11.12.1980
Efri deild: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

29. mál, Grænlandssjóður

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir, tel ég vera eitt af þeim málum sem ætti að vera fullkomin samstaða um, þ.e. frv. um Grænlandssjóð. Grænlendingar eru næsti nágranni okkar og reyndar hafa Íslendingar verið í alveg sérstöku sambýli við þá þjóð, sem á Grænlandi býr, í nær 1000 ár. Það líður nú senn að því, að 1000 ár séu liðin síðan norrænir menn mættu fyrst Innúítum, og tel ég að okkur beri beinlínis skylda til að efla samstarf við þá þjóð, sem núna í fyrsta sinn í sögu sinni kemur fram sem sjálfstæður aðili að samfélagi þjóðanna.

Um nokkurt skeið hefur menningarsamband Íslands og Grænlands einkum verið á því sviði, að örlítill styrkur hefur verið veittur til náms í grænlensku til handa íslenskum mönnum, og hins vegar hefur nokkur hópur grænlenskra ungmenna dvalist hér, einkum og sér í lagi við búnaðarnám. Íslenskir vísindamenn hafa á undanförnum árum einnig tekið virkan þátt í náttúrufræðirannsóknum og fornleifarannsóknum á Grænlandi, og augljóst er, að á næstu áratugum muni samstarf Íslendinga og Grænlendinga um fiskveiðimál verða allvíðtækt.

Í menningarmálum á Grænlandi er nú mjög margt að gerast. Þar hefur risið stofnun sem er nokkurs konar akademía, þar sem sinnt er bæði tungu, fornri menningu og sögu landsins. Ég tel tvímælalaust að Íslendingar eigi að gera tvennt, bæði að senda menn til starfa við þessa akademíu og eins að veita grænlenskum mönnum möguleika á að stunda hérlendis rannsóknir og nám við íslenska skóla. Samkv. frv. því sem hér liggur fyrir opnast möguleikar á að sinna þessu tvíþætta hlutverki, námi Íslendinga á Grænlandi og Grænlendinga á Íslandi, og jafnframt að efla samstarf í efnahagsmálum, menningarmálum og yfirleitt öllum þeim málum sem snerta þessar nágrannaþjóðir báðar.

Herra forseti. Ég tel að þær brtt., sem fram hafa komið um eflingu sjóðsins, séu til bóta og mæli eindregið með að þetta frv. verði samþ. og að Alþingi sýni þar með vilja sinn til samstarfs við Grænlendinga, þessa gömlu og nýju nágranna okkar.