04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

31. mál, stóriðjumál

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stefnumótun í stóriðjumálum sem við 19 alþm. Sjálfstfl. flytjum og greint er frá á þskj. 32. Efni till. er, eins og hún ber með sér, um stefnumótun í stóriðjumálum og lagt er til að Alþingi setji á stofn nefnd er starfi að slíkri stefnumótun.

Lagt er til að nefndina skipi sjö menn, kjörnir hlutfallskosningu á Alþingi að loknum hverjum alþingiskosningum. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir á sama hátt. Nefndin skipti að öðru leyti með sér verkum.

Í till. er greint frá verkefnum nefndarinnar og skal ég síðar víkja að þeim.

Ástæðan til flutnings þessarar till. er auðvitað sú, að okkur finnst lítið að gert í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar, að marka stefnu og kanna möguleika til framkvæmda í stóriðjumálum, í orkufrekum iðnaði. Það mun hafa verið 19. okt. 1978, að þáv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, lagði niður nefnd sem hafði verið skipuð og setið að störfum í raun allt frá 28. sept. 1971 og fjallaði um viðræður við erlenda aðila sem áhuga hefðu á þátttöku í orkufrekum iðnaði ásamt Íslendingum.

Nú er hæstv. iðnrh. sá hinn sami og lagði þessa nefnd niður og hefur ekki sýnt af sér nein þau merki að hann hyggist starfa að þessum málum af neinum krafti. Það er út af fyrir sig athyglisvert, að það var þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, sem skipaði þá nefnd 28. sept. 1971 sem hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson lagði niður fyrir tveim árum.

Það má út af fyrir sig rekja þessa sögu lengra aftur í tímann. Hinn 5. maí 1961 skipaði þáv. iðnrh., dr. Bjarni Benediktsson, menn í stóriðjunefnd til að kanna möguleika á vinnslu alúminíums hér á landi. Varð sú nefnd til þess að undirbúa svokallaða álsamninga, sem reyndar var fjallað um einnig síðar í þingmannanefnd þar sem tveir fulltrúar frá hverjum þingflokki áttu sæti og áttu aðgang að öllum þeim gögnum, sem lágu til grundvallar samningum við Swiss-Aluminium á sínum tíma.

Þótt ekki sé lengra farið út í forsögu málsins er alveg ljóst að nú er öðruvísi að málum staðið, að stöðvun er á komin og ekki sinnt þessum mikilvægu hagsmunamálum í efnahags- og þjóðhagsmálum okkar sem vera ber. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að nauðsynlegt sé að gera hér breytingu á. Við unum ekki þessu aðgerðaleysi og teljum illa farið að ekki hafi í raun verið að þessum málum starfað af neinum krafti s.l. rúm tvö ár, en viðræður við erlenda aðila hafa í raun ekki átt sér stað svo nokkru nemi eftir að lög um járnblendiverksmiðjuna voru samþykkt hér á Alþingi í maí 1977.

Það er ljóst, að við höfum möguleika á því að nýta orkulindir okkar mjög verulega. 1 grg. okkar flm. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í orkulindum landsins er að finna grundvöll að nýrri sókn til betri lífskjara, líkt og sjávarútvegurinn var í upphafi þessarar aldar. Bætt lífskjör og atvinnuöryggi landsmanna eru höfuðmarkmið þeirrar atvinnustefnu sem fylgja þarf. Það er því meginverkefni nú að hagnýta hin gífurlegu verðmæti sem fólgin eru í orkulindum landsins. Í því efni er nú mest um vert að móta stefnuna í stóriðjumálum með það fyrir augum að hagnýta orkulindir landsins til framleiðslu iðnaðarvara til útflutnings.“

Það er ljóst, að í landbúnaði verður ekki um mörg ný störf að ræða, ef ekki verður þar beinlínis fækkun mannafla í framtíðinni. Og sömuleiðis eru sjávarútveginum skorður settar vegna fiskveiðitakmarkana.

Fyrir kosningarnar í fyrra lögðum við sjálfstæðismenn áherslu á í stefnuyfirlýsingu okkar, er bar heitið Frelsi til framfara, að skapa þyrfti 15 000 ný störf næsta áratug. Mig langar til þess að minnast á örfá atriði úr þeirri stefnuyfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta. En þar segir m.a.:

„Með markvissri stefnu ríkisvalds er hægt að stórauka afköst atvinnuvega þjóðarinnar. Sjálfstfl. vill tryggja næga atvinnu fyrir alla landsmenn á þann hátt að skapa hvetjandi umhverfi fyrir arðbæra atvinnustarfsemi í landinu. Það er ljóst, að atvinnulífið getur veitt næga atvinnu og greitt há laun fyrir alla landsmenn um ókomna framtíð, ef stjórnvöld skapa atvinnustarfsemi eðlileg og hvetjandi starfsskilyrði. Helsta hættan á atvinnuleysi og landflótta felst í óraunhæfum og þarflausum afskiptum ríkisvaldsins af atvinnustarfsemi og einstaklingum, sem leiðir til lakari lífskjara alls almennings en annars mætti ná.

