09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það væri e.t.v. hægt að spyrja að því, hvenær svokallaðar hægri stjórnir hafi getað stjórnað fjármálum ríkisins án þess að nota hæstu skattlagningu hverju sinni. Það væri ekki úr vegi að spyrja hv. 1. þm. Reykn., ég geri ráð fyrir að hann gæti e.t.v. manna best svarað því, hvort það er ekki rétt. (Gripið fram í.) Að hinar svokölluðu hægri stjórnir hafa oftast nær notað þá hæstu skatta sem hægt er að leggja á.

Það er alveg rétt, að við framsóknarmenn höfum látið í ljós andúð á þessum sérstaka skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, við teljum hann hafa verið lagðan á sem illa nauðsyn. Það er ekkert leyndarmál, enda hefur því verið lýst yfir. Því hefur einnig verið lýst yfir, að við munum beita áhrifum okkar, eftir því sem við höfum möguleika til, til að láta endurskoða alla skattheimtu ríkisins eða tekjuöflun ríkisins til að losna við slíka skattlagningu sem þessa. Við erum að sjálfsögðu reiðubúnir til samstarfs við aðra um að afla ríkissjóði tekna á heppilegri hátt.

Hins vegar tel ég að það ætti að vera öllum hv. alþm. ljóst, að eins og ástatt er í efnahagsmálum í dag er ekki hægt að leggja niður skatta til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð nema aðrir tekjumöguleikar komi í staðinn. A.m.k. gerum við framsóknarmenn okkur það alveg fyllilega ljóst, að ekki er hægt við þessar aðstæður að leggja niður þennan skattstofn öðru vísi en að hækka t.d. almennan eignarskatt eða söluskatt. Hækkun almenns eignarskatts nú væri hróplegt ranglæti sem hefði alvarlegri afleiðingar en framlenging þessa skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. En það verður að segjast eins og er, að eins og ástandið virðist vera ber sú mikla aukning á byggingum þess konar húsnæðis, sem orðið hefur, gleggst vitni um það, að sumir virðast geta borið þennan skatt. Það þarf ekki að fara víða hér um Reykjavíkurborg til að sjá dæmi þess, t.d. hið nýja hús verslunarinnar. Eigendur þess virðast ekki vera í vandræðum með að byggja þrátt fyrir þessa skattlagningu. Ég er ekki með þessum orðum að réttlæta þessa skattlagningu á einn eða neinn hátt. Hún er gerð af illri nauðsyn. Ástandið er þannig, eins og ég hef áður sagt, að við verðum að hafa þennan tekjustofn til þess að koma fram þeim verkefnum sem ríkissjóður þarf að inna af hendi við þessar aðstæður. Þess vegna er ekki um annað að ræða en að framtengja þennan skatt–eða koma með aðra skattlagningu ef menn vilja það heldur. En ég sé ekki möguleika á því, að hægt væri að réttlæta almennan eignarskatt eins og ástandið er í þjóðfélaginu í dag.

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram við þessar umr., því að það virðist henda, þegar menn eru að ræða slík mál, að þeir gleymi kjarna málsins, að við stöndum í vanda sem við ættum sameiginlega að vera menn til að leysa.