20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

109. mál, tollskrá

Árni Gunnarsson:

Herra forseti Ég fagna því frv., sem hér hefur verið kynnt, en vil um leið hvetja til þess að sú brtt., sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert grein fyrir úr þessum stól, verði tekin til alvarlegrar umfjöllunar og væntanlega samþ. á þessu þingi fljótlega. Ég tel fullkomlega ástæðulaust að á hverju þingi þurfi að koma fram frv. til l. um breytingar á þessum málum vegna þeirrar verðbólguþróunar sem við búum við. Langeðlilegast er að sú niðurfelling og Lækkun gjalda, sem hér um ræðir, verði ákveðin í eitt skipti fyrir öll í þá veru að hún taki tillit til verðlagsþróunar á hverjum tíma.

Ég get ekki stillt mig um það, úr því að þessi mál eru komin til umr., að benda á nokkur atriði sem eru tengd þessu máli af margvíslegum sökum.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að í sambandi við úthlutun leyfa fyrir bifreiðum, sem njóta þeirra kjara sem hér um ræðir, þurfi að standa nokkuð betur að útgáfu leyfanna en gert hefur verið. Ég held að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til efnahags þeirra einstaklinga sem leyfi hafa fengið, og þyrfti að gera gangskör að því að kanna hann hverju sinni þannig að tryggt verði að fólk, sem vissulega býr við örorku af því tagi sem þessi lög ná til, fái ekki leyfi ef efnahagur þess er á þann veg og tekjur að það hafi fyllilega ráð á að kaupa bifreiðar á því verði sem allur almenningur gerir. Hér held ég að sé ekki um neina mismunun að ræða, heldur miklu frekar meira jafnrétti.

Þá vil ég aðeins í tengslum við þetta mál minna á að hér er um að ræða hjálpartæki. Bifreið er fyrst og fremst hjálpartæki fatlaðs manns til að losna úr þeirri einangrun sem hann býr við. En fatlað fólk þarf að nota mörg önnur hjálpartæki. Ég tel brýna nauðsyn bera til að samræma þau lög og þær reglur sem gilda um niðurfellingu tolla og aðflutningsgjalda af hjálpartækjum. Það er nefnilega svo, að fötlun er ekki bundin við hreyfihömlun. Hún kemur fram á mjög margvíslegan hátt. Í mjög mörgum tilvikum er hún það sem kallað er dulin eða ósýnileg fötlun.

Þá þarf einnig og er brýn nauðsyn að reyna að auka upplýsingaflæði til þess fólks sem nýtur réttar eða á að njóta réttar samkv. lögum og reglugerðum sem samþ. hafa verið á hinu háa Alþingi.

Ég vil að endingu leggja til að sú brtt., sem nú hefur komið fram við frv. til laga um breyt. á lögum nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum, verði samþ, svo að hið háa Alþingi þurfi ekki á hverju einasta ári að afgreiða breyt. á lögum til lækkunar gjalda af þeim ökutækjum sem fatlaðir fá.