04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

86. mál, iðnaðarstefna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þessi umræða byrjaði með svolítið óvenjulegum hætti. Ég skal ekki kvarta undan því út af fyrir sig þó að menn beri hér fram fsp. um þingsköp, eins og nú hefur verið gert. Ég held að ég þurfi ekki að eyða mjög löngu máli til þess að koma á framfæri skýringum við hv. 4. þm. Reykv. í sambandi við það sem hann vék að sérstaklega. Ég skil út af fyrir sig að hann vilji gjarnan geta túlkað þetta mál svo, að það snúist um traust eða vantraust á ríkisstj., og kannske enn frekar um traust eða vantraust á mig sem ráðh., því að ég las það hér á haustdögum í forsíðufyrirsögn í hans litla flokksblaði, að eftir slíku vantrausti væri sérstaklega óskað, og ég hef heyrt það í málflutningi hv. þm. síðan, að hann hefur miklar áhyggjur af meðferð mála sem snerta það svið sem ég fer með í ríkisstj.

En svo vill til að hv. 4. þm. Reykv. var utanrrh. um skeið í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og hefði, ef hann hefði sjálfur mátt ráða, trúlega verið lengur í því embætti og ekki fært sig á milti stóla eins og reyndin varð haustið 1979. Og í þessari ríkisstj. stóð hann að samþykkt og framlagningu frv. sem hefur orðið öðrum frumvörpum nafntogaðra síðan og gengur undir nafninu Ólafslög. Í þessum Ólafslögum svonefndum, lögum nr. 13 frá 1979, er sérstakur kafli um framfarir í atvinnuvegum og hagræðingu í atvinnurekstri. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í upphafi 22. gr.: „Ráðuneyti einstakra atvinnuvega skulu hafa forgöngu um gerð atvinnuvegaáætlana hvert á sínu sviði.“ Og 24. gr. þessara sömu laga er svohljóðandi: „Ríkisstj. leggur atvinnuvegaáætlanir fyrir Alþingi sem þáltill. eða lagafrv., eftir því sem við á.“ Þetta er lögfest með góðu samþykki hv. þm., sem þá var ráðh., og minnist ég margra ljúfra stunda úr samstarfi við hann þá, sem því miður varð styttra en ég hefði kosið.

En varðandi áhyggjur hans af þessu máli formsins vegna, þá er ég til með að líta með honum í austurátt. Ég vil þó ekki líta mjög langt eftir fordæmum í þá áttina, en mér er kunnugt um að á Norðurlöndum er það mjög tíðkað að leggja stefnumarkandi þáttill. varðandi mjög mikilvæga þætti þjóðmála fyrir þjóðþingin og láta þau fjalla um þær. Ég held að við getum vel tekið upp það fordæmi, og það er raunar gert hér í mjög veigamiklum málaflokkum, að flytja slíkar þáltill. sem gefa vísbendingar um æskilegar fjárveitingar, en eru að sjálfsögðu ekki bindandi í sambandi við fjárútvegun eða fjárútlát sem fjvn. og Alþingi fer með. Nægir að nefna þar vegáætlun til nokkurra ára og hafnaáætlanir til nokkurra ára, sem ekki eru bindandi svo mér sé kunnugt. Mér sýnist raunar að hér sér kjörið efni fyrir hv. þm. til þess að fjalla ítarlega um í svo sem einu útvarpserindi. Ég viðurkenni fúslega að hann hlýtur að hafa miklu meiri reynslu af Alþingi og starfsháttum þess heldur en ég vegna langrar setu sinnar, en eitthvað hefur nú fennt yfir minni hv. þm. frá því að hann stóð að samþykkt Ólafslaga ásamt mörgum fleiri um það form sem er viðhaft í þessu máli.

Um framlagningu málsins og fsp. hv. þm. Friðriks Sophussonar hefur hæstv. forseti þegar svarað með þeim skýringum sem hann veit bestar eflaust. Ég kann ekki neinar skýringar á því frekar, og ég vona að það komi ekki að sök hafi þarna orðið um einhverja tilfærslu að ræða í sambandi við nr. á þskj., en það er sem sagt ekki að minni ósk neitt sem hefur gerst í því máli.

Mig langar þá að víkja að dagskrármálinu, þeirri till. til þál. um iðnaðarstefnu sem hér er til umr. Slík till. var fyrst lögð fram skömmu fyrir þinglok vorið 1979, en kom þá ekki til umr. Hún var aftur lögð fram óbreytt haustið 1979, en varð þá ekki heldur rædd vegna skjótra þingslita. Þáltill. er nú flutt með nokkrum breytingum, enda önnur ríkisstj. við völd. Endurspeglar till. nokkrar nýjar áherslur úr stjórnarsáttmála ríkisstj. og auk þess er höfð hliðsjón af margháttuðum aðgerðum í iðnaðarmálum á því eina og hálfa ári eða þar um bil, sem liðið er frá því að slík þáltill. var fyrst lögð fram. Ég flutti hana þá sem iðnrh. með samþykki ríkisstj., en fyrirvara af hálfu einstakra ráðh. í þáv. ríkisstj. varðandi viss efnisatriði, eins og fram kom í grg. Nú er till. hins vegar flutt af ríkisstj. og er það ánægjuefni að samstaða hefur tekist um þessa stefnumörkun á undirbúningsstigi.

Við undirbúning till. var að því stefnt, að um hana gæti skapast allviðtæk samstaða. Bakgrunn að þessari stefnumörkun myndar álit samstarfsnefndar um iðnþróun sem lagt var fram í maí 1979 og enn er lagt fram sem fskj. með þessari þáltill. Í samstarfsnefndinni, sem enn starfar á vegum ráðuneytisins, eiga sæti níu menn með víðtæk tengsl og reynslu í iðnaðarmálum. Var eitt af meginverkefnum nefndarinnar að undirbúa fyrir ráðuneytið drög að iðnaðarstefnu sem hafa mætti til hliðsjónar við opinbera stefnumörkun á þessu sviði. Kann ég nefndinni þakkir fyrir ötult starf að þessu máli svo og fyrir mörg önnur verkefni sem hún hefur fjallað um fyrir ráðuneytið varðandi iðnaðarmálefni.

