03.12.1980
Efri deild: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi þessar fsp. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar vil ég upplýsa að það var ekki um það beðið og ekki farið ofan í það á nefndarfundinum, hversu miklar breytingar væri þarna um að ræða. Mér sýnist af texta frv. að þarna sé fremur gengið í þá átt að útgjöld sjóðsins mundu lækka, verði frv. samþ. Mér virðist svo á þeim aths. sem fram koma við frv. Ég er ekki heldur með við höndina ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir frv. þessu í deildinni, þannig að ég get því miður ekki gert nánari grein fyrir því á annan hátt en vitna til aths. í frv. og jafnframt gera grein fyrir því, að það var ekki gerð sérstök úttekt á því eða ekki um það rætt sérstaklega á nefndarfundinum, hvort og hversu mikla upphæð væri þarna um að ræða.