Atvinnuöryggi og stöðvun landflótta er þungamiðja atvinnustefnu Sjálfstfl. Á næsta áratug munu um 15 000 manns bætast á vinnumarkaðinn. Nauðsynlegt er að tryggja þessu fólki arðbæra vinnu og laun og lífskjör sem jafnast á við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Þessu markmiði er hægt að ná með því að beina framkvæmdafé þjóðarinnar til eflingar og framfara í hinum hefðbundnu greinum atvinnulífsins og til nýrra arðbærra atvinnugreina. Einungis á þann hátt er unnt að tryggja landsmönnum næga atvinnu og góð lífskjör í framtíðinni.“

Í þessari stefnuyfirlýsingu okkar, Frelsi til framfara, er bent á það, að þjónustugreinar hafi að undanförnu tekið til sín um 64% af nýjum starfsmönnum, sem þýðir tæplega 10 þús. af 15 þús. manna viðbót við vinnuaflið á næsta áratug. En með því að nauðsyn beri til að draga úr ríkisumsvifum og auka framleiðslu þjóðarbúsins sé ekki rétt að gera ráð fyrir að meira en helmingur af nýjum störfum eða 7 500 störf verði til í þjónustugreinum ýmiss konar, og er þá átt við verslun, viðskipti, samgöngur, ferðamál, svo og heilbrigðismál, mennta- og menningarmál, en aftur verði 7 500 störf í framleiðslugreinum þjóðarinnar á næsta áratug. Og þess er getið, að með markvissri atvinnustefnu geti sjávarútvegur, iðnaður og stórvirkjanir á sviði orkufreks iðnaðar skapað þau störf.

Rétt er að það komi fram, að undanfarið hafa verið töluverðar umræður um brottflutning fólks úr landinu. Sumir hafa í þeim umræðum komist svo að orði, að verið væri að flytja atvinnuleysið út og það væri m.a. skýring á því, að ekki hefði hingað til borið á atvinnuleysi í atvinnuleysisskráningu.

Það er ljóst, að brottflutningur fólks úr landinu er meiri en svo, að Alþingi geti lokað augunum fyrir þeirri staðreynd og skotið sér undan þeirri skyldu að gera þær ráðstafanir sem löggjafarsamkomunni ber skylda til að gera til að stöðva þessa þróun, ekki síst þegar það er haft í huga, að ætla má að þeir, sem flytjast burt af landinu, séu ekki síst þeir sem hafa hlotið meiri menntun og þjálfun en aðrir og hafa þess vegna skilyrði til þess með starfi sínu hér á landi að skapa grundvöll fyrir störfum fleira fólks en ella.

Það er ekki að ófyrirsynju, að við sjálfstæðismenn höfum staðnæmst við stefnumótun í stóriðjumálum og framkvæmdum í orkufrekum iðnaði, með tilvísun til þess er ég þegar hef rakið um þann auð sem við Íslendingar eigum í orkulindum landsins. Sá auður er engum til gagns ef hann verður ekki nýttur, og því hvetjum við eindregið til frekari framkvæmda á því sviði.

Það er og ljóst, að samkeppnisstaða þeirrar orku, sem fá má úr orkulindum okkar, hefur stórbatnað að undanförnu. Má í því sambandi nefna að samkeppnisstaða íslenskrar vatnsorku hefur stórbatnað vegna hækkunar almenns orkuverðs samhliða hækkun olíuverðs. Mengunarvarnir í kolakyntum orkuverum og öryggisvandamál í kjarnorkuverum hafa og orðið til þess, að orkuverð almennt fer hækkandi. Um leið fer þeim stöðum fækkandi sem boðið geta ódýra vatnsorku. Þá er þess og að geta, að framleiðsla með þessari orku hér á Íslandi mun njóta sín betur í framtíðinni en áður, vegna þess að fengist hefur tollfrjáls aðgangur fyrir iðnaðarvörur að Evrópumarkaði og almennt hafa tollar lækkað í iðnaðarlöndum. Þá má og nefna að spáð er aukningu eftirspurnar eftir ýmsum afurðum orkufreks iðnaðar og þá sérstaklega áli. Jafnvel er talað um þreföldun álframleiðslunnar næsta aldarfjórðunginn ef mæta eigi eftirspurninni. Í þessu sambandi er auðvitað rétt að hafa í huga að um sveiflur getur verið að ræða, eins og fram kemur í Morgunblaðinu í morgun hvað snertir járnblendi, þótt álmarkaðurinn sé hins vegar ágætur.

