10.12.1980
Efri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

162. mál, ráðgjöf og fræðsla varðandi fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., felur í sér að þrengd sé heimild til fóstureyðinga.

Samkv. gildandi lögum er fóstureyðing heimil af þrenns konar ástæðum, þ.e. í fyrsta lagi af félagslegum ástæðum, í öðru lagi af læknisfræðilegum ástæðum og í þriðja lagi ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðrum refsiverðum verknaði.

Með þessu frv. er lagt til að fella niður að félagslegar ástæður geti heimilað fóstureyðingu og af þessu leiðir aðrar breytingar sem í frv. felast.

Þetta er í þriðja sinn sem ég flyt frv. samhljóða þessu. Ég hef í bæði skiptin flutt ítarlega framsögu fyrir málinu. Ég þykist vita, að hv. þm. hafi lagt hana vel á minnið, og sé ekki ástæðu til þess nú, í annað sinn á árinu 1980, að flytja ítarlega framsögu um þetta mál. Það er mjög kunnugt hvað hér er um að ræða.

Ég hef áður ítarlega lýst þeirri þróun sem hefur verið í þessum málum frá því 1975 þegar núgildandi lög um þetta efni voru sett og lögfest var að heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Ég hef bent í máli mínu á þá þróun sem hefur verið áberandi víða erlendis og í þeim löndum sem næst eru okkur, að það er tilhneiging og beinar aðgerðir í þá átt að þrengja heimildir til fóstureyðinga. Ég hef í máli mínu lagt áherslu á að félagslegur vandi verði ekki leystur nema með félagslegum ráðstöfunum og það sé að hlaupast frá vandanum að gripa til þess úrræðis að eyða mannlegu lífi af félagslegum ástæðum. Ég hef í máli mínu lagt áherslu á það, að til grundvallar þessari afstöðu liggja siðferðileg sjónarmið og að það verði að hafa í huga ákveðið lífs- og manngildismat sem ekki leyfi að tekið sé mannlegt líf af félagslegum ástæðum.

Og nú flyt ég þetta frv. í þriðja sinn. Það er svo í raun og veru, að eftir því sem ég flyt þetta mál oftar, eftir því er meiri þörf á að endurflytja frv. Það er vegna þess hver þróunin er í þessum málum.

Á síðasta ári, þ.e. árinu 1979, voru fóstureyðingar 563 að tölu. Er þetta ekkert umhugsunarefni, hv. þm? Eru viðbrögð við þessum ótíðindum í nokkru samræmi við það lífs- og manngildismat sem við temjum okkur í öðrum efnum? Hve lengi á þögnin og sinnuleysið að vera andsvar okkar við mestu mannfórnum sem þjóð okkar nú færir. Hv. þm.. er ekki kominn tími til að taka afstöðu? Geta menn horft lengur aðgerðalausir á það sem er að gerast meðal okkar'? Það er okkur ekki eiginlegt. Það er ómanneskjulegt. Slíkt er andstætt siðgæðishugmyndum okkar, íslenskri menningu og íslenskri arfleifð.

Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda líf sjómanna okkar, eflum öryggi þeirra og beitum hvers konar slysavörnum. Þetta dregur stórlega úr þeim mannfórnum sem þjóðin yrði ella að færa. Samt sem áður drukknuðu 22 menn á síðasta ári, þ.e. árið 1979. Við hörmum þetta um leið og það er hvatning til enn öflugri aðgerða til að koma í veg fyrir þessi slys. Á sama tíma, þ.e. á síðasta ári, misstum við í fóstureyðingum 563 mannslíf. Hvað um það, hv. þm.?

Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda líf vegfarenda, bætum umferðarmenninguna og aukum öryggið. Samt sem áður létu 27 menn lífið í umferðarslysum á síðasta ári. Við hörmum þetta um leið og við herðum þann ásetning okkar að vinna enn betur að því að koma í veg fyrir þessi slys. Á sama tíma, þ.e. á síðasta ári, misstum við í fóstureyðingum 563 mannslíf. Hvað um það, hv. þm.?

Við sjáum vá fyrir dyrum þar sem eru fólksflutningar úr landi. Við viljum umfram allt að þeim linni því að okkar fámenna þjóð hefur ekki efni á að missa þetta fólk.

Íslenska þjóðin hefur því sögulega hlutverki að gegna að halda uppi í þessu landi sjálfstæðu ríki með öllu sem því fylgir. Okkur finnst þetta sjálfsagt og eðlilegt og getum ekki hugsað okkur annað en að halda okkar sjálfstæðu tilveru. En það hljóta samt að vera takmörk fyrir því, hvað fámennið leyfir. Einhvers staðar eru takmörkin fyrir því, hve margar hendur þarf til að geta haldið uppi sjálfstæðu ríki og hagnýta auðlindir okkar til lands og sjávar. Það er því ekki að ófyrirsynju að við hrökkvum við þegar við heyrum um brottflutning fólks úr landi. Á síðasta ári nam brottflutningur fólks umfram innflutta 525 mönnum. Við hörmum þetta og sjáum að við svo búið má ekki standa. Á sama tíma, þ.e. á síðasta ári, misstum við í fóstureyðingum 563 mannslíf. Hvað um það, hv. þ m.?

