23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstjórnin tók til starfa 8. febrúar 1980. Stjórn Alþfl., sem þá hafði setið í nær fjóra mánuði, var bráðabirgðastjórn sem hafði það hlutverk að rjúfa Alþingi og efna til kosninga og halda landsstjórninni í horfinu. Að loknum þingkosningum í byrjun desember 1979 reyndu forustumenn fjögurra þingflokka að mynda ríkisstjórn. Þær tilraunir stóðu í tvo mánuði án árangurs. Um mánaðamótin janúar og febrúar 1980 horfði svo, að Alþingi mundi ekki gegna þeirri höfuðskyldu að sjá landinu fyrir ríkisstjórn, og við blasti að gripið yrði til utanþingsstjórnar. Þá var núverandi stjórn mynduð. Sú stjórnarmyndun var eini möguleikinn sem þá var fyrir hendi til þingræðisstjórnar með stuðningi meiri hluta á Alþingi.

Á fyrsta fundi í sameinuðu Alþingi eftir stjórnarmyndun, 11. febrúar, lýsti ríkisstj. stefnu sinni eins og hún birtist í stjórnarsáttmálanum.

Þegar ríkisstj. tók við var aðkoman þessi í stórum dráttum: Verðbólgan var 61% frá byrjun til loka ársins 1979. Ríkisstj. tók því við um 60% verðbólguhraða. Aðalútflutningsgrein landsmanna, frystiiðnaðurinn, stóð höllum fæti, m.a. vegna sölutregðu á Bandaríkjamarkaði. Ríkisstj. hefur gert ráðstafanir til þess að bæta frystihúsunum upp á einn eða annan hátt, einkum með aðlögun gengis, bæði tekjutap og útgjaldahækkanir sem orðið hafa síðan stjórnin var mynduð. Hagur fyrstiiðnaðarins hefur því ekki versnað á þessu átta mánaða tímabili. En til viðbótar þeim erfiðleikum, sem orðið hafa síðan í febrúar og leyst hefur verið úr, kemur sá vandi frystihúsanna sem skapaðist á tímabilinu okt. 1979 til feb. 1980. Þá hækkaði tilkostnaður þeirra innanlands um 15–20%. Á sama tíma stóð fiskverð í Bandaríkjunum í stað, en til þess að mæta þessari kostnaðarhækkun var gengissig aðeins um 5%.

Við stjórnarskiptin voru einnig allir kjarasamningar lausir, bæði á hinum almenna markaði og við opinbera starfsmenn.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. eru rædd ítarlega þau vandamál sem við er að glíma, markmiðin sem ríkisstj. stefnir að og úrræðin sem hún hyggst beita. Eins og jafnan í stjórnarsamningum er þar um ramma að ræða sem síðan þarf að útfylla nánar.

Í upphafi stjórnarsáttmálans segir svo: „Meginverkefni ríkisstj. er að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Jafnframt leggur ríkisstj. áherslu á að efla menningarstarfsemi, auka félagslega þjónustu og jafna lífskjör.“

Stefna ríkisstj. í efnahagsmálum er í höfuðatriðum mótuð þannig:

Ríkisstj. mun berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál.

Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.“

Hér var því gert ráð fyrir þriggja ára áætlun um viðureign við verðbólguna, þannig að í lok ársins 1982 hafi verðbólgan náðst verulega niður.

Áður en lengra er haldið er rétt að nefna tvö grundvallaratriði sem jafnan verður að hafa í huga.

Hið fyrra er það, að viðnám gegn verðbólgu byggist ekki á einum einstökum þætti efnahagsmála. Það eru margir meginþættir efnahagsmála sem þarf að vinna að í samhengi. Því aðeins að heildarsýn sé höfð og það takist að ná tökum á öllum þessum helstu þáttum er von um árangur. Þessir meginþættir eru: ríkisfjármál, peningamál, þ.e. innlán og útlán, verðlag, gegni, fjárfesting og launamál.

Hitt grundvallaratriðið er jafnvægi. Á öllum sviðum þjóðlífsins þarf á jafnvægi að halda til þess að vel fari. Í ríkisfjármálum þarf jöfnuð milti 'tekna og gjalda. Við þurfum jafnvægi í peningamálum, jafnvægi milli innlána og útlána. Við þurfum að hafa jafnvægi í atvinnumálum þannig að framboð og eftirspurn vinnuafls standist nokkurn veginn á, svo að afstýrt sé atvinnuleysi en um leið komið í veg fyrir ofþenslu á vinnumarkaði. Það þarf að stuðla að jöfnuði í utanríkisviðskiptum, viðskiptajöfnuði.

