12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

1. mál, fjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætla að víkja undir lok umr. að ummælum nokkurra hv. þm. í þessum umr. og ber þar fyrstan að telja hv. þm. Karvel Vestfirðing Pálmason sem sendi mér nokkuð hressilegar kveðjur í upphafi síns máls. (KP: Ekki að ástæðulausu.)

Það vildi nú svo til, að ég taldi mér skylt að taka af þingmönnum það ómak að vera hér að eyða löngum tíma í fjas og japl um lánsfjáráætlunina og hvenær hún kæmi og hvenær mætti vænta hennar og annað eftir því, vegna þess að það var búið að afgreiða hana og hún var rétt ókomin til fjvn. Þess vegna óskaði ég eftir því við hæstv. forseta að taka til máls eftir að frsm. flokkanna úr fjvn. hefðu talað. Það stóð svo á, að annar þeirra var rétt að ljúka sinni ræðu. Ég ræddi það alveg sérstaklega við hv. þm. Karvel Pálmason, hvort hann vildi ekki vera á undan og hvort það væri ekki eðlilegt að hann lyki sér af áður en ég tæki til máls. En hann taldi það algeran óþarfa og það væri sjálfsagt að ég kæmi þessu fyrst að. Svo var það auðvitað hann sem var allra manna hávaðasamastur hér á eftir yfir þeirri ósvinnu og ósvífni af mér að ég skyldi ryðjast fram fyrir sig og taka til máls. Þetta veit hv. þm. að er dagsatt. Það, sem ég var að segja, veit hann að er dagsatt. Hann leyfði mér að fara fram fyrir sig og hvatti mig jafnvel til þess, en var svo allra manna hávaðasamastur á eftir. (KP: Ég kem á eftir.) Já, hv. þm. ætlar líklega að skáka í því skjóli að ég nenni ekki að svara honum. Hér var um tveggja manna tal að ræða og verður þá kannske fullyrðing að standa gegn fullyrðingu. En þannig var þetta. (KP: Hæstv. forseti veit líka um málið.)

Það er svo allt annað mál að eftir að ég tók til máls og gerði grein fyrir þessu atriði fengu ýmsir þm. mikinn áhuga á ýmsum þáttum þess sem sneru að lánsfjáráætlun og ég neyddist til að velja við það atriði heldur lengur en ég ætlaði, eins og oft kemur fyrir ræðumenn í þessum stól. Stutt ræða varð því kannske ekki eins stutt og hún var í upphafi ætluð, en þó ekki löng, held ég. Að minnsta kosti var hún miklu styttri en flestar þær ræður sem hv. þm. Karvel Pálmason flytur hér.

Ég var spurður nokkurra spurninga af hv. þm. Friðrik Sophussyni sem ég tel mér skylt að svara.

Það var í fyrsta lagi spurt um Byggingarsjóð ríkisins. Hann benti á að framlög til sjóðsins næmu aðeins 4.3 milljörðum og þó væri gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna yrði samtals 40 milljarðar samkv. áformum í grg. frv. Þetta er rétt. Þannig er þetta. Framlög til Byggingarsjóðs ríkisins eru 4.3 milljarðar, en Byggingarsjóður verkamanna fær hins vegar 7.5 milljarða eða samanlagt fá þessir sjóðir 11.8 milljarða. Það, sem á vantar til að ráðstöfunarfé sjóðanna geti orðið 40 milljarðar, eru ýmiss konar tekjuliðir, eins og verið hefur á undanförnum árum, m.a. lántökur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og skyldusparnaðarfé og lánsfé frá lífeyrissjóðum. Það er augljóst mál, að lánsfé frá lífeyrissjóðum verður að þessu sinni talsvert miklu meira hlutfallslega en það hefur verið á undanförnum árum. En þetta veldur því aftur á móti að lánsfé lífeyrissjóðanna til Framkvæmdasjóðs og til ríkisframkvæmda verður að sama skapi heldur minna, sem svo aftur mun valda því, að aðrar lántökur ríkissjóðs verða að sama skapi meiri. Allt þetta lánakerfi er auðvitað samfelld heild þannig að auknar lánveitingar á einu sviði hafa áhrif á lánveitingar á öðrum sviðum, og þar sem ráðstöfunarfé þessara tveggja vex úr 23 milljörðum á þessu ári í 40 milljarða segir það sig sjálft, að það veldur vissum vandkvæðum á öðrum sviðum lánastarfseminnar.

