganga frá þessu máli, hvort hann hyggst gera samning við Seðlabankann nú á næstunni um þennan yfirdrátt, eins og mun hafa tíðkast. Það hefur verið gert samkomulag við Seðlabankann um þessi mál og ég vildi gjarnan fá upplýst, hvort hæstv. fjmrh. hyggst ganga frá einhverju

slíku samkomulagi við Seðlabankann eða leita eftir samkomulagi við hann og með hverjum hætti það samkomulag eigi að vera.