Með till. þeirri til þál., sem hér er lögð fram , er gerð tilraun til að móta samræmda stefnu í iðnaðarmálum af hálfu hins opinbera og fá fram sem skýrasta afstöðu Alþingis til þess, hver eigi að vera þáttur iðnaðar í þeirri þróun atvinnulífs sem sýnist nauðsynleg á næstu árum. Mikilvægt er að skapa samstöðu um þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru taldar eigi iðnaðurinn að geta gegnt því hlutverki að verða ein meginundirstaða framfara í atvinnu- og efnahagslífi á komandi árum. Þess er vænst, að með skýran vilja Alþingis í þessu máli að bakhjarli geti stjórnvöld og stofnanir og samtök iðnaðarins tekið með virkari hætti en ella væri á þeim fjölmörgu vandamálum, sem enn standa í vegi fyrir eðlilegri þróun iðnaðar, og búið iðnaðinum hagstæðari skilyrði til vaxtar.

Margt bendir til að við Íslendingar stöndum á tímamótum í atvinnumálum þar sem hagnýta þurfi mun fjölþættari kosti en hingað til. Þannig verði auk öflugs sjávarútvegs og fiskiðnaðar að koma til fjölbreyttur iðnaður, sem m.a. byggi á og vaxi upp af þeirri þekkingu og reynslu sem við höfum öðlast í hefðbundnum atvinnugreinum hingað til. Af öðrum þáttum, sem rennt geta stoðum undir öfluga innlenda iðnþróun, má nefna ýmsar hráefnaauðlindir og innlenda orku svo og ýmis önnur náttúruskilyrði og hugvit til að framleiða samkeppnishæfar iðnaðarvörur til heimanota og útflutnings. Þessu nýja hlutverki sínu fær iðnaðurinn ekki valdið nema til komi breytt viðhorf gagnvart málefnum hans og honum verði markvisst sköpuð skilyrði til vaxtar.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi áliti samstarfsnefndar um iðnþróun ríkir nú meiri óvissa um þróun í atvinnumálum og varðandi atvinnuöryggi á næstu árum en áður hefur verið talið og gætu verið fram undan miklar breytingar á þróun atvinnulífs og skiptingu vinnuafls í landinu eftir atvinnugreinum.

Byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur reynt að meta líkurnar á breytingum í atvinnuvegum landsmanna á næstu árum og ástæður er að baki liggja. Vísast um það efni til grg. og fskj. með till. Fyrir liggur að talsvert hefur verið um brottflutning fólks úr landi umfram aðflutta á undanförnum árum, ekki síst á árunum 1976 og 1977, er um 1000 fleiri fluttust úr landi en til landsins árlega. Þótt samsvarandi tala hafi verið komin niður í 525 manns, eða orðin nær helmingi lægri í fyrra, er ástæða til að hafa áhyggjur af slíkri þróun sem talar sínu máli þótt ástæður fyrir tilfærslu fólks milli landa séu margar og sumpart aðrar en áður fyrr.

Traust atvinnulíf og góð lífskjör í víðtækri merkingu með félagslegu öryggi og aðstöðu til menningarlífs og hollra tómstundaiðkana eru gæði sem ráða í vaxandi mæli viðhorfi fólks til búsetu. Þótt atvinnuöryggi hafi verið hér meira en í grannlöndum okkar um hríð verðum við að hafa vakandi auga á blikum, sem á lofti eru einnig að því leyti, og bregðast við í tæka tíð.

Ég mæli síður en svo með einhliða áherslum í uppbyggingu atvinnulífs í landinu. Þar þurfum við að huga vel að úrbótum og þróun í atvinnuvegum okkar sem vel hafa reynst og enn geta skilað miklu til viðbótar ef skynsamlega er að málum staðið, ekki síst varðandi nýtingu lífrænna auðlinda lands og hafs. En til að treysta efnahagslegan grunn í þjóðarbúskap okkar og draga úr álaginu á þær auðlindir, sem sumpart eru ofnýttar, hljótum við að stefna að því að byggja hér upp arðvænlegan iðnað til viðbótar þeim, sem fyrir er, og leitast við að tryggja bætta framleiðni á því sviði sem öðrum.

Í sókn eftir hagvexti og framleiðniaukningu verður hins vegar að slá varnagla varðandi félagsleg áhrif og gæta þess það taka þau með í reikninginn og samfélagslegan kostnað í heild, þar með talin umhverfisáhrif af iðnþróun og iðnvæðingu.

Vöxtur iðnaðarframleiðslu hefur orðið mun meiri en vöxtur þjóðarframleiðslu s.l. áratug. Útflutningur iðnaðarvara hefur farið vaxandi. Að áli undanskildu hefur útflutningur iðnaðarvara vaxið úr því að vera 4% af heildarútflutningi árið 1970 í 8% 1979. Sérstaklega er ánægjuleg hin mikla aukning sem orðið hefur í útflutningi ullarvara. Mikil aukning hefur orðið í útflutningi iðnaðarvara, án áls og kísiljárns fyrstu níu mánuði yfirstandandi árs. Er aukningin þar í magni talið um 27%. Hagur útflutningsiðnaðarins hefur og farið batnandi á seinni hluta þessa árs.

Mig langar þá að víkja að nokkrum greinum sem standa í mestri samkeppni við erlendar iðnaðarvörur, en það eru sælgætisgerð, húsgagna- og innréttingasmíði, fataiðnaður, pappírsvöruiðnaður, veiðarfæraiðnaður, hreinlætisvöruiðnaður, málningariðnaður, kex- og kökugerð, raftækjaiðnaður og málm- og skipasmíði. Allar þessar greinar iðnaðar eiga í samkeppni og sumar hverjar hafa barist í bökkum. Leitast hefur verið við að athuga breytingar á framleiðsluverðmæti, vinnsluvirði og vinnuafli í þessum greinum á árabilinu 1970–1978. Framleiðslumagn þessara greina er talið hafa aukist um 69% á tímabilinu 1970–1978, á meðan iðnaðarframleiðslan í heild hefur vaxið um 60%. Framleiðsla í þeim greinum, sem í mestri samkeppni eiga, hefur því vaxið meira en iðnaðarframleiðslan. Vil ég þó með þessum samanburði engan veginn gera lítið úr þeim erfiðleikum sem einstakar greinar eiga við að glíma.

Þjóðarframleiðslan óx á sama tímabili um 48%. Aftur á móti hefur hlutdeild þessa samkeppnisiðnaðar í heildaratvinnuframboði íslensks iðnaðar lækkað úr 35.3% árið 1970 í 33.7% árið 1978 eða um 4.5%. Hér er skýringa sérstaklega að teita í verulegri fækkun starfsmanna, m.a. í húsgagnaiðnaði, pappírsiðnaði og sælgætisiðnaði. Nákvæmir útreikningar hafa ekki verið gerðir nýlega á markaðshlutdeild samkeppnisgreina iðnaðarins, en í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem heitir Hagur iðnaðar og kom út í febrúar 1977, er talið að markaðshlutdeildin hafi farið minnkandi öll árin á fyrri hluta áratugarins, þ.e. 1970–1975.

