15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

Afgreiðsla þingmáls

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þess var óskað fyrir um það bil viku, að reynt yrði að afgreiða til nefndar og úr nefnd 12. dagskrármál þessa fundar, frv, um verðgildi íslensks gjaldmiðils. 1. umr. er ólokið, fáir á mælendaskrá og hv. fjh.- og viðskn. Nd. bíður eftir því að fá þetta mál til meðferðar vegna þess að svo háttar, að í nefndum þingsins hafa komið fram ábendingar um að fyrr en þetta mál sé afgreitt sé óeðlilegt að tekin sé afstaða til ýmissa mála sem því eru tengd. Við þm. Alþfl: höfum sérstaklega óskað eftir því, að þetta mál verði framsent til n. Samt líður hér hver fundurinn á fætur öðrum án þess að umr. um þetta mál sé lokið svo að hægt sé að taka það til meðferðar í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Eins og hæstv. forseti hlýtur að gera sér ljóst er þetta mál tímabundið og verður að taka afstöðu til þess á annan hvorn veginn áður en þingið fer í jólaleyfi. Ég vil því eindregið æskja þess við hæstv. forseta, að þegar á næsta fundi verði mál þetta tekið fyrir, umr. lokið um það og því vísað til nefndar, svo að hægt sé að ljúka þar meðferð þess.