Þegar á þetta allt er litið er engum blöðum um það að fletta, að við eigum að nýta orkulindir okkar með því að stofna til orkufreks iðnaðar. Það hafa að vísu átt sér stað nokkrar umræður um það, hve miklar orkulindir okkar væru í raun. Lúðvík Jósepsson, fyrrv. form. Alþb., hafði orð á því, ef ég man rétt, í setningarræðu sinni á landsfundi Alþb. fyrir skömmu, að vatnsorka okkar væri ekki óþrjótandi, hún nægði í raun ekki nema til 40 ára ef byggt væri á almennri orkuþörf og vexti hennar í framtíðinni. Það liðu ekki margir dagar þar til önnur grein birtist í Þjóðviljanum eftir annan Alþb.-mann, Tryggva Sigurbjarnarson verkfræðing, sem hefur ekki síst starfað að orkumálum, þar sem hann mótmælti þessari skoðun þáv. formanns. Alþb. mjög sterklega og taldi að ef ekki væri um annað að ræða en almenna orkuþörf, þá mundi vatnsorka okkar nýtast til ársins 2100. Og hann taldi vafasamt, ef ég skildi hann rétt, að afkomendur okkar yrðu okkur afskaplega þakklátir. A.m.k. hefði sú orka, sem rynni óbeisluð til sjávar fram til þess tíma, ekki gert þeim kynslóðum gagn sem næstar kæmu okkur til að erfa landið.

Það liggja fyrir skýrslur um hvað er tiltækt af orku, og vil ég geta um það, að samkv. þeim spám er gert ráð fyrir að um næstu aldamót verði sú mynd hvað snertir raforkugetu og nýtingu raforku, að búið væri að nýta 6000 millj. kwst. eingöngu með þeirri stóriðju sem nú er í rekstri, en hún nýtir um 2000 millj. kwst. Hin almenna orkunotkun, ef svo má að orði komast, mundi ekki verða nema 4000 millj. kwst. um næstu aldamót. En með nýrri stóriðju væri leikur einn að hafa tiltækar 10000 millj. kwst. með virkjun hagkvæmasta vatnsaflsins, og þá væri möguleiki að þrefalda orkufrekan iðnað fram að aldamótum. Sumum væri það e.t.v. áhyggjuefni, að hér væri um of miklar framkvæmdir að ræða í orkuverum, við mundum spenna bogann of hátt. En því er ekki svo farið, síður en svo, vegna þess að til þess að fá fram slíka orkuvinnslu þyrfti um fimm nýjar stórvirkjanir eða stækkun núverandi virkjana á næstu tveim áratugum. Og ef við tökum til samanburðar hve stórar í sniðum þessar orkuframkvæmdir væru, þá er það svo, að framkvæmdir í virkjunarmálum þyrftu ekki að vera nema með sama hraða á næstu 20 árum og á síðustu 15 árum — eða réttara sagt, svo að engum misskilningi valdi, að framkvæmdir á ári hverju þyrftu ekki að vera meiri en hafa verið undanfarið. Ég held að þegar hagsmunir þeir, sem í húfi eru, eru hafðir í huga, þá blandist engum hugur um að hér er boginn ekki spenntur of hátt, heldur er hér um svo bráðnauðsynlegar og hagkvæmar framkvæmdir að ræða að það væri ófyrirgefanlegt ef við Íslendingar létum þetta tækifæri okkur úr greipum ganga.

En hver er þá staða okkar hvað snertir nýtingu raforku um næstu aldamót ef þetta gengi fram? Ég held að það sé rétt að fara örfáum orðum um það til þess að sýna fram á hvílíkan afturhaldsáróður Alþb.-menn hafa í frammi með fyrrv. formann sinn í broddi fylkingar. Þótt við Íslendingar værum búnir að nýta 10000 millj. kwst. af raforkugetu okkar um næstu aldamót, þá væri þar ekki nema um 1/3 hluta af hagkvæmu virkjanlegu vatnsafli okkar að ræða, og ættum við þá í raun algerlega eftir að nýta orkulindir þær sem felast í jarðvarmanum, en talið er að þar sé unnt að virkja til raforkunýtingar a.m.k. um 20000 millj. kwst. Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af að hér sé verið að ganga um of á auðlindir landsins eða spilla fyrir komandi kynslóðum. Þvert á móti er hér um að ræða nýtingu orkulindanna sem eru endurnýjanlegar og koma því áfram komandi kynslóðum að gagni þótt af þeim sé tekið með þeim hætti sem ég hér hef gert grein fyrir.

