15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

103. mál, orlof

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þegar kjarasamningar voru gerðir við ASÍ nú á haustdögum voru þessi mál mjög til umræðu. Þá var ákveðið að sérstök nefnd skyldi vinna að tillögum til úrbóta í þessu máli. Ég tel nauðsynlegt að þessi nefnd hafi fengið tækifæri til að ljúka störfum áður en frv. sem þetta er samþykkt og það verði niðurstöður hennar sem liggi til grundvallar breytingum á þessu sviði. Þess vegna finnst mér málið ekki jafntímabært hér á Alþingi og hv. frsm. telur. Ég er þeirrar skoðunar, að hér þurfi að verða breyting á. En sú breyting verður einnig að vera með þeim hætti, að sem hagkvæmast sé launþegum.

Launþegar hafa nú þá tryggingu, að þeir fá greitt orlof án tillits til þess hvort vinnuveitandi hefur gert skil á því eða ekki, sem er mjög mikilvægt atriði í þessu máli.

Ég vil aðeins ítreka að ég er sammála því, að á þessu eigi að verða breyting og eðlilegt að bankar landsins taki við þessari þjónustu, en tel hins vegar nauðsynlegt að málið verði flutt á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem þessi umrædda nefnd kemst að, eins og skýrt kom fram í yfirlýsingu ríkisstj. í síðustu kjarasamningum við. launþega í ASÍ og fulltrúar ASÍ voru sammála um að stefna bæri að.