Breytingar á framleiðsluverðmæti, framleiðslumagni og vinnuafli eru mjög mismunandi í einstökum greinum iðnaðar. Þær greinar, sem hafa aukið framleiðslu sína mest, hafa ekki fjölgað starfsfólki sínu í takt við framleiðslubreytingar á s.l. áratug. Nú er talið að um 17 þús. manns starfi í iðnaði, en það eru um 17% af starfandi fólki á vinnumarkaði.

Eins og áður er getið töpum við fleira fólki úr landi en hingað flyst, og margvíslegar breytingar eru fyrirsjáanlegar í atvinnulífi sem þrengt geta að á vinnumarkaði. Líkur benda til að iðnaður þurfi að taka við a.m.k. 2500 manns til viðbótar, ef vel ætti að vera, á næstu þremur árum og um 2000–2500 manns að auki fram til ársins 1988, eða alls um 4500–5000 manns, miðað við að þátttaka kvenna í atvinnulífi haldi áfram að vaxa svo sem verið hefur. Hugsanlega gæti þörf fyrir ný störf orðið mun meiri ef veruleg aukning yrði á framleiðni í iðnaði og fækkun í einstökum greinum hans. Aukin þjónusta gæti þó vegið hér nokkuð á móti svo og að sjálfsögðu styttur vinnutími, sem er ein mikilvægasta breytingin sem verða þarf í okkar atvinnulífi.

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um nauðsyn iðnþróunar og að breikka þurfi undirstöður efnahagslífsins. Stjórnvöld hófu alvarlegar tilraunir til skipulegrar stefnumótunar í iðnaðarmálum í byrjun sjöunda áratugarms, m.a. í tengslum við inngöngu Íslands í EFTA. Síðan hafa öðru hverju verið gerðar tilraunir til skipulegs átaks, svo sem með tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna upp úr 1970, störfum iðnþróunarnefndar 1973–1975, iðnkynningarstarfsemi á árunum 1976–1977 og margháttuðum aðgerðum hin síðustu ár. Þrátt fyrir þessa viðleitni hefur vantað samræmda iðnaðarstefnu af hálfu hins opinbera.

Í upphafi þáltill., sem hér er til umr., eru sett fram meginmarkmið sem lagt er til að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að beita sér fyrir á sviði iðnaðar og við framkvæmd iðnaðarstefnu. Það er í fyrsta lagi að örva framleiðni í íslenskum iðnaði þannig að framleiðnistig hans verði sambærilegt við það sem gerist í helstu viðskiptalöndum og skilyrði skapist fyrir bætt lífskjör. Í öðru lagi að stuðla að hagkvæmri fjárfestingu til að fjölga störfum í iðnaði og tryggja fulla atvinnu með hliðsjón af aðstæðum í öðrum atvinnugreinum og áætlunum um fjölda fólks á vinnumarkaði. Í þriðja lagi að leggja sérstaka áherslu á að efla iðnað á þeim sviðum þar sem innlendir samkeppnisyfirburðir geta nýst til arðbærrar framleiðslu á vörum og þjónustu jafnt fyrir heimamarkað sem til útflutnings. í fjórða lagi að bæta starfsskilyrði og að auka áhrif starfsfólks á vinnustöðum og koma í veg fyrir skaðleg áhrif af völdum iðnvæðingar á náttúru landsins og umhverfi. Og í fimmta lagi að tryggja forræði landsmanna yfir íslensku atvinnulífi og auðlindum og stuðla að æskilegri dreifingu iðnaðar og jafnvægi í þróun byggðar í landinu.

Þannig eru orðuð meginmarkmiðin í þessari þáltill. Um þessi markmið vænti ég að skapast geti víðtæk samstaða bæði hér á Alþingi og úti í þjóðlífinu. Vissulega eru þau almennt orðuð og er það með ráði gert. Frekar má vænta þess, að skoðanir greinist varðandi leiðir er vísað er til, og þó einkum er á framkvæmd reynir um einstaka þætti. Annað væri óeðlilegt.

Áður en ég drep hér á einstaka þætti, er varða aðgerðir af hálfu opinberra aðila til að ná settum markmiðum, vil ég vitna í grg. um þau meginviðhorf til iðnþróunar sem liggja að baki till., en þau eru sett fram með svofelldum hætti í 12 liðum á bls. 5–6 í þskj.:

Í fyrsta lagi, að vinna þurfi að iðnþróun með samhæfðu átaki fyrirtækja og samtaka og stofnana iðnaðarins og opinberra aðila.

Í öðru lagi, að leggja verði mikla áherslu á þróun iðnaðar á næstu árum, með sérstöku tilliti til aukins útflutnings iðnaðarvara.

Í þriðja lagi, að búa þurfi iðnaðinum hagstæð vaxtarskilyrði með því að jafna aðstöðu hans og annarra atvinnuvega. Þegar teknar eru ákvarðanir um aðalatriði efnahagsmála verði sérstaklega gætt að áhrifum þeirra á iðnaðinn.

Í fjórða lagi, að skapa þurfi þannig jarðveg fyrir iðnþróun að frumkvæði sem flestra fái notið sín við margbreytileg viðfangsefni og horft sé til sem flestra kosta, en ekki eingöngu byggt á afmörkuðum sviðum iðnaðar.

Í fimmta lagi, að lögð verði áhersla á að efla sérstaklega þær greinar og fyrirtæki sem hafa góð vaxtarskilyrði og geta veitt varanlega samkeppnisyfirburði. Iðnaður með háa framleiðni getur að jafnaði greitt góð laun og þannig valdið miklum margföldunaráhrifum á atvinnu í þjónustugreinum. Endurmeta þarf stöðu greina sem fara halloka í samkeppni, en gjalda varhug við óraunhæfri aðstoð eða verndaraðgerðum.

Í sjötta tagi að kanna sérstaklega með hvaða hætti verði unnt að nýta orkulindir landsins þannig að landsmenn haldi forræði í þeirri uppbyggingu og að hún samrýmist að öðru leyti þjóðfélagslegum markmiðum sem víðtæk samstaða getur tekist um.

Í sjöunda lagi að stuðla að aðlögun og nýsköpun í iðnaði með því að hvetja til vöruþróunar, markaðsleitar og rannsóknar- og þróunarstarfsemi í fyrirtækjum. Slíkar aðgerðir séu örvaðar m.a. með fjárhagslegri aðstoð hins opinbera, tæknilegum stuðningi frá stofnunum iðnaðarins og aðgerðum í skattamálum.

