20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

109. mál, tollskrá

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 167 hef ég leyft mér ásamt 1. þm. Suðurl. að flytja frv. til laga um breyt. á lögum nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum. 1. gr. frv. hljóðar þannig:

„2. og 3. mgr. 27. tl. 3. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1979, orðist svo:

Lækkun gjalda af hverri bifreið má nema allt að 750 þús. og heildarlækkun að meðtöldu innflutningsgjaldi allt að 1 millj. 500 þús. kr.

Þó skal heimilt að lækka gjöld af allt að 25 bifreiðum árlega um allt að 1.5 millj. kr. fyrir þá sem mestir eru öryrkjar, en geta þó ekið sjálfir sérstaklega útbúinni bifreið. Heildarlækkun að meðtöldu innflutningsgjaldi má nema allt að 3 millj. kr. af hverri bifreið samkv. þessari mgr.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Á 100. löggjafarþingi flutti ég ásamt Vilhjálmi Hjálmarssyni þáv. þm. og Hilmari Rósmundssyni frv. til laga um breytingu á tollskrá sem var í beinu samræmi við óskir og ábendingar frá landssamtökum lamaðra og fatlaðra í landinu. Á því þingi varð það frv. að lögum. Við gerðum ráð fyrir í frv. að allt að 500 bifreiðar nytu tollalækkana, en í meðförum Alþ. var talan lækkuð í 400 bifreiðar árlega.

Á 100. löggjafarþinginu voru samþ. lög um að fella niður gjöld af allt að 400 bifreiðum árlega fyrir bæklað fólk eða lamað svo og fólk með lungnasjúkdóma, hjartasjúkdóma og aðra hliðstæða sjúkdóma, allt á svo háu stigi að það ætti erfitt með að fara ferða sinna án farartækis. Samkv. þeim lögum má lækkun gjalda af hverri bifreið nema allt að 500 þús. kr. og heildarlækkun að meðtöldu innflutningsgjaldi allt að 1 millj. kr. Þó er heimilt að lækka gjöld af allt að 25 bifreiðum árlega um allt að 1 millj. kr. fyrir þá sem mestir eru öryrkjar, en geta þó ekið sjálfir sérstaklega útbúinni bifreið. Heildarlækkun að meðtöldu innflutningsgjaldi má þá nema allt að 2 millj. kr. af hverri bifreið.

Eins og öllum er ljóst hafa orðið miklar verðhækkanir síðan þessi lagabreyting tók gildi. Lætur nærri að verð bifreiða hafi hækkað um 50%. Að mati okkar flm. ber brýna nauðsyn til að hækka niðurfellingu á gjöldum, þar með talið innflutningsgjald, á bifreiðum til öryrkja til samræmis við þær verðlagshækkanir sem orðið hafa frá gildistöku laganna, til þess að það fólk, sem nú fær úthlutun, fái svipuð kjör og að var stefnt með fyrri lagabreytingu. Þarf raunar ekki að rökstyðja þá nauðsyn frekar. Við leggjum því til í þessu frv. að niðurfelling gjalda og innflutningsgjalds af þessum bifreiðum hækki um 50% frá gildandi lögum.

Það hefði verið ástæða til að gera um leið breytingu í þá átt að fjölga bifreiðum í þessu skyni. Við höfum ekki talið ástæðu til að gera það að þessu sinni, en þó vil ég benda á að við úthlutun, sem nú á að fara fram, eru gildar umsóknir, sem komnar voru inn þegar umsóknartími var út runninn, um 700 talsins. Mikið skortir því á að hægt sé að fullnægja þarna brýnustu þörfum.

Það kom einnig til umræðu við síðustu lagabreytingu, hvort ekki væri ástæða til að setja inn í lögin ákvæði sem heimila fjmrh. að hækka árlega niðurfellingu gjalda af slíkum bifreiðum, þ.m.t. innflutningsgjald, í samræmi við verðlagsbreytingar, sem gæti þá komið í staðinn fyrir nauðsyn þess að gera sífellt lagabreytingar í samræmi við þær verðlagsbreytingar sem orðið hafa hverju sinni. Þetta mætti mótspyrnu þegar málið var til umræðu á 100. löggjafarþingi. Þá var talið að Alþ. væri með slíku að veita ráðh. of mikil völd hvað þetta snertir. Ég tel ástæðu til þess að það atriði verði athugað í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar. Það mundi auðvelda þetta mál. En sjálfsagt eru á því agnúar sem þarf að skoða vandlega.

Við væntum að þessi lagabreyting, sem er aðeins í samræmi við þá brýnustu nauðsyn sem við teljum vera, njóti stuðnings hv. þm. og fái skjóta afgreiðslu í þingdeildum svo að hún verði að lögum fyrir þá úthlutun sem þarf að fara fram helst fyrir lok næsta mánaðar. Ef skilningur er á málinu tel ég að hægt væri að fá málið úr nefnd strax eftir það þinghlé sem nú er áformað. Málið kæmi þá til endanlegrar afgreiðslu í hv. Alþ. þegar að þinghléi loknu.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Það er ekki það langt síðan málið var hér til ítarlegrar umr. og skoðunar. Ég veit líka að hv. þm. hafa almennt áhuga á þessu réttlætismáli. — Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.