Í stjórnarsáttmálanum er stefnan um ríkisfjármál mörkuð á þessa lund:

„1) Aðhald í ríkisbúskap verði stóraukið og áhersla lögð á jafnvægi í ríkisfjármálum.

2) Ríkissjóður verði rekinn með greiðsluafgangi.

3) Fjárlaga- og hagsýslustofnun verði gert kleift að sinna í ríkari mæli en hingað til aukinni hagkvæmni og hagræðingu í ríkisframkvæmdum, stofnunum og fyrirtækjum ríkissjóðs í samráði við starfsfólk þeirra.“

Þessi stefnumótun byggist á mörgum sjónarmiðum. Ríkisvaldinu er skylt að fara vel með og nýta sem best skattpeninga landsmanna. Í viðnámi gegn verðbólgu er það brýn nauðsyn, að ríkissjóður sé rekinn hallalaust og helst með greiðsluafgangi. Á síðasta áratug var ríkissjóður í sex ár rekinn með halla. Það þýddi lántökur úr Seðlabanka, seðlaprentun og vaxandi verðbólgu. Ríkisstj. ásetti sér að tryggja jafnvægi í tekjum og gjöldum ríkissjóðs á þessu ári. Hefur tekist að ná því jafnvægi. Þetta er mikilbægt atriði í baráttunni við verðbólguna. Góð afkoma ríkissjóðs er einnig nauðsynleg til þess að unnt verði að lækka skuldir ríkissjóðs og vaxtabyrði, en hún nemur á næsta ári um 20 milljörðum króna. Greiðsla af skuldum ríkissjóðs er því mikilvægur þáttur í viðleitni til þess að draga úr útgjöldum hans. Áfram er stefnt í sömu átt á næsta ári með því frv. til fjárlaga sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi. Ég legg á það áherslu, að ekki er nóg að afgreiða fjárlögin með greiðsluafgangi, heldur verður að tryggja það í framkvæmd, að jafnvægi náist og nokkur greiðsluafgangur.

Í stjórnarsáttmálanum segir: „Tekin verði upp staðgreiðsla skatta innan tveggja ára.“

Að þessu máli er nú unnið. Þessi breyting mun m.a. hafa gagnleg áhrif í viðnámi gegn verðbólgu.

Frá áramótum verður nýbyggingagjald fellt niður. Gagnger endurskoðun fer nú fram á hinum nýju skattalögum frá 1978, sem komu til framkvæmda nú í fyrsta sinn. Afnema þarf ýmsa agnúa á þeirri löggjöf.

Í stjórnarsáttmála segir að stefnan í peningamálum skuli stuðla að hjöðnun verðbólgu.

Um útlán viðskiptabankanna þarf meginstefnan að vera sú, að þeir láni ekki út meira en eigið ráðstöfunarfé, en grípi ekki til yfirdráttar í Seðlabanka, sem þýðir að jafnaði aukna seðlaprentun og vaxandi verðbólgu, nema alveg sérstakar aðstæður krefji og þá um stutta stund. Í ár hafa þessi mál því miður gengið úr skorðum. Útlán banka og yfirdráttur þeirra í Seðlabanka hefur orðið meiri en góðu hófi gegnir. Þessi útlánaaukning verður ekki skýrð með lánsþörf atvinnuveganna einni saman, heldur er hér um atmenna útlánaaukningu að ræða. En eftir ráðstafanir, sem ákveðnar voru í september, hafa þessi mál nú færst í betra horf.

Samkvæmt lögum ber Seðlabankanum að hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum peningaskiptum. Mikilvægur þáttur í þessu eftirlitsstarfi er að gæta þess, að einstakir viðskiptabankar taki ekki of mikið fé að láni í Seðlabankanum. Til þess að fylgjast með þessum þætti hefur Seðlabankinn ýmis úrræði. í fyrsta lagi er sú aðferð sem hann hefur notað að undanförnu, en það eru refsivextir á hendur þeim bönkum sem taka slík lán. Í öðru lagi ætti Seðlabankinn að ákveða hámark yfirdráttar viðskiptabankanna. Þriðja leiðin er sú, að Seðlabankinn hafi að staðaldri eftirlit með því, hvort viðskiptabanki tekur veruleg yfirdráttarlán hjá Seðlabankanum, og eru hæg heimatökin í því efni. Ef honum virðist að of langt sé gengið á hann að kalla bankastjórn þess banka til viðræðu til þess að kanna orsakir og horfur, gefa ráð og ábendingar og beita fortölum.