Í áttunda lagi að auðvelda iðnaðinum að takast á við stærri verkefni en hingað til og styðja sveitarfélög til að greiða fyrir iðnþróunaraðgerðum í landshlutunum, t.d. með ráðningu sérhæfðra starfsmanna og byggingu iðngarða.

Í níunda lagi að stuðla að nýsköpun í iðnaði m.a. með því, að ríkið eitt sér eða í samvinnu við aðra aðila taki þátt í stofnun meiri háttar nýiðnaðarfyrirtækja. Stjórn ríkisins á eigin atvinnurekstri þarf að samræma og gera hana markvissari. Athuga ber það form að setja eignarforræði yfir helstu fyrirtækjum í ríkiseign á eina hendi. Gera þarf auknar arðsemiskröfur til ríkisfyrirtækja og ráðstafa mætti arði af slíkum fyrirtækjum til þróunar og uppbyggingar nýiðnaðar.

Í tíunda lagi að auka áhrif starfsfólks á eigið vinnuumhverfi og efla skilning þess á daglegum viðfangsefnum og stöðu sinni í framleiðslunni. Þessi viðleitni getur stuðlað að bættum rekstrarárangri fyrirtækja og jafnframt vakið starfsfólk til umhugsunar um félagslegt inntak vinnunnar.

Í ellefta lagi að forðast að vaxandi iðnaður leiði til óæskilegrar röskunar á náttúru landsins og félagslegu umhverfi. Iðnvæðing og aukin framleiðsla má ekki verða á kostnað heilbrigðs umhverfis eða skynsamlegrar nýtingar auðlinda.

Í tólfta lagi að tryggja að breytingar á atvinnuháttum stuðli að sem bestu jafnvægi í þróun byggðar í landinu og ekki skapist misvægi sem leiði til verulegrar byggðaröskunar. Sérstaklega þarf að huga að iðnaði sem treyst geti búsetu í sveitum og smáum byggðakjörnum og aukið fjölbreytni í atvinnuframboði.

Þetta er tilvitnun í grg. með þáltill., en í sjálfri till. er á eftir upptalningu meginmarkmiða vikið að leiðum til að ná þeim markmiðum fram. Ég vil víkja að þessum leiðum nokkrum orðum til glöggvunar fyrir hv. þm. og þingnefnd sem málið fær til meðferðar.

Þar er í upphafi bent á vegvísandi áætlanir fyrir einstakar iðngreinar. Slík áætlanagerð er þegar hafin og hefur verið glímt við hana fyrr á árum, en hún er brýnni nú en nokkru sinni fyrr, ekki síst til þess að bæta stöðu þeirra greina sem eiga í erfiðri samkeppni og reynsla þarf að fást á með því að bæta framleiðni þeirra, hvort eigi sér lífsvon hér til lengdar miðað við þá fríverslun sem við búum við. Dæmi um greinar, sem taka þarf slíku taki, er málmiðnaðurinn í landinu, skipasmíðaiðnaðurinn í landinu. Unnið er að verkefnum á því sviði. Margt fleira mætti nefna.

Þá er vikið að því, að áætlanir þurfi að gera um einstök verkefni í nýiðnaði, og er þá átt við meiri háttar verkefni eða nýjar greinar. Ég get tekið dæmi um eina slíka grein sem hyggja þarf mjög vel að á næstunni, en það er efling rafiðnaðar að meðtöldum rafeindaiðnaði, en eins og menn þekkja af miklu umtali um örtölvuna og áhrif hennar á atvinnurekstur má vænta mikilla breytinga vegna þess að slíkur búnaður verði tekinn í notkun. Þurfum við Íslendingar ekki aðeins að huga að nýtingarmöguleikum slíks búnaðar, heldur framleiðslumöguleikum á þessu sviði.

Sama gildir um nýiðnað sem byggt gæti á innlendum hráefnum, þ. á m. innlendum steintegundum. Þar eru athuganir í gangi sem sumar hverjar eiga sér langan aðdraganda, eins og athuganir á sjóefnavinnslu, en einnig vil ég nefna athuganir á steinullarframleiðslu og athuganir á brotajárni. Þó að það hráefni sé að vísu aðflutt til landsins liggur það hér að hluta til engum til gagns eða er flutt úr landi.

Margt fleira mætti þarna til telja, t.d. ilmenít til títanvinnslu, sem nokkrar athuganir hafa farið fram á, en huga þarf mun betur að.

Raunar er það álit sérfróðra aðila, að við getum á þessu sviði haslað okkur völl í ýmsum greinum í sambandi við svokallaða sílíkat-tækni, sem tengist m.a. sementsiðnaði og úrvinnslu úr innlendum steinefnum, þar sem við gætum í krafti okkar orkulinda gert steinefni okkar að nýtilegum varningi.

Þetta á að sjálfsögðu einnig við um orkunýtinn eða orkufrekan iðnað, sem þegar hefur verið til umræðu hér í þinginu í dag og ég ætla ekki að ræða um sérstaklega í þessu samhengi.

Varðandi meginþátt þeirra leiða, sem að er vikið í þáltill., þá er þar um að ræða ábendingar um aðgerðir af hálfu hins opinbera sem gera þurfi til þess að örva iðnþróun. Ef við lítum aðeins á þá þætti — og skal ég þó ekki staldra lengi við hvern þeirra — þá eru þar fyrst nefnd starfsskilyrði sem búa þurfi iðnaðinum hliðstætt öðrum atvinnugreinum. Það liggur fyrir og er, held ég, viðurkennt af þeim sem hlutlægt vilja líta á málin, að býsna mikið skortir á að iðnaðurinn njóti í reynd jafnræðis á við okkar góðu og hefðbundnu atvinnugreinar í ýmsum efnum. Tilfinnanlegast tel ég þetta vera á sviði aðgangs að fjármagni, ekki síst í sambandi við lán, þ. á m. rekstrar- og afurðalán. Um þetta hafa verið teknar saman upplýsingar sem sýna t.d. að ef litið er á heildarútlán innlánsstofnana til einstakra atvinnuvega sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, þá kemur í ljós að á árunum 1970–1978 hefur hlutfall iðnaðarins í heildarútlánum innlánsstofnana hrapað niður um nær helming, eða um 2.3 prósentustig af vergri þjóðarframleiðslu, á meðan staða annarra atvinnugreina hefur ekki rýrnað neitt viðlíka, landbúnaðurinn þó lækkað úr 3% í 2.6% á þessu tímabili, en sjávarútvegurinn haldið sínum hlut með Iðnaðarstefna. 1152 5.9%. Þetta tek ég hér sem dæmi til skýringar á þeirri áherslu sem lögð er á að jafna aðgang þessarar mikilvægu atvinnugreinar í sambandi við fjármagn.