Það er rétt, sem hv. þm. benti á, að þessa er ekki sérstaklega getið á því blaði sem dreift var til fjvn. í dag, enda er þar fyrst og fremst um að ræða grg. fyrir erlendum lánöktum, en ekki heildarlýsingu á allri lánastarfseminni, eins og skýrsla um lánsfjáráætlun hlýtur auðvitað að vera og mun verða þegar hún verður lögð fram. Þetta er hins vegar sú beinagrind, sem lánsfjáráætlun er byggð á, ásamt útlánaáætlun Byggingarsjóðs ríkisins, sem er ekki þarna með. Vissulega er langt frá því að lánsfjáráætlun sem slík hafi verið lögð fram þó að þetta plagg hafi verið lagt fram, því það vantar sem sagt grg. og upplýsingar um fjöldamarga þætti lánakerfisins, m.a. hvernig útlán til einstakra fjárfestingarsjóða eiga að skiptast. Þessi beinagrind er þó megingrindin í lánastarfseminni og má segja að þegar þær ákvarðanir liggja fyrir, sem eru á þeim blöðum sem dreift var í dag, hafi fyrir, sem eru á þeim blöðum sem dreift var í dag, hafi allar mikilvægustu ákvarðanirnar verið teknar og meginramminn verið fylltur, en síðan er auðvitað eftir að gera nánari grein fyrir þessu í smærri atriðum í lánsfjáráætlun.

Hv. þm. minntist hér á Lánasjóð íslenskra námsmanna, en framlag til hans er 8 milljarðar og lántaka 3.3 milljarðar eða samtals 11.3 milljarðar. Þetta er uggvænlega há upphæð, en miðast einfaldlega við núverandi lánareglur. Ef hins vegar verða samþykkt ný lög í framhaldi af gerð frv. sem nefnd hefur samið og margir munu kannast við, enda hefur álitsgerð nefndarinnar víða farið, mun þurfa talsvert aukið fjármagn til að standa fyrir lánastarfsemi sjóðsins umfram það sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun og fjárlögum.

Hv. þm. vék hér nokkuð að niðurgreiðslum og nefndi ákvæði stjórnarsáttmálans í því sambandi. Nú hef ég ekki þetta gullvæga plagg fyrir framan mig, en þó held ég að ég muni rétt að þar standi að niðurgreiðslur eigi að hækka í hlutfalli við hækkanir búvöruverðs. — Þar sem hv. þm. er svo elskulegur að lána mér þetta plagg get ég lesið það hér, en þar segir í 2. lið um verðlagsmál:

„Verðhækkanir á búvöru fylgi sams konar reglum,“ — þ.e. niðurtalningarreglum, — „enda verði niðurgreiðslur ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árin 1980 til 1981.“

Nú vil ég benda á að niðurgreiðslur hafa þrívegis hækkað á þessu ári. Þær hafa hækkað í júníbyrjun, í ágústbyrjun og í nóvemberbyrjun. Það vill svo til að niðurgreiðslur hafa ekki verið hækkaðar á nákvæmlega sömu dagsetningum og verðlagshækkanir hafa verið bundnar við, en þó má segja að niðurgreiðslur hafi verið auknar jafnt og þétt á síðari hluta ársins eða frá því í júníbyrjun og þó að ég hafi ekki þá útreikninga fyrir framan mig er mér nær að halda að ekki sé mikill munur á annars vegar hækkun niðurgreiðslna og hins vegar hækkun búvöruverðs frá því í júníbyrjun. Ég get því miður ekki sagt um hvort niðurgreiðslurnar hafa aukist meira en nemur hækkun búvöruverðsins eða minna, vegna þess að ég hef ekki þá útreikninga fyrir framan mig, en mér er næst að halda að þarna sé ekki stór munur á. Það er einmitt þetta sem verið er að gera í framhaldi af stjórnarsáttmálanum og ákvæðum hans.