Í stjórnarsáttmálanum segir svo:

„Opnaðir verði í bönkum og sparisjóðum sparireikningar, þar sem sparifé njóti fullrar verðtryggingar, samkvæmt nánari reglum og í samræmi við möguleika til útlána.“

Þar sem engir slíkir verðtryggðir sparireikningar voru til í bönkum lagði ríkisstj. áherslu á að þetta kæmi sem fyrst til framkvæmda. Frá og með 1. júlí s.l. voru slíkir reikningar opnaðir. Á þeim þrem mánuðum, sem liðnir eru síðan, munu hafa komið inn á þessa reikninga um 2 milljarðar króna. Þetta er að vísu lægri fjárhæð en menn höfðu gert sér vonir um. En öll ný viðskiptaform í bönkum þurfa sinn tíma til þess að menn átti sig á þeim og venjist þeim. Enn fremur hefur það dregið úr aðdráttarafli þessara nýju reikninga, að binditími var hafður tvö ár. Ég ætla að reynslan hafi fært mönnum heim sanninn um að binditímann þarf að stytta. Þeir, sem eitthvert fé hafa aflögu og kynnu að hugsa sér að verja því til kaupa á erlendum vörum eða öðru sem mætti bíða, hafa nú spariform þar sem spariféð heldur fullu gildi sínu, hver sem verðbólgan verður á hverjum tíma.

Örvun til að spara fé og leggja í banka eða sparisjóð er þjóðarnauðsyn. Aukin sparifjármyndun er undirstaða undir eflingu atvinnulífs og heilbrigðu efnahagslífi.

Varðandi þróun innlána er um tvenns konar útreikning og samanburð að ræða: annars vegar ný innlán án vaxta, hins vegar ný innlán að viðbættum áföllnum og áætluðum vöxtum. Talið er eðlilegra til samanburðar að nota síðari aðferðina. Samkvæmt þeim útreikningi höfðu innlán aukist um 39.5% á fyrstu átta mánuðum ársins í fyrra, en á sama tíma í ár um 42%. Nú eru komnar nýrri tölur um þessa þróun. Á fyrstu níu mánuðum ársins, þ.e. jan.–sept. í fyrra, var aukning innlána 43.4%, en í ár á sama tíma um 50%.

Í stjórnarsáttmálanum segir svo:

„Verðbótaþáttur vaxta hækki ekki i. mars og fari síðan lækkandi með hjöðnun verðbólgu. Í stað hárra vaxta verði unnið að útbreiðslu verðtryggingar og lengingu lána.“

Ríkisstj. hefur lagt áherslu á verðtryggingu og lengingu lána.

Í lögum um stjórn efnahagsmála er svo ákveðið, að miða skuli að því að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána. Ríkisstj. telur, að lengja þurfi aðlögunarfrestinn um eitt eða tvö misseri. Ríkisstj, hefur tvívegis komið í veg fyrir þá hækkun vaxta sem æskileg var talin með hliðsjón af þessu lagaákvæði, þ.e. 1. mars og 1. sept. Þegar útflutningsatvinnuvegir landsmanna eiga við mikla erfiðleika að glíma og telja vaxtabyrðina eina af orsökum vandans taldi ríkisstj. ekki fært að leggja á þá enn meiri vaxtabyrði, sem valda mundi enn meiri gengislækkun en orðið hefur.

Varðandi kjaramál mótaði ríkisstj. afstöðu sína í stjórnarsáttmálanum á þessa lund:

Ríkisstj. leggur höfuðáherslu á að leysa launamál með samstarfi og samráði. Skal í því sambandi lögð áhersla á eftirgreind meginatriði:

Ríkisstj. mun leita eftir samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um niðurstöður í kjarasamningum, sem geta samrýmst baráttunni gegn verðbólgu og þeirri stefnu stjórnarinnar að jafna lífskjör og bæta kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu.