Þetta varðar einnig reglur sem eru í gildi hjá viðskiptabönkum varðandi vöru- og birgðalán iðnfyrirtækja. Þær reglur eru með allt öðrum hætti en reglur um útlán á landbúnaðarafurðir og fiskafurðir, þannig að fyrirtæki, sem þurfa að standa undir verulegum vörubirgðum í iðnaði, standa mun verr að vígi. Einnig vantar almennar heimildir varðandi ríkisábyrgðir í sambandi við slíka framleiðslu, ef við ætlum að gera ráð fyrir því í reynd, að hér verði veruleg iðnþróun á næstunni.

Á sviði skattamála hefur verið bent á mismunun sem er til athugunar á vegum ríkisstj. og raunar fyrirheit um að stíga þar skref til jöfnunar, t.d. í sambandi við aðstöðugjöld, þar sem iðnfyrirtækjum er ætlað að bera hærri aðstöðugjöld en fyrirtækjum í öðrum greinum.

Margt fleira er fram borið í þessu efni af talsmönnum iðnaðarins, þó að skoðanir séu skiptar um réttmæti þess í einstökum atriðum eða möguleikum á að ná fram slíkri jöfnun á skömmum tíma.

Sérstök nefnd á vegum ríkisstj. vinnur að því að greina þessa þætti, og þess er að vænta að gleggri upplýsingar liggi fyrir innan tíðar.

Þá er vikið að gengisákvörðunum og mikilvægi þess, að horft sé til hagsmuna iðnaðarins í sambandi við meiri háttar ráðstafanir í okkar efnahagslífi. Þar skiptir gengisskráningin auðvitað verulegu máli og ákvarðanir sem teknar eru í tengslum við hana. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að gera því skóna, að iðnaðurinn geti orðið ráðandi um gengismál, hliðstætt og gerist um okkar meginútflutningsatvinnuveg, sjávarútveginn. En ef við ætlum að byggja upp iðnað í landinu og meðan hann er ekki öflugri en hann er, þá verðum við að taka ríkulegt tillit til hans í sambandi við meiri háttar efnahagsaðgerðir, ef við viljum ekki kippa stoðum undan starfandi fyrirtækjum og vaxtarmöguleikum nýrra fyrirtækja og nýrra greina.

Vikið er að nauðsyn þess að efla lánasjóði iðnaðarins. Um það mætti fara mörgum orðum, en það, sem stingur sérstaklega í augu þegar litið er til lánasjóðanna, er að útlánahlutfall þeirra er mun lægra til raunhæfrar fjárfestingar heldur en gerist í öðrum atvinnugreinum, og hefur þó ýmislegt færst til betri vegar í þeim efnum hin síðustu ár varðandi útlánagetu aðalstofnlánasjóðsins, Iðnlánasjóðs. Hér hafa orðið breytingar til bóta, en að sjálfsögðu þarf að tryggja aukið fjármagn til iðnaðar, ekki síst í gegnum sjóði iðnaðarins, því að slíkt er ein mikilvægasta forsenda iðnþróunar.

Bent er á rannsókna- og þróunarstarfsemi sem leggja þurfi mikla áherslu á í sambandi við iðnþróun. Þar hefur Rannsóknaráð ríkisins unnið mikilvægt starf á undanförnum árum. Í gildi er sérstök langtímaáætlun um rannsóknar- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna sem fengið hefur staðfestingu Alþingis og raunar ríkisstj. líka. Þarna þurfum við að hafa sérstakt auga á iðnaðinum, því að það liggur fyrir að miðað við vinnsluvirði í iðnaði er hlutfallið — í samanburði við t.d. það sem varið er til rannsókna og þróunar í fiskvinnslu og landbúnaði — margfalt lægra, raunar nær tífalt lægra þegar litið er til iðnaðar. Það er ekki síst hlutur iðnfyrirtækjanna sjálfra sem á vantar í þessu sambandi. Því er ætlun stjórnvalda að hvetja fyrirtæki til að leggja í kostnað að þessu leyti, og í athugun er að leggja fram eða gera tillögur um skattalegar aðgerðir til þess að hvetja til slíkrar rannsóknar- og þróunarstarfsemi á sviði iðnaðar, sérstaklega að því er snýr að iðnfyrirtækjunum.

Þjónustustofnanir iðnaðarins eru að sjálfsögðu einn þýðingarmesti þátturinn í opinberri fyrirgreiðslu við iðnað. Þar er fyrst og fremst um að ræða Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Tvær hinar fyrr töldu eru ríkisstofnanir, en að Útflutningsmiðstöð iðnaðarins eiga samtök iðnaðarins og fleiri aðild og fjármögnun er ekki með beinum hætti úr ríkissjóði lögum samkvæmt, því að Útflutningsmiðstöðin er ekki ríkisstofnun að formi til. Hlutur hennar hefur batnað verulega hin síðustu ár, en það þarf að festa hana í sessi og koma styrkari fótum undir hana fjárhagslega.

Ég vil alveg sérstaklega leggja áherslu á þýðingu þess að efla Iðntæknistofnun á næstu árum. Það eru gerðar verulegar kröfur til þessarar stofnunar sem eðlilegt er, miklu meiri en möguleikar eru á að hún geti sinnt með því fjármagni sem til hennar hefur runnið á undanförnum árum. Þarna þarf að verða á mikil breyting. Stofnunin þarf að verða þess megnug að bjóða þjónustu við flestar iðngreinar, auk þróunarverkefna, og það þarf að örva hana til að afla sér tekna og fá framlög úr ríkissjóði á móti, tekna sem komi frá starfandi fyrirtækjum, en einnig frá sjóðum iðnaðarins, og þar gæti ríkisvaldið lagt fram ákveðið hlutfall á móti.

Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gegnir skilgreindu hlutverki lögum samkvæmt og afar þýðingarmiklu. Þarf ekki annað en að benda á þá vá sem steðjar að þeim mannvirkjum sem reist hafa verið á undanförnum árum vegna svokallaðra alkalískemmda, en þar vinnur Rannsóknastofnun nú að leiðum til úrbóta. Þetta snertir raunar allt hið stóra svið byggingariðnaðarins, þar sem leita þarf leiða til að ná niður kostnaði, annars vegar að stuðla að skynsamlegri varmanýtingu með góðri einangrun íbúðarhúsnæðis til að draga úr hitunarkostnaði og einnig varðandi byggingarefni. Í því sambandi minnist ég þáltill. um notkun léttsteypu sem komin er fram í þinginu, en ekki er til umræðu.