Hv. þm. nefndi að til þess að framkvæma ákvæði stjórnarsáttmálans og ákvæði fjárlaga um þetta efni hefði þurft að veita 1000 millj. til viðbótar í niðurgreiðslur á þessu ári. Ég hef raunar heyrt miklu hærri upphæðir nefndar. Menn hafa jafnvel verið að nefna að það þyrfti að hækka niðurgreiðslur um eina 10 milljarða á næsta ári til að standa undir þessu ákvæði stjórnarsáttmálans. (Gripið fram í: Miðað við nýjustu verðlagsforsendur spárinnar.) Já, auðvitað getum við ekki miðað niðurgreiðsludæmið við aðrar verðlagsforsendur en þær sem frv. að öðru leyti er miðað við. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, að miðað við 42% vantar í niðurgreiðsludæmið, eins og það liggur fyrir í fjárlögum, 4.5 milljarða. En vegna þess að mér fannst þessi fullyrðing um 1000 millj. bera keim af því, að nokkurs misskilnings gætti í þessum efnum, vildi ég nefna þetta hér. Það var greinilegt, að hv. þm. miðaði við allt annan tíma en ríkisstj. Ríkisstj. hefur ákveðið að miða þetta hlutfall niðurgreiðslna við búvöruverðið eins og það var á s.l. vori, en ekki eins og það var í byrjun ársins 1980.

Ég er hræddur um að talsvert af þeim misskilningi, sem fram kemur hjá ræðumönnum ýmsum hverjum um niðurgreiðslurnar, byggist á því að þeir átta sig ekki á að viðmiðunartímabilið hefst um mánaðamótin maí-júní, en ekki í ársbyrjun 1980. (FrS: 1. júlí 1979 samkvæmt frv. fyrir yfirstandandi ár.) Já, ég veit að það stendur á blaði sem hv. þm. hefur fengið mér í hendur og ég veil satt að segja ekkert úr hvaða frv. er eða hvaðan er fengið. (Gripið fram í.) Það getur verið komið úr ýmsum áttum. Það er tekið svo til orða hér á einum stað: Niðurgreiðslur eru hér áætlaðar 20 milljarðar á heilu ári, miðað við það niðurgreiðslustig, sem ákveðið var í júlí 1979, og breytingar síðar á árinu. — En þetta segir ekki að niðurgreiðslurnar eigi að aukast í sama hlutfalli og búvöruverðshækkunin hverju sinni frá því í júlí 1979 eða frá því í ársbyrjun 1980. Þegar þessi ríkisstj. kom til valda hafði hún ekki heimild til að hækka niðurgreiðslur vegna þess að heimildir fjárlagaáætlunar, sem samþ. var hér í ársbyrjun 1980, rúmuðu ekki auknar niðurgreiðslur. Þar af leiðandi lá nokkuð í hlutarins eðli og gat ekki komið til greina nein önnur viðmiðun en að miða við fyrstu hækkun búvöru um mánaðamótin maí-júní. Sé svona tekið til orða í einni setningu í þessu frv. er það væntanlega arfur úr frv. Tómasar Árnasonar vegna þess að grg. með frv. var að verulegu leyti byggð á grg. þess frv. (Gripið fram í: Í hvaða ríkisstj. situr hann?) Ýmiss konar orðalag var þaðan fengið, en hins vegar verð ég að segja að þetta orðalag er á engan hátt í mótsögn við það sem ég hef hér sagt. Það minnir einungis á hvernig niðurgreiðslutalan er upphaflega reiknuð, en segir ekkert til um hvernig þetta ákvæði stjórnarsáttmálans skuli framkvæmt. Það er tvennt ólíkt.