En þá gæti ég vel hugsað mér að úrtöluraddir Alþb.manna, þess afturhalds í efnahags- og framfaramálum sem þessum, muni vekja máls á því, að stórvirkjanir og orkufrekur iðnaður hafi ýmsar hættur í för með sér. Á þær úrtöluraddir höfum við Íslendingar vissulega hlýtt áður, en ekki látið hafa þau áhrif á okkur, að við höfum hætt við nauðsynlegar framkvæmdir, þótt óneitanlega hafi sérstaklega komið fram á síðustu árum að þessar úrtöluraddir hafa hægt á nauðsynlegri framfarasókn. Við munum það, að þegar rætt var um stórvirkjun í Þjórsá að Búrfelli, þá var haft á orði að þetta væri tæknilega miklum örðugleikum bundið, ísvandamálið væri óleysanlegt, það væri langtum skynsamlegra að virkja minna, annaðhvort minna í Þjórsá, 70 mw. í stað fyrirhugaðra 210 mw., eins og ákveðið var, eða fara í smávirkjanir. Það er engum vafa bundið, að það var m.a. vegna ísvandamála óraunhæft að fara eingöngu í 70 mw. áfangavirkjun í Þjórsá, og bæði sú áfangavirkjun sem og leið minni virkjana í Brúará eða annars staðar hefði leitt til mun dýrara rafmagns til íslenskra orkunotenda, hvort heldur heimila eða fyrirtækja, en raun ber síðar vitni á grundvelli stórvirkjana. Og það er álsamningurinn við Swiss-Aluminium sem var forsenda þess að unnt var að ráðast í stórvirkjun í Þjórsá.

Við höfum heyrt þann samning gagnrýndan vegna of lágs orkuverðs. Við skulum hafa í huga að um þetta orkuverð var samið áður en til orkukreppunnar kom og olíuverðshækkana. En þótt svo hafi verið, þá hefur þessi samningur gert okkur það gagn, að við höfum allar götur síðan búið við langtum ódýrara rafmagn til eigin nota, Íslendingar, heldur en ef þessi samningur hefði ekki verið gerður. Og við höfum þar að auki notið góðs af rekstri álverksmiðjunnar og eftirfarandi iðnaðarrekstri.

Við munum það líka, að getið var um hættu á áhrifum alþjóðaauðvaldsins. Einn af þm. Alþb. sagði í þingræðu, með leyfi forseta:

„Það, sem er höfuðatriðið í sambandi við tilkomu þessa erlenda hrings, eru áhrif hans á íslensk stjórnmál. Þessi auðhringur verður á næstu áratugum sterkasti aðilinn í íslenskum stjórnmálum.“

Þetta var sagt fyrir um tæpum 15 árum. Ég held að enginn kannist við áhrif Swiss-Aluminium á íslensk stjórnmál eða geti fundið þeim áhrifum stað.

Þá var og, mjög um það talað af hálfu Alþb.-manna, að slík stóriðja og orkufrekur iðnaður mundi verða vinnustaður fyrir neðan virðingu okkar Íslendinga, láglaunavinnustaður sem gerði kröfu til innflutnings erlends verkafólks jafnvel. Einn þm. Alþb. spurðist t.d. fyrir um það, hvernig færi ef þessi erlendi hringur flytti inn erlent verkafólk sem hann réði fyrir lægri kjör. En hver hefur reynslan orðið? Vinnustaðir eins og álverið í Straumsvík og járnblendiverksmiðjan eru eftirsóttir vinnustaðir. Hjá þessum fyrirtækjum á sér stað minni breyting starfsfólks en á öðrum vinnustöðum. Og það er staðreynd, að fólk er betur launað á þessum vinnustöðum heldur en annars staðar í atvinnulífinu. Þess vegna eru þessir vinnustaðir eftirsóttir.

Þá var og mjög um það talað, að hætta væri á mengun og umhverfisröskun, og skal ég ekki gera lítið úr nauðsyn þess, þegar um orkufrekan iðnað og raunar alla mannlega starfsemi er að ræða, að gætt sé að umhverfisvernd og mengunarvörnum. En sem betur fer hefur svo vel tekist til, að fullkomnustu mengunarvarnir hafa verið settar upp í báðum þessum verksmiðjum. Í upphafi var að vísu ekki nægilega vel að því staðið hvað álverið snertir, en skýringin var að þá voru ekki meiri eða betri mengunarvarnir en gerðar voru kröfur um. En með eftirfarandi samningum hefur tekist að sjá svo um, að miklum framkvæmdum í mengunarvörnum verður lokið á næsta ári í álverksmiðjunni í Straumsvík. Og hrakspár eins og þm. Alþb. höfðu uppi um það, að svæðið frá Reykjavík og suður á Reykjanes yrði óíbúðarhæft, hafa sem betur fer reynst fjarri lagi.

Staðreyndin er sú, að þessar framkvæmdir hafa orðið til þess að við höfum aukið gjaldeyrisöflun okkar um 20%. Talið er að á næsta ári muni 1/5 hluti tekna okkar í erlendum gjaldeyri stafa af rekstri þessara verksmiðja og sölu framleiðslu þeirra erlendis. Og það er ekki svo lítið þegar við tökum það til samanburðar, að nú er útlit fyrir að greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum nemi samsvarandi upphæð.

Það er heldur ekki lítils virði, þegar við höfum í huga þessa orkusölusamninga, að orkusölusamningurinn við ÍSAL hefur í raun greitt fyrir Búrfellsvirkjun með miðlunarmannvirkjum og orkuflutningslínum, Geithálsspennistöð og gasaflsstöð við álverið á 25 árum.

