11.12.1980
Efri deild: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

142. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 80 16. sept. 1971, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, með áorðnum breytingum. Þetta frv. hefur verið til meðferðar í Nd. og er komið þaðan í þeim búningi sem birtist hér. Var það samþ. eins og það var upphaflega lagt fram, að ég ætla.

Með lögum nr. 74 frá 28. maí 1969 var bætt í lög um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins frá 1962 nýjum kafla um fæðisgreiðslur til sjómanna á fiskiskipum. Gildistími laganna hófst 19. febr. 1969. Með lögum þessum var ákveðið að lögskráningarskyldir fiskimenn og fiskimenn á þilfarsbátum, sem ekki eru lögskráningarskyldir, skyldu fá ákveðna upphæð greidda fyrir hvern dag á lögskráningartímabilinu til að standa straum af fæðiskostnaði sínum, og fór upphæðin eftir stærð fiskibátanna sem voru flokkaðir í þrjár stærðir. Með lögum nr. 48 frá 1973 var bætt við fiskiskimönnum á opnum vélbátum. Togarar koma ekki við sögu þessara laga þar sem aðeins var um að ræða stóra togara, mest nýsköpunartogarana svonefndu, en eigendur þeirra áttu aðild að Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda og samkv. samningum þess við sjómannafélögin höfðu togarasjómenn frítt fæði. Það ákvæði gildir enn fyrir þá togara sem eiga aðild að FÍB, en það eru aðeins hinir stærri togarar, þeir sem eru stærri en 500 brúttórúmlestir.

Þegar minni togarar, aðallega skuttogarar undir 500 brúttórúmlestum að stærð, komu til sögu leiddi af sjálfu sér að skipverjar á þeim fengju greiddan hluta af fæðiskostnaði eins og bátasjómenn, þar sem þeir vinna eftir sams konar kjarasamningum og sjómenn á fiskibátum, enda eru eigendur báta og minni togara í sömu útvegsmannafélögum og gera sameiginlega kjarasamninga við sjómannafélögin fyrir bæði bátana og togarana. Upphæðir fæðisgreiðslna voru ákveðnar í lögum strax í upphafi og hafa alltaf verið misháar eftir stærð skipa, sem skipað var í þrjá stærðarflokka.

Þess mun fljótlega hafa orðið vart, að erfitt var að sjá til þess, að jöfnuður ríkti varðandi greiðslur til sjómanna á hinum ýmsu stærðarflokkum skipa. Reynt var að bæta nokkuð úr því með breyttri stærðarflokkun og nokkuð breyttum upphæðum greiðslna með setningu laga nr. 53 frá 1974, en þó ekki svo að fullnægjandi þyki. Mál þessi hafa verið rædd í almennum umræðum um kjarasamninga. Mun óhætt að fullyrða að bæði sjómenn og útvegsmenn séu almennt sammála um að nauðsyn beri til að lagfæra þær reglur, sem nú gilda um fæðisgreiðslurnar, þannig að stefnt sé að því að allir sjómenn á öllum flokkum fiskiskipa fái sama eða svipaðan hluta af fæðiskostnaði sínum greiddan. Vegna þess að atvik og aðstæður breytast, eins og reynslan sýnir, er nánast ógerlegt að hata ákvæði um fæðisgreiðslurnar bundnar í lögum, þar sem seinlegt er og umsvifamikið að gera á þeim tíðar breytingar. Stjórn Aflatryggingasjóðs, sem skipuð er mönnum tilnefndum af samtökum sjómanna og útvegsmanna, mun vera sammála um að best fari á því, að málum þessum sé skipað með reglugerð sem samtökin geti haft áhrif á hvers efnis verði. Samtök þessi eru auk Fiskifélags Íslands Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, Landssamband ísl. útvegsmanna og Sjómannasamband Íslands.

Á framangreindum forsendum er þetta frv. flutt. Að efni til er gildandi lögum ekki breytt að öðru leyti en því, að ákvæði 17. gr. þeirra, sbr, lög nr. 53 frá 1974 um stærðarflokka skipa og upphæð fæðispeninga, er numið brott, en í þess stað kemur ákvæði um að þessum þáttum skuli skipað með reglugerð. Efnisskipan er nokkuð breytt án þess að um efnisbreytingar sé að ræða, utan þess sem sagði hér á undan.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja sérstaklega lið fyrir lið greinar frv., sem eru fimm með gildistökugrein. Ég hygg að ég hafi komið að helstu atriðum sem máli skipta í sambandi við efni frv. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.