Til þess að draga úr almennum peningalaunahækkunum er ríkisstj. reiðubúin til þess að beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í tengslum við kjarasamninga.“

Síðan eru þessi atriði nánar rakin í hinum prentaða stjórnarsáttmála, á bls. 4, en hér er um margvíslegar félagslegar umbætur að ræða.

Viðræður um kjarasamninga hafa tekið langan tíma. Um miðjan ágústmánuð tókust samningar milli ríkisins og opinberra starfsmanna, sem samþykktir voru í allsherjaratkvæðagreiðslu hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þessir samningar voru gerðir af ábyrgðartilfinningu og hófsemi af hálfu beggja aðila og voru mjög í samræmi við áðurgreinda stefnu stjórnarinnar.

Hinum almennu kjarasamningum er ekki lokið. En leggja verður áherslu á að ekki dragist lengi enn að ljúka þeim, og að þar verði einnig gætt hófs svo að ekki valdi verðþenslu.

Sú breyting á íslenskri krónu, sem verður um næstu áramót, er í meginatriðum formbreyting, en hefur einnig raunverulegt gildi. Hún á í fyrsta lagi að auka traust manna á krónunni. Þegar hver króna verður hundrað sinnum meira virði en nú, þá er hún komin í hóp annarra gjaldmiðla á Norðurlöndum. En þessi hugarfarsáhrif geta því aðeins orðið að gagni, að aðrar ráðstafanir fylgi sem sannfæri almenning um að alvara sé á ferðum til þess að treysta gildi krónunnar og veita verðbólgunni viðnám. Samfara þessari breytingu hefur ríkisstj. í huga margháttaðar efnahagsaðgerðir.

Gagnger athugun og endurskoðun er hafin á þeirri víðtæku sjálfvirkni sem nú á sér stað, ýmist samkvæmt lögum, samningum eða venjum um verðlag, vexti, kaupgjald, lán og önnur atriði er verulegu skipta um þróun efnahagsmála. Þessi sjálfvirkni og víxlhækkanir eiga sinn mikla þátt í verðþenslunni. Um þessi mál verður haft samráð við þau samtök sem hlut eiga að máli.

Unnið er að nýjum vísitölugrundvelli sem ætti að geta gengið í gildi kringum áramótin. Enn er þó ekki ákveðið hvenær það verður.

Áhersla hefur verið lögð á orkuframkvæmdir, m.a. með því að flýta fyrir að innlendir orkugjafar komi í stað innfluttrar orku. Þannig er áætlað að framkvæmdamagn í raforkuframkvæmdum sé nálægt 50% meira í ár en í fyrra og um fimmtungi meira í varmaveitum. Ríkisstj. mun áfram leggja áherslu á framkvæmdir í orkumálum, einnig til að tryggja öryggi notenda.

Sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar til að auka raforkuvinnslu á komandi vetri með uppsetningu gufuaflsstöðva og borunum fyrir Kröfluvirkjun. Vestfirðir hafa verið tengdir landskerfinu nú í haust og einnig Vopnafjörður, og unnið er að framkvæmdum við Suðausturlínu milli Héraðs og Hornafjarðar. Framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun ganga samkvæmt áætlun og á 1. áfangi hennar að komast í notkun að ári.

Rannsóknum vegna fyrirhugaðra virkjunarkosta fyrir landskerfið miðar vel. Samkvæmt stjórnarsáttmála er að því stefnt, að næsta virkjun verði utan eldvirkra svæða. Er þess vænst, að unnt verði að taka ákvörðun þar að lútandi á næsta ári.

Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir framkvæmdaáætlun í orkumálum til næstu 5–10 ára og að mörkuð verði samræmd orkustefna til langs tíma, og er undirbúningur hafinn um þau efni.

Í undirbúningi er stefnumörkun um áframhaldandi rannsóknir vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu í samræmi við stjórnarsáttmála.

Þorskafli Íslendinga verður að öllum líkindum 380–400 þúsund lestir á þessu ári. Miðað við síðustu niðurstöður Hafrannsóknastofnunar er ekki ástæða til að ætla að þorskstofninum sé ofgert með þessari veiði. Virðist eðlilegt að stefna að svipaðri veiði árið 1981.