Það fer því ekki á milli mála, að við höfum haft af þessu hið mesta gagn og fyllsta ástæða er til þess að halda áfram á þessari braut. Þá er ekki með því sagt að vanrækja eigi aðra atvinnuvegi og byggja t.d. ekki áfram á landbúnaði og sjávarútvegi eða almennum iðnaði.

Í þeirri mannaflaspá, sem ég gat um að stefnuyfirlýsing okkar sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar hefði haft inni að halda, er einmitt gert ráð fyrir því, að í almennum iðnaði verði um 3000 ný störf á næstu tveim áratugum.

Við sögðum í stefnuyfirlýsingu okkar, sjálfstæðismenn, fyrir síðustu kosningar um iðnað og stórátak til að nýta innlendar orkulindir eftirfarandi:

„Iðnaður mun á næstu árum gegna stórauknu hlutverki í atvinnulífi þjóðarinnar. Innlendum iðnaði þarf að skapa skilyrði til að auka framleiðni sína og fara inn á nýjar brautir svo að hann styrkist og geti greitt há laun, bæði í samkeppni við innflutning og á erlendum markaði. Gerðar verði ráðstafanir til þess, að hann njóti jafnrar aðstöðu og starfsskilyrða og aðrar innlendar atvinnugreinar og erlend iðnfyrirtæki. Hraðað verði á næsta kjörtímabili áframhaldandi uppbyggingu þeirra stóriðjufyrirtækja sem fyrir eru hér á landi, og þegar verði hafinn undirbúningur að einu nýju stórfyrirtæki á sviði rafefnaiðnaðar og stefnt að því, að framkvæmdir við það geti hafist á kjörtímabilinu. Stefnt verði að því, að almenningur eignist hlutafé í því og einnig þeim stóriðjufyrirtækjum, sem fyrir eru í landinu, en að öðru leyti ráðist samstarf við erlenda aðila á þessu sviði af því, sem hagkvæmt er talið á hverjum tíma.“

Og enn fremur: „Í óbeisluðum orkulindum landsins eru fólgin gífurleg verðmæti. Orkulindir þessar eyðast ekki þótt þær séu hagnýttar, heldur endurnýjast sífellt. Sjálfstfl. telur bæði eðlilegt og nauðsynlegt að nýta þessar auðlindir til að byggja upp atvinnulíf og bæta lífskjör þjóðarinnar. Skipulag orkumála verði við það miðað, að frumkvæði sveitarfélaga, einstaklinga og fyrirtækja þeirra fái notið sín á þessu sviði. Hraðað verði nýtingu jarðvarma og raforku til húshitunar og iðnaðar og stefnt að því, að Íslendingar verði sjálfum sér nógir í orkuframleiðslu fyrir aldamót. Enn fremur verði á kjörtímabilinu ráðist í tvær stórvirkjanir vegna uppbyggingar stóriðju auk minni framkvæmda til að auka raforkuvinnsluna á næstunni.“

Og enn fremur: „Haldið verði áfram af fullum krafti rannsóknum á orkulindum landsins, og gengið verði frá frumhönnun og umhverfiskönnun á öllum hagkvæmustu virkjunarkostum í fallvötnum landsins.“

Og þá tel ég rétt, einmitt í framhaldi af þessum orðum í stefnuyfirlýsingu okkar sjálfstæðismanna, að fara nokkrum orðum um hvaða virkjunarframkvæmdir eru hér helstar á dagskrá á næstunni. Er þar, hygg ég, sammæli manna, að einkum sé um að ræða Fljótsdalsvirkjun, Blönduvirkjun og Sultartangavirkjun eða aðra virkjun í Þjórsá.

Ég skal ekki hér kveða upp úr um það, hvern þessara virkjanakosta eigi að velja fyrst, og tel það ekki heldur aðalatriðið, heldur hitt, að þeir séu valdir hver á eftir öðrum í óslitinni framkvæmdaröð og jafnvel svo, að nauðsynlegt sé á einhverju tímabili að hafa tvennt í takinu í senn, ef við eigum að ná því markmiði að þrefalda orkufrekan iðnað til aldamóta og tryggja atvinnuöryggi landsmanna með þeim hætti og í öðrum atvinnugreinum, sem munu styrkjast við uppbyggingu orkufreks iðnaðar.

Ég hlýt í sambandi við Fljótsdalsvirkjun að vitna til þess, að á fundi sveitarstjórnarmanna á Austurlandi og þingmanna Austurlandskjördæmis, sem haldinn var að tilhlutan og á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í Vopnafirði 23. ágúst s.l., var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt:

„Fundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um orkumál, haldinn á Vopnafirði 23. ágúst 1980, lýsir ánægju sinni með samstöðu þingmanna Austurlands

kjördæmis í virkjunar- og atvinnumálum fjórðungsins. Fundurinn vill leggja áherslu á eftirfarandi atriði:

1. Virkjunarmál. Til að nálgast þau markmið Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, að í fjórðungnum sé til staðar nægileg orka með sem mestu öryggi og við sem lægstu verði, er virkjun í fjórðungnum grundvallaratriði.

