09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

118. mál, Lífeyrissjóður barnakennara og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það samræmingarstarf að athuga, sem unnið hefur verið varðandi jafnan rétt lífeyrisþega, hvort sem þeir eru aðilar að Lífeyrissjóði barnakennara eða Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það má einnig segja, að jákvætt geti verið að sameina lífeyrissjóði ef sú stefna verður almennt upp tekin í landinu að sameina þá. Hins vegar virðist mér liggja ljóst fyrir að það verði Lífeyrissjóður barnakennara sem hafi af því mikinn skaða ef þessi sameining á sér stað. Hann er fjárhagslega sterkur, en hinn lífeyrissjóðurinn, lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna, hefur að hluta til setið uppi með það, að fjármálaráðherrar hafa fengið að ráðskast með vissan hluta af fjármunum hans, sem hefur á engan hátt bætt hans stöðu. Ég tel ekki rétt að fara út í þessa sameiningu eins og hér er lagt til. Þess vegna áskil ég mér allan rétt til að greiða atkv. gegn þessu frv. þegar það kemur til afgreiðslu.