Um þjónustustofnanir iðnaðarins mætti tala langt mál, en ég ætla ekki að hafa þau fleiri hér. Ég vil aðeins ítreka það, að gera þarf mun betur við þessar stofnanir og gera þeim kleift að vera þjónustustofnanir í orðsins fyllstu merkingu, bjóða þjónustu við fyrirtækin og við iðngreinarnar þannig að þær verði öflugur stuðningsaðili við þá iðnþróun sem hér þarf að ná fram.

Þegar hefur verið vikið að fjármagnsfrekum nýiðnaði, þ. á m. orkufrekum iðnaði. Auk forustu framkvæmdavaldsins og stefnumörkunar af hálfu Alþingis reynir þar á margar innlendar stofnanir sem taka þurfa þátt í undirbúningi nýiðnaðarverkefna. Auk Iðntæknistofnunar, sem ég hef nefnt, hljóta að koma að því verki Orkustofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins svo og verkfræðistofur og margir fleiri aðilar.

Það er mjög brýnt að afla sem mestrar þekkingar hér innanlands, en einnig að sjálfsögðu erlendis frá, til þess að við séum í stakk búnir til að meta með eðlilegum hætti möguleika til uppbyggingar nýrra fyrirtækja. Í því sambandi eru Norðurlöndin að mínu mati ákjósanlegur samstarfsvettvangur, bæði vegna þeirra margháttuðu viðskipta, sem við eigum við þau, og vegna möguleika á að afla fjárhagslegs stuðnings við þróunarverkefni úr samnorrænum sjóðum. Eru reyndar þegar dæmi um slíkt samstarf.

Ég hef þegar vikið að nauðsyn þess, að staðið sé skipulegar að iðnrekstri á vegum ríkisins, stjórnun og samræmingu í starfi þeirra fyrirtækja sem fyrir eru. Eins og málum er nú háttað ríkir mikil sundurvirkni á þessu sviði. Iðnfyrirtæki eru undir mörgum ráðuneytum og sáralítil — ef nokkur — tengsl eru á milli stjórna þeirra. Safnast því ekki fyrir sú reynsla, sem gæti orðið öllum til gagns ef menn bæru sig saman um verkefnin og skipuleg tengsl væru milli þessara fyrirtækja.

Minnst er á það í þessari þáltill. og grg., að til álita komi að setja slík ríkisfyrirtæki skipulagslega á eina hendi, ef svo má segja. Er þá hugsað til forms sem ríkir t.d. í Svíþjóð og raunar einnig í Finnlandi. Fyrirtæki þessi eru kölluð „statsbolag“ þar í löndum og hafa verið nefnd eignarhaldsfyrirtæki á íslensku. Að sjálfsögðu þarf að athuga slík skipulagsmál vel áður en ákvarðanir eru teknar. Það er eitt af þeim verkefnum sem vinna þarf að.

Ég tel að samræming og samstarf aðila, sem standa fyrir iðnrekstri á vegum ríkisins, þurfi einnig að ná til iðnþróunar og iðnþróunarverkefna. Eins og stendur má segja að fáir aðilar hafi bolmagn til að taka myndarlega á meiri háttar þróunarverkefnum. Skortir þar bæði mannafla með reynslu til að vinna að slíkum þáttum, en einnig eru annmarkar á ráðstöfun fjármagns af ríkisins hálfu til slíkra verkefna, eins og við höfum fengið reynslu af t.d. á yfirstandandi ári, þar sem veitt var fé til nýiðnaðarverkefna samkv. lánsfjáráætlun.

Iðnþróun sem víðast um land er þáttur sem gefa þarf ríkulegan gaum og þegar er að vikið. Nú þegar liggur fyrir talsvert af byggðaáætlunum sem unnar hafa verið m.a. á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins. Í þeim eru sérstakar iðnþróunaráætlanir sem unnar hafa verið fyrir heila landshluta. Það þarf að vinna að því með skipulegum hætti, að slíkar áætlanir komist í framkvæmd — það úr þeim sem reynist við nánari skoðun bitastætt — og þar skiptir mjög miklu að stuðst sé við frumkvæði í landshlutunum sjálfum. Bygging iðngarða er einn þátturinn í þessum áformum. Hefur verið mótuð löggjöf um lánafyrirgreiðslu við sveitarfélög til að koma upp iðnaðarhúsnæði, og nýlega hefur verið sett reglugerð um slíka iðngarða sem einkum yrðu reistir á vegum sveitarfélaga eða iðnþróunarfélaga og sjóða sem þegar eru í mótun úti um landið. Má þar t.d. nefna iðnþróunarsjóð Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi. Sérstakir iðnþróunarráðunautar eru þegar í starfi eða að hefja störf úti í landshlutunum. En það er brýnt að skapa festu fyrir þá starfsemi og að ríkið tryggi eðlilegan stuðning við hana, svo að hún falli ekki niður, heldur komist á í sem flestum landshlutum.

Opinber innkaup eru einn þáttur stefnumörkunar í iðnaðarmálum sem mikið er til umræðu. Liggja þegar fyrir ýmsar tillögur og ábendingar um hvernig að slíkum málum skuli unnið. Ég vænti þess, að áður en langt um líður verði hægt að leggja fram skilmerkilegar tillögur um það, hvernig standa megi að slíkri opinberri innkaupastefnu iðnaðinum að gagni svo og viðskiptavinum innanlands, því að hér þarf að vera um gagnkvæma hagsmuni að ræða.

Þetta mál varðar iðnþróun í víðum skilningi, því að með því að efla heimamarkaðinn með opinberri innkaupastefnu fær iðnaðurinn að sjálfsögðu sterkari bakhjarl sem einnig getur skapað möguleika á útflutningi, þó síðar verði. Í tengslum við þetta þarf að gæta þess að koma hönnun og undirbúningi verka sem mest á hendur innlendra aðila til að nýta og efla verkþekkingu hér innanlands. Þetta tengist raunar þörfinni á að móta hér starfsemi um stuðning við innlenda verktaka sem ábendingu er að finna um undir 19. lið í þessari þáltill.