2. Orkufrekur iðnaður. Fundurinn telur nauðsynlegt að nú þegar verði hafinn undirbúningur að orkufrekum iðnaði í fjórðungnum.“

Í þriðja lagi er svo ályktun um verðlagsmál, sem liggur fyrir utan verksvið mitt að þessu sinni. Enn fremur voru samþykktar einróma á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi undirtektir við fram komna samþykkt sveitarstjórna á Reyðarfirði og Eskifirði, sem gerð hafði verið nokkru áður um orku- og atvinnumál og gerði ráð fyrir orkufrekum iðnaði á Reyðarfirði.

Þarna var um að ræða samstöðu manna úr öllum stjórnmálaflokkum — og umboðsmaður hluta þeirra er hæstv. iðnrh., sem ég vænti að brjóti ekki þessa samheldni þeirra, sem á Austurlandi búa, með því að stöðva framgang áhugamála þeirra. Það er ljóst, að um Fljótsdalsvirkjun verður ekki á næstunni að ræða með hagkvæmum hætti nema orkufrekur iðnaður sé reistur á Reyðarfirði eða annars staðar á Austurlandi, vegna þess að hagkvæmni Fljótsdalsvirkjunar byggist á því, að virkjunaráfanginn er stór og til þess að koma orkuframleiðslunni í verð þarf slíkan kaupanda sem orkufrekt iðnaðarfyrirtæki er.

Ef ég vik að Blönduvirkjun, þá sýnist þar vera um mjög hagkvæman virkjunarkost að ræða, sem e.t.v. er ekki af þeirri stærð að orkufrekur iðnaður sé forsenda þeirrar virkjunar, en ljóst er að hagkvæmni þeirrar virkjunar mundi og verða miklum mun meiri, hún mundi koma miklu fyrr í gagnið, ef orkufrekur iðnaður er þar samhliða, hvort heldur er á Norðurlandi eða annars staðar á landinu.

Ég vil svo víkja að verkefnum þeim, sem nefnd til stefnumótunar í stóriðjumálum á að hafa samkv. þáltill. okkar sjálfstæðismanna, en þar er sagt í fyrsta lagi: „Að kanna hagkvæmni framleiðslugreina, sem til álita koma á sviði orkufreks iðnaðar, með tilliti til orkuverðs, flutningskostnaðar og markaðsmöguleika.“

Mér hefur verið sagt að það þurfi ekki nema 10–15 svokölluð mannár, starf 10–15 reyndra manna í eitt ár, til þess að tengja saman þá kosti, sem við höfum í orkufrekum iðnaði, og gera sér grein fyrir með hvaða hætti einn kosturinn getur tengst öðrum og styrkt hann eða þá. Það er auðvitað sjálfsagt að leggja alla áherslu á að slíkri vinnu sé lokið sem allra fyrst, svo að við höfum í höndum öll þau gögn, sem nauðsynleg eru, þegar áfram er haldið í samningum við væntanlega eigendur orkufreks iðnaðar. Þó er það svo, að málin liggja það skýrt fyrir nú þegar að aðallega munu þrjár vörutegundir koma til greina að mati þeirra sem best þekkja.

Það er helst aukin álframleiðsla. Ál er vafalaust mikilvægast þeirra vörutegunda, sem hér er mögulegt að framleiða í stóriðju, en heimsframleiðslan er nú um 13 millj. tonna og eftirspurn fer vaxandi. Hér er e.t.v. ekki síst ástæða til þess að staðnæmast við frekari úrvinnslu í hálfunnar eða fullunnar álafurðir, en í samningum við ÍSAL er einmitt gert ráð fyrir því, að fyrirtækið og Alusiuisse veiti atbeina sinn til þess, að unnt verði að hefja slíka úrvinnslu hér á landi. Því miður hefur ekki orðið úr þeim framkvæmdum og ástæða er til að hefja nýtt átak til þess að gera þann möguleika að veruleika.

Aðrar vörutegundir, sem til greina koma, eru kísiljárn og hreinn kísilmálmur.

Framleiðsla allra þessara vörutegunda krefst mikillar orku. Þær eru mjög verðmætar miðað við þyngd og eftirspurn eftir þeim hefur farið vaxandi. Að sjálfsögðu þarf að kanna frekari möguleika á því, hvort hér megi fá með hagkvæmum hætti hráefni til annars orkufreks iðnaðar, t.d. magnesíumframleiðslu.

Hér er og sjálfsagt að kanna, hvort til er í landinu hráefni sem unnt er að nýta í orkufrekum iðnaði, t.d. í sambandi við einangrunarframleiðslu og saltframleiðslu, en hæstv. iðnrh. hefur lofað niðurstöðum rannsókna á hagkvæmni þeirra framleiðslugreina fyrir lok þessa árs. Ég hef þegar getið um að í stefnuyfirlýsingu okkar sjálfstæðismanna er gert ráð fyrir að unnið sé að því að kanna með hvaða hætti við getum orðið sjálfum okkur nógir, Íslendingar, fyrir næstu aldamót um eldsneytisframleiðslu.