Hv. þm. Friðrik Sophusson nefndi hér skuld ríkissjóðs við Reykjavíkurborg vegna sjúkrahúsabygginga, en þar er um mjög háar og miklar upphæðir að ræða sem ég vefengi alls ekki að séu eins og hann nefndi áðan. Staðreyndin er sú, að Reykjavík hefur unnið töluvert fram fyrir sig í heilsugæslumálum og ríkissjóður hefur alls ekki haft undan að greiða framlag sitt á móti. Yfirleitt er það svo, að sveitarfélög, sem byggja heilsugæslustöðvar úti á landi, verða að sætta sig við að láta framkvæmdirnar vera nokkurn veginn í takt við það sem ríkið treystir sér til að greiða. En það vill svo vel til, að fjárhagur Reykjavíkurborgar hefur verið allrúmur um langt skeið vegna þess að Reykjavíkurborg hafði ýmsa þá tekjuliði um langt skeið sem önnur sveitarfélög höfðu ekki. Þess vegna voru tekjur Reykjavíkurborgar hlutfallslega hærri um mjög langt skeið en flestra annarra sveitarfélaga í landinu og þess vegna gafst Reykjavíkurborg kostur á að vinna nokkuð fram fyrir sig. Við þekkjum það, að Reykjavíkurborg varð á undan öðrum sveitarfélögum að leggja göturnar hér varanlegu slitlagi og hefur því auðvitað haft rúm fjárráð. Er þakkarvert að borgin skuli hafa lagt svo mikið fjármagn í sjúkrahúsbyggingar, en það þýðir auðvitað ekki að ríkissjóður geti staðið skil á mótframlagi sínu í einu vetfangi, heldur hlýtur það uppgjör að eiga sér stað með tíð og tíma.

Ég vil hins vegar taka undir það sem fram kom hjá hv. þm., að ef boðið er að greiða þessa skuld með því, að ríkið athendi verðmæt lönd í nágrenni Reykjavíkur upp í skuldina þá tel ég að það komi mjög sterklega til greina. Raunar hefur það verið nokkuð rætt og athugað. Ég tel að ef samkomulag gæti tekist um þessa lausn málsins mættu báðir aðilar vel við una.

Ég þakka Lárusi Jónssyni, hv. 3. þm. Norðurl. e., fyrir að vera einn af þeim sem hafa gefið mér blöð í dag, en hann rétti að mér tveggja ára gamalt blað stimplað fjárlaga- og hagsýslustofnun, en það mun vera frá því á miðju sumri 1978 — líklega frá því í júnímánuði 1978. Í því plaggi kom fram að þáv. fjmrh. með embættismönnum sínum átti von á að yrði 3 milljarða greiðsluafgangur í árslok 1978. En þetta var því miður algert villuljós og plaggið er ekkert merkilegra fyrir það að það hafi verið sett fram á sínum tíma. Það var alveg jafnmikil blekking fyrir það. Það reyndist nefnilega á allt annan veg, eins og ég hef þegar gert grein fyrir. Ég bendi hér á að í skýrslu frá hagfræðideild Seðlabanka Íslands um þróun ríkisfjármála og um samskipti ríkisins við Seðlabankann, en þetta skjal er gefið út 24. nóv. 1980, segir, með leyfi forseta: „Skuld ríkissjóðs við Seðlabankann var komin í 11 milljarða 316 millj. í júnímánuði 1978 frá ársbyrjun.“ — Það er sem sagt til viðbótar við skuldasöfnunina frá fyrri árum á þessu eina ári komin 11 milljarða skuld við Seðlabankann. Hún fer upp í 12.6 í júlímánuði, hún fer upp í 14.5 í ágústmánuði, og þar skildi Sjálfstfl. við ríkisfjármálin og stjórn þeirra, blessunarlega fyrir landslýð. Síðan fer þessi skuld lækkandi. (Gripið fram í: Hæstv. ráðh. veit að skuld við Seðlabankann er mest um mitt ár.) Jú, það er út af fyrir sig alveg rétt, að þetta er ekkert nýnæmi, skuld er einna mest um mitt árið. En ég vek athygli á því, hvað sú fullyrðing, sem hér kom fram frá hv. þm., er í æpandi mótsögn við staðreyndir. Á þessum tíma er 14 milljarða skuldasöfnun við Seðlabankann, sem er á núgildandi verðlagi ekki minna en í kringum 30 milljarða, en t.d. á þessu ári hefur skuld ríkissjóðs við Seðlabanka á miðju ári, um svipað leyti, aldrei farið upp fyrir 7 eða 8 milljarða í mánaðarlok. Menn sjá hvílíkur reginmunur þarna er á. Og að ætla að fara að reyna að telja mönnum trú um að ríkisfjármálin hafi verið í einhverju sérstöku jafnvægi þegar Sjálfstfl. fór frá völdum á miðju sumri 1978 er auðvitað ekkert annað en sótsvört blekkingastarfsemi!