Staða samkeppnisiðnaðar okkar hvað varðar aðflutningsgjöld skiptir verulegu máli. Þar hefur talsvert verið að gert — og raunar mikið, svo sem réttmætt er til þess að létta aðflutningsgjöldum af þeim greinum sem eiga í harðri samkeppni við innflutning. Þessi mál hafa verið í greiningu á yfirstandandi ári og þegar hafa verið stigin skref í framhaldi af henni. En það þarf sem fyrst að ganga lengra og létta af samkeppnisiðnaðinum, þeim iðnaði sem í reynd á í verulegri samkeppni við innflutning, aðflutningsgjöldum, þannig að þau verði honum ekki til íþyngingar.

Þarna þarf vissulega að vera um að ræða stöðugt endurmat, því að inn á sviðið koma nýjar greinar sem flokkast mega undir samkeppnisiðnað. Slíkt verður vissulega alltaf matsatriði. Ég get nefnt eina slíka grein sem ekki hefur öðlast þann þegnrétt að teljast samkeppnisiðnaður þó að óskir séu uppi um það, en það er byggingariðnaðurinn í landinu.

Ein leið til að ná þeim markmiðum, sem stefnt skuli að, er m.a. ábending um eiginfjármyndun fyrirtækja. Ég held að það sé mjög mikilsvert atriði í uppbyggingu iðnaðar, eins og raunar atvinnustarfsemi almennt í landinu, að takast megi að koma eiginfjármyndun fyrirtækja í viðunandi horf. Allt of víða hefur hún verið of veik og fyrirtækin því staðið höllum fæti. Myndarlegt spor til leiðréttingar á þessu sviði var stigið með nýjum skattalögum sem eiga að auðvelda fyrirtækjum að koma undir sig fótum með eðlilegum hætti að þessu leyti. Það er eðlilegt að á þessa nýju löggjöf verði látið reyna og málin verði endurmetin í framhaldi af þeirri reynslu sem af henni fæst á næstu árum.

Ég vil víkja nokkrum orðum að því sem snýr að réttindum og ábyrgð starfsmanna, en það eru málefni sem snúa auðvitað að öllum atvinnuvegum í landinu og þá ekki síst að iðnaðinum. Þau varða samtök starfsmanna, verkalýðshreyfinguna í landinu, en þau varða einnig þá sem fyrir fyrirtækjunum standa. Ég tel að hér þurfi að þróast rekstrarform, gjarnan með fjölbreytilegum hætti, þar sem hlutdeild starfsmanna verði aukin. Þetta gildir um ríkisrekstur, samvinnufélög og sameignarfélög, en einnig um einkarekstur og blönduð rekstrarform. Hér reynir á frumkvæði og áhuga verkalýðshreyfingarinnar og starfsmannafélaga vilji menn í reynd sækja fram á þessu sviði. En ég tel að það sé kannske einn af mikilvægustu þáttum í lýðræðisátt í landinu, að áhrif starfsmanna verði í reynd virkari í atvinnulífinu. Þarna er um margháttaða reynslu að ræða erlendis, í Vestur-Evrópulöndum, á Norðurlöndum og víðar, sem rétt er að horfa til þegar unnið er að stefnumótun á þessu sviði, en frumkvæðið verður hér fyrst og fremst að koma neðan að, þó að eðlilegt sé að ríkið sjálft veiti starfsmönnum sínum eðlilega hlutdeild í stjórn fyrirtækja á sínum snærum.

Fyrir iðnþróun í landinu skiptir afar miklu máli að fræðslumál, sem snerta iðnaðinn, færist í annað og betra horf en nú er. Mikið hefur verið talað um það á undanförnum árum, að efla þurfi verkmenntun í landinu. En miklu minna hefur gerst á þessu sviði en skyldi. Því er það eitt af þýðingarmestu atriðum opinberrar iðnaðarstefnu að treysta verkmenntun, bæði verkmenntun innan skólakerfisins og ekki síður fræðslustarfsemi innan starfandi fyrirtækja. Í þessu sambandi þyrfti vinnumarkaðurinn að verða sveigjanlegri og opnari en nú er, þannig að menn geti með auðveldari hætti tileinkað sér nýja þekkingu og færst á milli starfsgreina. Rígskorðuð hólfun innan fagsamtaka og faggreina er ekki það sem koma skal að mínu mati, þar þarf frekar að vinda ofan af heldur en í hina áttina. Ávöxtur tækniframfara þarf að ná til sem flestra. Margir horfa með nokkrum kvíða en einnig von til örtölvualdarinnar umtöluðu sem geti fært okkur styttan vinnutíma. Sumir kvíða því, að ef ekki sé rétt á málum haldið geti hún leitt af sér fjöldaatvinnuleysi. Á þessu þarf að ná skipulegum tökum sem varða ekki síst fræðslustarf í þessum efnum, en að sjálfsögðu einnig að deila þeim verkum, sem til falla í þjóðfélaginu, á sem flestra hendur jafnhliða styttum vinnutíma.

Ég gat þess áður í ræðu minni, að upplýsingar um stöðu iðnaðar væru allt of fátæklegar og ekki nógu nýlegar. Þannig höfum við ekki fyrirliggjandi nýrri upplýsingar um hlut einstakra iðngreina í innanlandsmarkaði okkar en frá árinu 1977. Það nær auðvitað engri átt að búa þannig um hnútana, og skiptir mjög miklu að hagrannsóknir og upplýsingasöfnun varðandi iðnaðinn í landinu, einstakar greinar hans og þróun innan fyrirtækja, liggi fyrir sem næst nútíðinni svo að hægt sé með hliðsjón af slíkum upplýsingum að meta árangur af þróunar- og endurbótastarfi innan fyrirtækjanna.

Í lok þeirra leiða, sem vikið er að í þáltill., er nefnt starfsumhverfi, nauðsyn mengunarvarna og umhverfisverndar. Verulegar lagabætur hafa fengist fram að undanförnu í þessu sambandi. En það þarf meira en bókstafinn einan, það þarf að tryggja framkvæmd þessara laga. Skiptir miklu að þeir aðilar, sem að þessu eiga að vinna, heilbrigðisyfirvöld og stofnanir á þeirra vegum, eins og Heilbrigðiseftirlit ríkisins, hafi tök á að tryggja framkvæmd þessara mála. Sama gildir um aðila eins og Náttúruverndarráð, sem einnig sinnir þessum málum. Vissulega hefur mikið áunnist í vissum greinum varðandi starfsumhverfi, ekki síst þegar litið er til fiskvinnslufyrirtækja í landinu. En innan margra iðnfyrirtækja okkar er ástandið á þessu sviði enn með öllu óviðunandi. Gildir það einnig um ytra umhverfi og mengun frá fyrirtækjum, þ. á m. fiskimjölsverksmiðjum í landinu. Ríkið sjálft þarf að taka sig á í sambandi við fyrirtæki á sínum vegum að þessu leyti og ganga fram með góðu fordæmi. Það er mjög brýnt að samræma tök stjórnkerfisins á þessum þáttum og færa helst viðkomandi málaflokka saman á einn stað innan stjórnkerfisins.