Í öðru lagi er það verkefni nefndarinnar samkv. þáltill. að kanna möguleika á samvinnu við erlenda aðila á sviði tækni, markaðsmála og fjármögnunar stóriðju. Ég held að það fari ekki á milli mála, að hvaða skoðanir sem menn hafa á aðild útlendinga að stóriðjuframkvæmdum sé nauðsynlegt að kanna möguleika á samvinnu við erlenda aðila á sviði tækni, markaðsmála og fjármögnunar stóriðju. Hér er auðvitað um tækni að ræða, sem við Íslendingar höfum ekki tileinkað okkur í öllum greinum, þótt það hafi stórkostlega þýðingu, hve vel við Íslendingar höfum þó tileinkað okkur tækni i álframleiðslu og járnblendiframleiðslu og hve vel Íslendingum í þeim verksmiðjum hefur tekist til. En markaðsmálin eru auðvitað forsenda þess, að unnt verði að ráðast í framkvæmdir, að það sé markaður, eftirspurn eftir framleiðslunni, og slík könnun verður ekki gerð nema í samvinnu við erlenda aðila.

Loks er rætt um samvinnu við erlenda aðila um fjármögnun stóriðju, sem ég held líka að við getum verið sammála um að sé nauðsynleg, burt séð frá eignaraðild að þessum fyrirtækjum, vegna þess að enginn gerir væntanlega ráð fyrir því, að eiginfjármyndun í landinu sjálfu sé nægileg til þess að lána til slíkra stórframkvæmda. Þannig geri ég ekki ráð fyrir því, að þarna sé komið að ágreiningsmálum íi sjálfu sér hvað verkefni nefndarinnar snertir. En í þriðja lið er sagt í ályktunartillögum, að nefndin eigi að „gera tillögur um stóriðjuframkvæmdir, sem hagkvæmt þykir að stofna til. Skal þar kveðið á um eignaraðild fyrirtækja, fjármögnun, orkuöflun og orkuverð og önnur rekstrarskilyrði og staðsetningu iðjuvera.“

Hér getur auðvitað komið til ágreinings á milli flokka og milli manna, en það er einmitt tilgangur með nefndarskipuninni að greina þann ágreining og leitast við að jafna hann, ef mögulegt er. Starfsemi þessarar stóriðjunefndar er auðvitað nauðsynleg til þess að gera ákveðnar tillögur um stóriðjuframkvæmdir og hafa ákveðið samstarf og samvinnu og frumkvæði að slíku samstarfi og samvinnu við aðra aðila, svo að unnt sé að gera tillögur um slík fyrirtæki og hvernig gera skuli þau að veruleika. Slík nefnd ætti að gera löggjafarsamkomunni og framkvæmdavaldinu grein fyrir tillögum, hvernig eignaraðild skuli háttað, fjármögnun, orkuöflun og hvaða orkuverð liggi til grundvallar og önnur rekstrarskilyrði væntanlegra iðjuvera, þ. á m. staðsetningu þeirra.

Staðsetning iðjuvera getur verið mjög mikilvæg til framkvæmdar á byggðastefnu, eins og þeir Austfirðingar hafa komið auga á. Það yrði mikil lyftistöng fyrir Austurland ef orkufrekur iðnaður yrði þar starfræktur. Og raunar vil ég rifja það upp, að álverksmiðjan í Straumsvík hefur verið byggðastefnu mjög mikil lyftistöng, vegna þess að skatttekjur frá álverksmiðjunni hafa verið notaðar til þess að fjármagna framkvæmdir byggðastefnu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hluti af skatttekjunum fór í Byggðasjóð, eða forvera Byggðasjóðs á sínum tíma, einmitt til þess að bæta landsmönnum í öðrum landshlutum upp þær framkvæmdir, sem áttu sér stað á Suðvesturlandi, og hefur það gert sitt gagn. Raunar má einnig á það benda, að þróun síðustu 10 ára eftir að álverksmiðjan hóf starfsemi sína hefur ekki sýnt að um frekari flutning manna hingað til Suðvesturlandsins væri að ræða, heldur hefur einmitt sú þróun stöðvast áberandi.