Já, hvað um það? Eigum við að halda áfram að gera ekki neitt í þessu mikla alvörumáli? Ekki getur neinn verið með því að svo haldi áfram sem nú horfir í fóstureyðingarmálum. Ekki fagnar neinn því, að við skulum missa 563 mannslíf í fóstureyðingum á einu ári. Við hljótum öll að fyllast óhug við þessi ótíðindi. Hvers vegna þá að sitja auðum höndum? Er ekkert hægt að gera?

Jú, það er ekki síður hægt að bægja frá vá fóstureyðinganna en að bjarga mannslífum á öðrum vettvangi. Það vill svo til, að meginfjöldi fóstureyðinga er framkvæmdur af félagslegum ástæðum. Því neitar enginn, að félagsleg vandamál eru fyrir hendi. Bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis á heimill eða þroskaleysis móður geta skapað félagsleg vandamál. En spurningin er: Hvernig á að bregðast við þeim vanda? Það á ekki að gera með því að veita heimild til fóstureyðinga. Þjóðfélag, sem leyfir fóstureyðingar af félagslegum ástæðum, lítur fram hjá hinum raunverulega vanda, sættir sig við óleyst vandamál. Félagslegur vandi verður ekki leystur nema með félagslegum ráðstöfunum.

Þetta er svo augljóst mál að ekki ætti að þurfa að hafa orð á því, en samt haga menn sér svo sem félagslegar framfarir séu fólgnar í mannfórnum. Það á að halda áfram á sömu óheillabrautinni. Til þess að sporna við því þarf að gera ráðstafanir sem ekki eru taldar eftir.

Kvensjúkdómadeild Landspítalans annar ekki lengur fóstureyðingum til viðbótar öðrum verkefnum sínum. Þess vegna er nú ráðgert að koma upp við Landspítalann dagdeild til að annast fóstureyðingar. Er þá gert ráð fyrir að konur komi á deildina að morgni, en fari heim að kvöldi, eftir að fóstureyðingin hafi farið fram. Gert er ráð fyrir að þær konur, sem hafi aðstæður til þess að geta legið heima eftir aðgerðina, notfæri sér þessa þjónustu. Með þessum hætti er verið að leysa vandamál kvensjúkdómadeildar Landspítalans. En hér er líka verið að mæta þróuninni og framtíðarþörf. Frá því 1974 hefur fóstureyðingum fjölgað um 150% og það er augljóst hvert stefnir ef ekki er brugðið á annað ráð.

Og það er einmitt það, sem þetta frv. leggur til, að við bregðum á annað ráð, að við leyfum ekki, heimilum ekki fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. En þá er gert ráð fyrir að félagslegur vandi verði leystur með félagslegum ráðstöfunum. Í samræmi við það hef ég borið fram annað frv., sem nú hefur verið útbýtt hér í deild, þ.e. frv. um breytingar á lögum um almannatryggingar.

Þar er gert ráð fyrir margháttuðum aðgerðum til þess að bæta úr vanda einstæðra mæðra. En það er ekki nóg með það. Það er líka gerð tillaga um að bæta úr vanda mæðra sem búa í hjónabandi eða óvígðri sambúð, ef þær eiga við að búa þann félagslega vanda sem samkv. gildandi lögum heimilar fóstureyðingu. M.ö.o.: ástæður, sem nú heimila fóstureyðingar, eiga að vera ástæður til þess að heimila sérstaka félagslega aðstoð í staðinn til viðkomandi mæðra. Það er á grundvelli þessara sjónarmiða sem þetta frv. er borið fram sem við nú ræðum.

Þetta er í þriðja sinn sem ég ber fram þetta frv. Það hefur ekki hlotið afgreiðslu í tvö fyrri skiptin. Ég er að vona að það verði allt þegar þrennt er og að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég leyfi mér að vona þetta af ýmsum ástæðum. En þessi skoðun mín er mér ofarlega í huga vegna þess að það líður varla sá dagur að menn ræði ekki þetta mál við mig hvar sem er á förnum vegi, hvar sem þeir hitta mig. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er vilji hins þögla meiri hluta í þessu landi að það verði breytt um stefnu í fóstureyðingarmálunum í samræmi við það frv. sem hér er til umr. Og ég vil leyfa mér að vona og ég hef raunar þá trú, eins og kom fram í orðum mínum áður, að enginn af okkur þm. sé ánægður með það ástand sem nú er í þessum málum. Ég hef ekki trú á því og kemur það ekki til hugar. Ég leyfi mér að ganga út frá því, að við séum öll sammála um að nú verði að stinga við fótum í þessu efni og bregða á það ráð sem gert er ráð fyrir í frv. mínu.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.