Útgerðin hefur átt í verulegum rekstrarerfiðleikum síðustu mánuði, og stafar það fyrst og fremst af hækkun á olíu og öðrum útgerðarkostnaði. Með ákvörðun fiskverðs 1. okt. er brúttóafkoma útgerðar orðin jákvæð að mati Þjóðhagsstofnunar. Skreiðar- og saltfiskverkun hefur staðið vel og virðist ástæða til að ætla að svo verði einnig á næsta ári. Gerðir hafa verið viðunandi samningar um sölu á saltsíld. Frystingin hefur átt í verulegum erfiðleikum. Í lok síðasta árs var verðhækkunum innanlands og stöðnun fiskverðs á Bandaríkjamarkaði ekki mætt með nauðsynlegri aðlögun gengis. En með ýmsum aðgerðum stjórnvalda, miklu gengissigi undanfarnar vikur, minnkandi birgðum og hagkvæmari framleiðslusamsetningu telur Þjóðhagsstofnun að rekstrargrundvöllur frystingarinnar sé að verða jákvæður að nýju.

Unnið er að mörkun fiskveiðistefnu, fyrst og fremst með tilliti til þorskveiða. Að því er stefnt að samræma veiðar og vinnslu, að reyna að tryggja að heildarmarkmið veiða standi og að gæði afla og framleiðslu séu sem mest. Í þessu skyni mun gæða- og framleiðslueftirlit verða hert. Fátt er mikilvægara fyrir okkur Íslendinga en að framleiðsla sjávarafurða hér á landi sé ætíð til fyrirmyndar.

Ríkisstj. hefur gripið til ráðstafana í landbúnaðarmálum sem hafa það að markmiði að laga búvöruframleiðsluna eftir markaðsaðstæðum. M.a. þess vegna varð samdráttur í mjólkurframleiðslu á nýliðnu verðlagsári landbúnaðarins um 5.2% eða 6 millj. lítra. Til þess að vega upp móti þeim erfiðleikum, sem samdrætti í hefðbundnum búgreinum eru samfara, er unnið að aukinni fjölbreytni í framleiðslugreinum og atvinnustarfsemi sveitanna. Jafnframt verður útvegað fé til að mæta hluta af þeim halla sem varð á útflutningi búvara á síðasta verðlagsári, svo sem gert var vegna ársins á undan, eftir að ríkisstj. var mynduð í febrúar.

Á þessu Alþingi mun landbrh. leggja fram af hálfu ríkisstj. tillögu um stefnu í landbúnaðarmálum og munu væntanlega fylgja henni lagafrumvörp er miða að breytingum á landbúnaðarlöggjöfinni, m.a. í þá átt að ákvarðanir um verðlagningu á búvörum verði teknar með beinni aðild fulltrúa ríkisins.

Í iðnaði hefur verið við ýmsa örðugleika að etja á þessu ári í kjölfar kostnaðarhækkana innanlands. Ríkisstj. beitti sér fyrir ýmsum ráðstöfunum til að létta á þessum erfiðleikum, m.a. voru niðurgreiðslur auknar á ull til iðnaðar og hraðað endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Staðan hefur breyst til hins betra í útflutningsiðnaði að undanförnu. Einstakar greinar iðnaðar hafa átt við vök að verjast vegna harðnandi samkeppni við innfluttar vörur í kjölfar tollalækkana, svo sem sælgætisiðnaður og húsgagnaiðnaður. Til að bregðast við þessu og auka svigrúm til aðlögunar var settur tímabundinn tollur á innflutt sælgæti og hafið þróunarátak í greininni. Að margháttuðum endurbótum er nú unnið með samvinnu fyrirtækja og samtaka iðnaðarins og stuðningi stjórnvalda og þjónustustofnana iðnaðarins. Markmiðið er að styrkja stöðu iðnaðarins á heimamarkaði og í útflutningi, auka framleiðni og afköst.

Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika eru horfur á að iðnaðarframleiðsla vaxi í heild um nálægt 4% á þessu ári. Gætir þar aukningar kísiljárnsframleiðslu, en framleiðsla á öðrum iðnaðarvörum hefur einnig vaxið verulega á árinu. Jafnhliða því, sem ríkisstj. beitir sér fyrir bættum starfsskilyrðum í iðnaði, er unnið að stefnumörkun um iðnþróun til lengri tíma, og verður þáltill. um iðnaðarstefnu lögð fram á þessu þingi. Unnið er að gagnasöfnun og mati á meiriháttar nýiðnaði, er m.a. byggi á innlendri orku og hráefnum, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Athugun á hagnýtingu orkulinda landsins til eflingar íslensku atvinnulífi er mikilvægt verkefni og brýnt að fá sem skýrasta mynd af þeim kostum er til álita koma. Í undirbúningi er reglugerð um iðngarða og unnið er að stefnumótun um opinber innkaup.

