21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann, en tveir hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., hafa nú komið hér í ræðustól til að bíta hausinn af skömminni. Það veit hver einasti þm. að það er ágreiningur í stjórnarflokkunum sem veldur því að mál þetta er ekki afgreitt. Það liggur fyrir yfirlýsing frá Alþfl. um að hann ætli ekki að tefja málið. Það liggur fyrir flokkssamþykkt Sjálfstfl., að okkur beri að gera allt sem við getum til að koma málinu fram, og við höfum samþ. allar brtt. Þó þær hafi sveiflast fram og til baka vegna ágreinings í ríkisstj. höfum við samþ. allt sem formaðurinn hefur lagt til, og m.a.s. þegar hann hefur tekið til baka eigin till. höfum við samþ. það. Við erum reiðubúnir til að afgreiða málið umræðulaust, og ég efast ekki um að sjálfstæðismenn í Nd. séu það líka — eða umræðulítið, og þess vegna er þessi framkoma með öllu óverjandi. Það hefur varla komið hæstv. forsrh. mikið á óvart að Alþfl. mundi ekki samþ. þetta mál. Hann heldur því fram, að verulegur ágreiningur sé í nefnd, það sé nefndin sem stöðvi málið, — nefnd sem er einróma samþykk, með einni undantekningu. Alþýðuflokksmenn hafa gert grein fyrir sínu máli, og þeir höfðu vissulega rétt á að tala hér í 20 mínútur eða svo.

Við erum reiðubúnir að vaka í alla nótt og bíða eftir að stjórnin nái samkomulagi. Ég geri mér að vísu ekki miklar vonir um að hún nái samkomulagi, hvorki í þessu né öðru. En við skulum bíða. Það er ekki hægt að kenna stjórnarandstöðunni um að þetta mál frestast. Það veit hæstv. forsrh. mætavel. Það er einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki stjórn á sínu heimili og mun ekki hafa. Og hæstv. fjmrh. segir að það sé bersýnilegt, að málið nái ekki fram fyrir helgi. Við erum hér á fimmtudegi. Við bjóðumst til að vera hér í alla nótt, allan daginn á morgun, allan laugardaginn — enda þurfum við ekki að vera hér nema í hálftíma þegar boðið kemur frá stjórninni að hún hafi sæst, þá fer málið í gegn á einum hálftíma.