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld vinna nú að því í samvinnu við hagsmunaaðila að móta stefnu í atvinnumálum og um stuðning af opinberri hálfu við æskilega þróun. Við teljum okkur eiga þar margra kosta völ og stöndum þannig að ýmsu leyti betur að vígi en rótgrónar iðnaðarþjóðir Vesturlanda, sem eru á leið niður í dýpsta öldudal eftirstríðsáranna í efnahagslegu tilliti, með sáralítinn hagvöxt, vaxandi verðbólgu og atvinnuleysingja sem skipta tugum milljóna. Vissulega förum við Íslendingar ekki varhluta af þessari alþjóðlegu kreppu, hún á drjúgan þátt í þeim efnahagserfiðleikum sem blasað hafa við þjóðinni síðustu mánuði og misseri. Það skiptir afar miklu máli að við beitum endurnýjunarhæfni og nýsköpunarmætti, sem til staðar er í íslenskum auðlindum og atvinnulífi, til að vinna okkur út úr erfiðleikunum í bráð og treysta lífskjör og hagsæld í landinu til lengri tíma litið. Við undirbúning þessa starfs og stefnumótun í atvinnulífinu þurfum við að hafa sýn til þróunar efnahagsmála í umheiminum, ekki aðeins í grónum iðnríkjum, heldur engu síður í þeim ríkjum þriðja heimsins, sem nú sækja fram með iðnvæðingu, þótt við ramman reip sé að draga hjá mörgum þeirra, þar sem m.a. er við hið alþjóðlega auðhringaveldi að fást. Sókn þeirra þjóða, sem brutust undan nýlenduáþján við lok síðustu heimsstyrjaldar og síðar inn á svið iðnvæðingar, og kröfur þeirra um sanngjarna hlutdeild í gæðum jarðar og heimsviðskiptum hlýtur að kalla á miklar sviptingar í efnahagslífi og gerir m.a. vart við sig í gjörbreyttum samkeppnisaðstæðum og erfiðleikum í mörgum greinum iðnaðar, eins og fjölmörg dæmi blasa við um í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu og raunar einnig hérlendis. Þar nægir að nefna trefja- og fataiðnað, sem hefur raunar rétt sig furðanlega af hér, skógerð og skinnaiðnað.

Annar stórfelldur breytingavaldur, en að nokkru af sömu rót runninn, þ.e. undanhaldi gömlu nýlendustefnunnar, er stökkið í orkuverði á síðustu sjö árum. Við þetta bætast félagslegar kröfur og aukið vald verkalýðshreyfingar víða um lönd.

Allir þessir þættir og fleiri ótaldir gera það brýnna en ella að hver þjóð hugi sem best að hagkvæmustu þróunarkostum og þeim bakhjarli sem hún á í auðlindum, þekkingu og hugviti. Vaxandi tilhneiging til að draga úr frjálsræði í alþjóðaviðskiptum og hverfa á ný inn fyrir tollmúra og taka upp verndaraðgerðir talar sínu máli um þá óvissu og togstreitu sem einkennir efnahagsmál samtímans. Er því eðlilegt að þjóðir hyggi grannt að öryggi sínu varðandi undirstöðuþætti efnahagsstarfsemi í hverju landi, m.a. á sviði orkumála, og vilji greiða nokkuð fyrir að draga úr óvissu og líkum á stóráföllum. Að því hljótum við Íslendingar sem eyþjóð einnig að hyggja.

Við framkvæmd þeirrar iðnaðarstefnu, sem hér er mælt fyrir, er að mörgu að hyggja eins og hér hefur verið bent á. Þar skiptir forysta af opinberri hálfu miklu máli, en hér er hvorki mælt með ofstjórn né einhliða ríkisforsjá fyrir atvinnulífið. Þvert á móti skiptir miklu að virkja krafta og frumkvæði sem flestra, ekki síst starfsfólksins sjálfs á hverjum vinnustað. Skortur á samhæfingu á störfum og stefnu hinna fjölmörgu aðila, sem í reynd hafa áhrif á gang mála, er sá þáttur sem öðrum fremur hefur staðið í vegi fyrir æskilegri þróun iðnaðar. Í fámennu og tiltölulega fjármagnsvana þjóðfélagi ber brýna nauðsyn til sameiginlegs átaks margra aðila til að koma umbótum í framkvæmd. Á sviði iðnþróunar hefur vöntun á stefnumörkun haft í för með sér sundurvirkni í störfum opinberra stofnana sem iðnaðinum þjóna, lánasjóða iðnaðarins og samtaka hans, með þeim afleiðingum að ekki hefur tekist að koma ýmsum nauðsynjamálum fram.

Að fenginni afstöðu Alþingis til þeirra stefnumiða, sem sett eru fram í þessari þáltill., þurfa stjórnvöld og samtök iðnaðarms og aðrir aðilar, er málið varðar, að samstilla krafta sína og hrinda þeim aðgerðum í framkvæmd sem till. felur í sér, m.a. með breytingu á löggjöf, aðgerðum innan iðngreina og í einstökum fyrirtækjum. Sú reynsla, sem fengist hefur af starfi samstarfsnefndar um iðnþróun til þessa, bendir til að þar sé æskilegt samstarfsform til að tengja þá aðila sem láta sig málefni iðnaðarins varða. Í framhaldi af mótun iðnaðarstefnu skiptir miklu að skapa sem víðtækasta samstöðu um framkvæmd hennar og tryggja að einstök mál verði farsællega til lykta leidd. Iðnrn. mun beita sér fyrir framgangi iðnaðarmálefna innan stjórnkerfisins og nýta þar m.a. þann samráðsvettvang sem ég nefndi áðan innan samstarfsnefndar um iðnþróun.

Herra forseti. Ég treysti því, að meðferð þessa máls hér og umræða um það innan þingsins og afgreiðsla þingsins á þessari iðnaðarstefnu verði til farsældar fyrir atvinnulíf í landinu, verði til þess að tekið verði með skilmerkilegri hætti á málefnum þessa þýðingarmikla atvinnuvegar. Við þá málsmeðferð þarf að hafa auga á öðru atvinnulífi í landinu þannig að við stillum saman okkar bjargræðisvegi.

Ég legg til að að umr. þessari lokinni verði málinu vísað til hv. atvmn.