Ég verð að segja það, að ég hef afskaplega gaman af stjórnarandstæðingum eins og Lárusi Jónssyni þegar þeir eru að útskýra fyrir mönnum hvernig standi á því, að ríkisfjármálin skuli vera í jafnvægi. Þeir koma alltaf upp öðru hvoru og gefa á þessu skýringu og þá er alltaf skýringin þessi: Tekjurnar eru meiri og gjöldin eru minni. — Þetta er skýringin. Það eru stórtíðindi fyrir þm. að jafnvægi skuli nást með því tvennu móti, að tekjurnar verða meiri og útgjöldin minni, — stórmerkileg tíðindi. Það héldu auðvitað allir þm. að þetta væri einhver hókus-pókus og gert með einhverjum allt öðrum ráðum en að auka tekjurnar og minnka útgjöldin. Auðvitað gat jafnvægi ekki orðið með neinum öðrum hætti en þessum. En það þurfti líka að gerast og gerðist ekki fyrr en á þessu ári. (Gripið fram í: Ráðherrann á að beina spjótum sínum að Seðlabankanum. Ég las aðeins upp úr grein.) Ég held að hv. þm. verði að eiga sitt þras við Seðlabankann sjálfur og ekki vera að blanda mér í það:

Hv. þm. Eiður Guðnason spurði áðan um skatta fyrirtækja og vildi leggja mér það til lasts að ekki er áætlað í þessum fjárlögum að skattar á fyrirtæki aukist til jafns við ýmsa aðra skatta. Hann vildi sem sagt meina að með þessu væri ég að reyna að hlífa fyrirtækjunum, — maðurinn sem hefði verið að hrópa um að fyrirtækin hefðu verið skattlögð of lítið á sínum tíma. En þetta er einmitt misskilningur sem Alþfl. virðist haldinn ekki bara við þessa fjárlagaafgreiðslu, heldur líka á s.l. vetri.

Alþfl. telur sig geta og talsmenn hans telja sig geta stjórnað skattlagningu á fyrirtæki með ákvörðunum um upphæðir í fjárlögum og þegar Alþingi ákveði að hafa fjárlagatöluna nógu háa sé aldeilis verið að pína fyrirtækin, en svo þegar fjmrh. vill hafa töluna eitthvað raunsærri og eitthvað lægri sé verið að hlífa þeim. Auðvitað ákveðast ekki skattaálögur á fyrirtæki eða yfirleitt á neina aðila af fjárlagatölunum. Það eru áætlunartölur sem þar er um að ræða. Skattgreiðslur fyrirtækja fara fyrst og fremst eftir ákvæðum skattalaga og eftir afkomu fyrirtækja og nettótekjum þeirra. Þegar spáð er að skattar fyrirtækja vaxi ekki eins og kannske margur maðurinn hefði viljað að þeir gerðu stafar það einfaldlega af því, að afkoma fyrirtækjanna er kannske ekki talin hafa batnað í sama hlutfalli og verðlagsþróunin í landinu. Þessar tölur eru að sjálfsögðu ekki búnar til á skrifborði fjmrh., heldur eru þetta áætlunartölur sem fengnar eru frá Þjóðhagsstofnun.