Ég vil ítreka það, að við sjálfstæðismenn viljum ekki slá því föstu, með hvaða hætti í hverju tilviki fyrir sig um alla framtíð eigi að haga eignaraðild fyrirtækja eða þátttöku erlendra aðila í orkufrekum iðnaði. Við teljum að það eigi að fara eftir atvikum hverju sinni og taka eigi afstöðu til þess eftir því sem mál liggja fyrir þegar ákvörðun er tekin. Ég vil þó geta um það, að hér er auðvitað um áhættufyrirtæki að ræða og að svo miklu leyti sem við Íslendingar getum ekki haft í okkar höndum alla þræði þessa máls þessara framleiðslufyrirtækja getur verið rétt og nauðsynlegt að erlendir aðilar taki áhættuna af rekstri þessara fyrirtækja að einhverju leyti. Þá á ég við að ef við höfum ekki vald á hráefnaöflun eða við höfum ekki vald á markaðsmálum sem tryggi þessum fyrirtækjum hráefni eða markað, þá kunni að vera nauðsynlegt að hafa ákveðna samvinnu við erlend fyrirtæki og þau taki áhættuna af rekstri þeirra að nokkru leyti. Það er líka rétt að loka ekki augunum fyrir því, að mörg þessara fyrirtækja eru þess eðlis, að fyrstu árin eru erfið. Fyrstu rekstrarár álverksmiðjunnar í Straumsvik voru erfið. Á það hefur verið bent, m.a. af fyrrv. formanni Alþb., Lúðvík Jósepssyni, að álverksmiðjan hafi verið rekin með tapi nokkur ár og járnblendiverksmiðjan sé rekin með tapi sem stendur. Þess vegna eru menn ekki á eitt sáttir, að það hafi verið skynsamlegt að öllu leyti fyrir Íslendinga að eiga meira en helming af járnblendiverksmiðjunni, heldur sé sú stefna skynsamlegri að búa svo um hnútana að við Íslendingar getum smám saman eignast þessi fyrirtæki, eftir því sem við sjálfir viljum, á ákveðnu tímabili, miðað við þá reynslu sem fengist hefur af fyrirtækjunum og þeim árangri sem þau hafa sýnt i raun. Þetta er sú leið, sem Norðmenn hafa farið, og við höfum af fordæmi þeirra ákveðinn lærdóm að draga. Í ályktun okkar sjálfstæðismanna er einmitt lögð áhersla á það, að við búum svo um hnútana að við Íslendingar verðum smám saman eignaraðilar að fyrirtækjunum. Í þessu efni verður og að hafa í huga að reisa okkur ekki hurðarás um öxl fjárhagslega. Ég gat um það, að greiðslubyrði erlendra lána og vaxta væri að nálgast fimmtung af gjaldeyristekjunum. Og það skiptir máli, þegar um mörg önnur verkefni en orkufrekan iðnað er að ræða, að sjá svo um að við séum á hverjum tíma borgunarmenn fyrir erlendum lánum, sem við tökum, og fjárhagsgreiðslum í sambandi við þau. Við stefnum í of miklar erlendar lántökur vegna annarra framkvæmda og útgjalda heldur en bundin eru orkufrekum iðnaði eða framfarasókn á þeim vettvangi, og því er ástæða til að nefna þetta sérstaklega.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fjalla öllu meir um þessa þáltill. okkar sjálfstæðismanna, en vil þó leggja áherslu á að við teljum eðlilegt að hér sé um nefnd að ræða sem starfi ekki tímabundið. Við gerum till. um að hún sé kosin hlutfallskosningu á Alþingi að loknum hverjum alþingiskosningum. Við sjáum fyrir að hér er um verkefni ekki eingöngu næstu ára, heldur og áratuga að ræða, og það er eðlilegt að ákveðið samhengi sé í þessu starfi, burt séð frá því hvaða ríkisstj. er við völd hverju sinni. Reynslan sýnir okkur, m.a. með niðurlagningu viðræðunefndar um orkufrekan iðnað í októbermánuði 1978, að slík slit og stöðvun á þjóðnýtu og þjóðnauðsynlegu starfi eru til skaða, og við viljum tryggja að áfram sé unnið að þessum verkefnum á ábyrgð löggjafarsamkomunnar, í tengslum og góðu samstarfi við framkvæmdavaldið á hverjum tíma, og höfum því þennan hátt á um nefndarskipun.

Ég tel svo ástæðu til, áður en ég lýk máli mínu, að nefna að á þskj. 8 er till. til þál. um aukningu orkufreks iðnaðar sem þm. Alþfl. flytja. Þar er einnig gerð till. um nefnd sjö þm. sem fjalli um stórfellda aukningu á orkufrekum iðnaði. Ég tel, þótt till. okkar sjálfstæðismanna sé e.t.v. nokkru nákvæmar útfærð að ýmsu leyti, að efnislega sé um sama tilgang að ræða með þáltill. þessum, og tel auðsætt, að n. sú, sem fjallar um þessar till., geri tilraun til og vonandi takist að samræma þær. Í raun sé ég ekki ástæðu til annars en að ætla að allir þm., hvar í flokki sem þeir standa, geti fallist á að hefja nú starf á þessu sviði. Þótt ég hafi bent á það afturhald, sem afstaða Alþb. ber vitni um á þessi sviði sem ýmsum öðrum, vil ég ekki útiloka þann möguleika, að hæstv. iðnrh. geti fengið flokksmenn sína til þess að vera raunhæfari á þessu sviði en málflutningur margra þeirra ber vitni um.

Það er till. mín, herra forseti, að þáltill. þessari verði vísað til allshn. og umr. frestað.