10.12.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

105. mál, verðlagsmál

Svar við a):

Ríkisstjórnin hefur komið því til leiðar, að fjárstyrkur til samtaka neytenda hefur verið aukinn, og væntir þess, að það muni efla samtökin og gera þeim kleift að stuðla enn frekar að því að gera neytendur virkari þátttakendur í verðlagsefnitliti. Ríkisstjórnin telur, að á tímum verðbólgu og spennu í efnahagslífinu verði ekki hjá því komist, að stjórnvöld hafi meira hönd í bagga með verðlagsþróuninni en ella, en hitt sé jafnljóst, að opinbert eftirlit geti aldrei komið í staðinn fyrir vakandi eftirlit og dómgreind hins almenna neytenda. Þess vegna mun ríkisstjórnin stuðla að virku neytendaeftirliti eins og kostur er.

b) Í öðru lagi er kveðið á um að auka verðlagskynningu af opinberri hálfu.

Svar við b):

Þessu stefnumiði hefur verið framfylgt af hálfu Verðlagsstofnunar með gerð verðkannana og birtingu á niðurstöðum þeirra. Stofnunin hefur átt góða samvinnu við samtök neytenda um gerð þessara kannana og mun því samstarfi verða haldið áfram. Þessi starfsemi hefur að undanförnu einkum beinst að fyrirhugaðri myntbreytingu um n.k. áramót, enda mikilvægt að framkvæmd hennar takist sem best.

c) og d)

Í c) er kveðið á um að haga skuli verðlagsákvæðum þannig að þau hvetji til hagkvæmra innkaupa og í d) að greiða skuli fyrir því, að unnt sé að lækka vöruverð með innkaupum í stórum stíl. Eðlilegt er því að fjalla um þessa undirflokka samtímis.

Svar við c) og d):

Á undanförnum árum hefur Verðlagsstofnun framkvæmt kannanir á innkaupsverði til landsins, bæði ein sér og í samvinnu við hin Norðurlöndin. Hafa þessar kannanir ótvírætt leitt í ljós, að innkaup til Íslands eru mun óhagkvæmari en til nágrannalanda okkar. Í framhaldi af þessum niðurstöðum var starfshóp embættismanna falin haustið 1978 frekari athugun málsins og skilaði hann áliti í janúar 1979, þar sem orsakir vandamálsins voru greindar. Í samræmi við undirflokka c) og d) hér að framan í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var Verðlagsstofnun í febrúar á þessu ári falið áframhaldandi meðferð málsins. Hefur stofnunin unnið markvisst að málinu síðan og er þess að vænta að hún skili álitsgerð á næstu vikum. Hér er á ferðinni mjög stórt hagsmunamál fyrir þjóðina, sem ekki er auðvelt úrlausnar, en ríkisstjórnin bindur vonir við, að fljótlega geti tekist samvinna á milli hlutaðeigandi aðila um raunhæfar aðgerðir í því skyni að leiða málið til farsælla lykta.

e) Loks er í lið 4 kveðið á um, að hin nýju lög skuli koma til framkvæmda undir eftirliti Verðlagsráðs, sem fái bætta aðstöðu til að gegna hlutverki sínu.

Svar við e):

Sem kunnugt er voru lögin um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti samþykkt á Alþingi í maí 1978 og ætlað að taka gildi í nóvember sama ár. Gildistökunni var síðan frestað um eitt ár, jafnframt því sem nokkrum greinum laganna var breytt, einkum 8. greininni. Með þeirri breytingu, sem gerð var á greininni, var dregið nokkuð úr þeim frjálsræðisvanda, sem einkenndi lögin upphaflega, þar sem nú verður frjáls verðmyndun ekki heimiluð nema með samþykki ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin telur að á meðan við búum við núverandi óðaverðbólguástand og sjálfvirk tengsl á milli verðlags og launa verði að feta brautina til frjálsrar verðmyndunar mjög varlega. Við slíkar aðstæður leitar verðmyndunin ekki sjálfkrafa jafnvægis á sama hátt og annars, og telur ríkisstjórnin, að ekki verði hjá því komist að taka tillit til þess.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á því að hverfa yfir í frjálsara verðmyndunarkerfi hafa hin nýju lög engu að síður haft í för með sér allmiklar breytingar. Starfshættir Verðlagsráðs eru sjálfstæðari og faglegri en áður og hefur m.a. verið unnið að lagfæringum á ýmsum veigamiklum málaflokkum sem lengi hafa beðið úrlausnar. Væntanlega á það eftir að koma betur í ljós síðar. Einnig hafa Verðlagsráði og Verðlagsstofnun verið falin ný verkefni á sviði samkeppnis- og neytendamála, sem unnið hefur verið að. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að sú stefnubreyting, sem mörkuð hefur verið með hinum nýju lögum, þróist áfram, en telur með hliðsjón af aðstæðum í efnahagslífi þjóðarinnar í dag óhjákvæmilegt að sú þróun gerist á lengri tíma.