Ég verð hins vegar að segja að aðalatriði málsins er að skattlagning fyrirtækja er tvímælalaust í miklu heilbrigðara horfi en hún var á þeim tíma sem ég gagnrýndi þau mál hvað mest. Það hafa sem betur fer verið sett ný skattalög og þeim var verulega breytt á s.l. vetri, m.a. voru fyrningaprósentur talsvert hækkaðar og gerðar aðrar breytingar í þá átt að fyrirtæki greiddu skatta. En það má vel vera að fyrirtæki ættu að greiða enn meiri skatta en þau gera nú, og þá gerum við það ekki — hv. þm. Eiður Guðnason og ég — með því að deila um fjárlagatölurnar, heldur gerum við það með því að koma fram breytingu á skattalögunum. Ég er sannarlega fús til samstarfs við Alþfl. og alla aðila hér í þinginu um þær breytingar á skattalögum sem gott samkomulag getur tekist um og horfa til batnaðar. Ég minni á að við stjórnarsinnar höfum lagt hér fram frv. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem er auðvitað skattur á fyrirtæki fyrst og fremst, og ég treysti því fullkomlega að hv. þm. ásamt samþm. sínum úr Alþfl. styðji dyggilega við bakið á okkur við samþykkt á því frv. (Gripið fram í: Það væri nú annað hvort.) Já. (KP: Er ekki fullur stuðningur annars staðar frá?) Jú, vafalaust er víða stuðningur við það mál.

Ég vil að lokum segja að mér þykja afskaplega einkennilegar orðræður manna um að fjárlagafrv. sé bersýnilega byggt á röngum forsendum og því nánast einskis virði vegna þess að sumir ætla að verðbólga kunni að verða meiri en frv. gerir ráð fyrir. Það er alveg rétt, að frv. er miðað við 42% verðbólgu milli áranna 1980 og 1981 og að öllu óbreyttu spá ýmsir að verðbólga kunni að verða yfir 60% á næsta ári. Þetta er alveg rétt. En við gerum ráð fyrir því í ríkisstj., að efnahagsaðgerðir verði framkvæmdar í millitíðinni sem auðveldi okkur að ná niður verðbólgu, og við teljum að þetta verðbólgumarkmið, 42%, sé alveg jafnraunhæft og þegar fjárlagafrv. var samið og verði að vera það. Við verðum að ná þeim árangri.

Hins vegar verð ég að segja að bollaleggingar af þessu tagi verða að flokkast undir nýja tegund áróðurs við umfjöllun um fjárlagafrv. Lengst af var það svo, að fjárlagafrv. var alltaf á desemberverðlagi þess árs þegar frá því var gengið og það samþ. Það er fyrir örfáum árum að farið er að reyna að spá um verðbólgu á komandi ári og haga fjárlagatölum í samræmi við það. Hvað á þá að segja um öll frumvörpin sem samþykkt voru frá aldamótum og fram til þess tíma að farið var að taka mið af verðbólgunni'? Voru þau frv., sem þá voru gerð að lögum, tómar endaleysur? Auðvitað ekki. Auðvitað er þetta ekkert annað en áróður sem menn nota í mikilli málefnafátækt til að reyna að slá ryki í augu fólks. Við vitum allir þm. hvernig í því liggur, að fjárlög og ríkisreikningur raskast ekki í grundvallaratriðum, eða a.m.k. ekki mjög verulega, þó að verðbólga verði eitthvað meiri eða eitthvað minni en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Ástæðan er einfaldlega sú, að um 70–80% af útgjöldum fjárlaga eru laun og tryggingabætur og rekstrarkostnaður, sem hreyfast í takt við verðbólguna, og svo eru óbeinir skattar, sem líka hreyfast í takt við verðbólguna, í kringum 80% af tekjum fjárlaga, þannig að þegar verðbólga er eitthvað meiri eða eitthvað minni en fjárlög gera ráð fyrir getur þetta að vísu valdið einhverri skekkju í útkomu dæmisins, en sjaldnast mjög verulegri. Og því er venjulegast tómt mál um að tala að fjárlög séu byggð á sandi þó að þau hitti ekki nákvæmlega í þá prósentutölu verðbólgu eða verðlagshækkunar á næsta ári sem ráð er fyrir gert. Það gera þau raunar aldrei. Ég gæti trúað að leitun væri á nokkru einasta fjárlagafrv. sem flutt hafi verið og hafi verið nákvæmlega í takt við þá verðbólguþróun sem kom í ljós á árinu á eftir. Auðvitað er þetta ekkert annað en áróður og það heldur ómerkilegur áróður vegna þess að allir þm. vita betur.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um fjárlagafrv. að sinni, enda gefst tækifæri til þess síðar, en ég ítreka þakkir mínar til fjvn. og vænti þess, að jafnvel gangi að ganga endanlega frá þessu frv.