20.02.1980
Efri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvers kristindómurinn í landinu á að gjalda, að guðspjöllin skuli lögð að jöfnu við grundvallarstefnu Sjálfstfl. Ég vissi ekki betur en hv. síðasti ræðumaður væri nýkominn af fundi með kristilegum félögum þar sem búið væri að samræma Marx og guðspjöllin. Eru þau þá farin að koma nokkuð víða við, ef það fer allt í einu og allt í sama farvegi: guðspjöllin, Marx og grundvallarstefna Sjálfstfl.

Annars upplýstist það í umr. áðan hvers vegna hæstv. fjmrh. lagði svo mikið upp úr því að stökkva beint út í myrkrið. Það var auðvitað til þess að sjá á skuggamyndavélina, því að eins og hann upplýsti áðan er auðvitað ekki hægt að ákveða skattstiga öðruvísi en með skuggamyndavél. En það, sem fyrir okkur vakir sem höfum flutt hér frv. um skattstiga — og því skylt er auðvitað að hafa þetta allt í björtu er að fólkið geti fengið að sjá til, en þurfi ekki að vefjast í myrkrinu eða bíða eftir því að skuggamyndavélum verði brugðið á loft.

Meginatriði málsins er auðvitað það, að miklum tíma hefur verið varið í að leita eftir því, hvernig ætti að hafa skattlagningu á atvinnureksturinn í landinu, en fólkið, almenningur, bíður enn í óvissu um það, hvernig hann verði skattlagður. Þetta er grundvallaratriðið. Það var mikið spjallað um það áðan af hæstv. fjmrh. og hv. 11. þm. Reykv., að undirbúningur þyrfti að vera vandaður. Ég rakti það í upphafsræðu minni, að sú úttekt, sem auglýst er eftir, hefur farið fram. Það er líka ljóst, að allt frá því fyrir viku, þegar farið var að hafa á orði að þingið yrði sent heim, kom það fram hjá fulltrúum Alþfl. í fjh.og viðskn. beggja deilda að það ýtti á eftir því og gerði nauðsynlegt að ganga frá skattstigum tekjuskatts á einstaklinga til þess að draga úr óvissu, til þess að þetta skattalagafrv. þyrfti þó í sem minnstum mæli að vera stökk út í myrkrið. Það er þó alltént í áttina ef allur almenningur þarf ekki að velkjast í vafa og myrkri.

Hvers vegna hafa þá ekki farið fram ítarlegar umr. í n. um þetta? Það var vegna þess að fulltrúar Alþb. og Framsfl. í nefndunum höfðu ekki áhuga á því að láta þá umr. fara fram. Í hvert skipti, sem á því var imprað, ýttu þeir málunum til hliðar. En þetta mál hefur verið unnið mjög vel. Það liggur fyrir vönduð úttekt í þskj. 152 og þarf enga skuggamyndavél til þess að sjá hvernig þetta kemur út. Ég hefði líka talið að það væri ekkert því til fyrirstöðu, að alþm. hefðu skoðun, og það er það sem þeir hafa með flutningi þeirrar brtt. sem við höfum hér mælt fyrir. Það er svo annarra alþm. að taka afstöðu til hennar og sýna með þeim hætti hvaða skoðun þeir hafa.

Það kom fram í máli hæstv. fjmrh., að þó að hann segði nei við þessu, þá þýddi það ekki að hann væri á móti því. En það ber þá eitthvað nýrra við, ef túlka á afstöðu þannig, að þegar menn eru á móti hlut í atkvgr., þá þurfi það ekki að þýða að þeir séu á móti. Það held ég að sé fráleitt. Auðvitað á þessi deild að taka afstöðu til þeirra till. sem hér liggja fyrir með atkvgr. eins og venja er, og auðvitað á deildin að gera fólkinu í landinu þann greiða að samþykkja þær brtt. sem við höfum lagt fram.