09.12.1980
Efri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

159. mál, vegalög

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á vegalögum, nr. 6 25. mars 1977. Ég geri það fyrir hönd samgrh. sem er ekki á þingi nú eins og hv. þm. er kunnugt.

Þetta frv. er flutt til efnda á því fyrirheiti sem ríkisstj. gaf í sambandi við launakjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, að ríkisstj. mundi á yfirstandandi Alþingi leggja fram frv. til l. um breyt. á vegalögum þess efnis, að orlofshúsnæði verkalýðsfélaga yrði undanþegið gjaldi því sem um ræðir í frv. þessu.

Ekki er unnt að segja nákvæmlega hve mikið tekjutap sýsluvegasjóðanna yrði af frv. ef að lögum verður. Veldur því einkum óvissa um til hve margra orlofsbústaða undanþága frv. nær.

Við vegalagabreytingu 1975 var talið að sumarbústaðir væru alls 2 522, en fjöldi orlofsheimila launþegasamtaka og landssamtaka launþega var ekki áætlaður sérstaklega. Það er erfitt að gera nákvæma grein fyrir fjölda þessara orlofsheimila, en talið er að þau séu einhvers staðar á bilinu 250–500. Ef miðað er við hærri töluna og að greitt sé lágmarksgjald, sem á þessu ári er 24 800 kr. er ljóst að af 500 húsum yrði skatturinn 12 millj. 400 þús. kr. Á móti því greiðir ríkissjóður 250% og yrði því tekjumissir sýsluvegasjóðanna alls 31 millj. kr. á ári nái þessi breyting fram að ganga.

Það skal tekið fram, að kostnaður sýsluvegasjóða við þá vegi, sem beinlínis hafa verið lagðir vegna þessara orlofshúsahverfa, hefur yfirleitt verið hverfandi hingað til og í flestum tilvikum enginn, þar sem vegir milli eldri umferðaræðar og húshverfa þessara hafa oftast verið lagðir af byggjanda og á hans kostnað, en síðar að byggingu lokinni sótt til sýslunefndar um að þeir væru teknir í tölu sýsluvega og það þá gert.

1. gr. frv. hljóðar svo: „1. málsl. 24. gr. laganna orðist þannig:

Undanskildar vegaskatti samkv. 23. gr. eru allar kirkjur, skólahús, þinghús, félagsheimili, vitar og orlofsheimili í eigu stéttarfélaga launþega eða starfsmannafélaga.“

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til samgn.