Flestar innlendar skipasmíðastöðvar hafa haft næg verkefni á árinu og aðgang að stofnlánum til endurbóta á aðstöðu sinni. Athugun á framtíðarstöðu skipasmíðaiðnaðarins stendur yfir og tengist m.a. stefnumörkun Um viðhald og endurnýjun fiskiskipastólsins, ekki síst bátaflotans.

Lánasjóðir iðnaðarins hafa verið efldir á árinu með fjármagni og ný lög verið sett um Iðnrekstrarsjóð, sem ætlað er að styðja undirstöðuverkefni varðandi iðnþróun.

Frá því að ríkisstj. tók við hefur margt gerst á sviði félagsmála sem markar þáttaskil. Þar ber fyrst og fremst að nefna lögin um húsnæðismál. Í þeim lögum er gert ráð fyrir stórauknum framlögum til verkamannabústaða, tryggt að gert verði átak til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, og í lögunum er ákvæði um verðtryggingu skyldusparnaðar. Í annan stað má nefna lögin um aðbúnað á vinnustöðum, en þar eru skapar forsendur fyrir verulegum áhrifum starfsmanna á nánasta starfsumhverfi á vinnustað. Í þriðja lagi skal bent á framkvæmd laganna um aðstoð við þroskahefta, þar sem þegar er um að ræða myndarlegar athafnir, en í fjárlagafrv. er enn gert ráð fyrir auknu átaki á þessu sviði. Þá skal þess getið, að alþjóðaár fatlaðra hefur þegar verið undirbúið og skipuð sérstök framkvæmdanefnd vegna þess. Tekjutrygging hefur hækkað, og áfram verður stigið nýtt skref í þá átt á næsta ári.

Á sviði samgöngumála hefur erfiðleika Flugleiða borið einna hæst. Vegna þess, hve Norður-Atlantshafsflugið frá Lúxemborg til New York hefur haft mikla þýðingu fyrir íslenskan þjóðarbúskap, ákvað ríkisstj. að bjóða aðstoð til þess að því mætti halda áfram á meðan framtíð flugsins er skoðuð nánar. Rekstrarfjárstaða Flugleiða er mjög erfið, svo að innanlandsflug og nauðsynlegustu tengsl við umheiminn eru í hættu. Við þeim vanda ber stjórnvöldum skylda til að bregðast, og því hefur verið lagt fram á Alþingi frv. til laga um aðstoð við Flugleiðir.

Í ár er lagt bundið slitlag á 92 km af vegum. Það er yfir tvöfalt meira en áður hefur verið gert á einu ári. Slíkum framkvæmdum þarf að halda áfram með svipuðum eða auknum krafti samhliða öðrum verkefnum á sviði vegamála.

Í dómsmálum, kirkjumálum, menntamálum og heilbrigðismálum eru margvíslegar umbætur fyrirhugaðar og verða ýmis frumvörp um þau efni lögð fyrir Alþingi í vetur.

Herra forseti. Íslenska þjóðin á við mikla og margháttaða örðugleika að etja. Verðbólgan er þar verstur þrándur í götu. Hún er að verulegu leyti okkar eigin smíð, Íslendinga. Til þess að vinna bug á þessum alvarlegu erfiðleikum þurfa allir að taka á sig skyldur og byrðar. Hins vegar megum við ekki einblína á erfiðleika og dökkar hliðar. Við eigum því láni að fagna, að hér á landi hefur tekist að tryggja næga atvinnu og afstýra atvinnuleysi, meðan flestar grannþjóðir okkar stynja undir böli atvinnuleysis. En einnig þetta lán er fallvalt ef við sjáum ekki fótum okkar forráð.

Með samhentum átökum, stillingu og festu mun íslenska þjóðin nú sem fyrr sigrast á örðugleikum og andbyr og sigla fleyi sínu í farsæla höfn.