15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

Afgreiðsla þingmáls

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths.

Það gleður mig að hv. 1. þm. Vestf. hefur einskorðað gagnrýni sína við þetta mál eitt. Þegar hann hóf mál sitt fyrr í kvöld talaði hann eins og þetta væri hin venjulega afgreiðsla mála heilbr.- og trn. Nd. Mér finnst síðari ræðan strax spor í sanngirnisátt.

Ég vil hins vegar taka það fram, að þegar ég bað hv. þm. að koma til fundar kl. korter fyrir fjögur mótmælti hann því ekki. Þetta upphlaup kom því, að því ég hygg, öllum viðstöddum mjög á óvart.

Þeir nm., sem fjarverandi voru, voru hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem er veikur og hefur tilkynnt það hér í deildinni, og Pétur Sigurðsson, sem er erlendis. Það kann vel að vera að nafn Péturs hefði átt að vera á nál. Það taldi ég þó ekki rétt vegna þess að hann er erlendis. En hann hafði gert það sem allir nm. beggja deilda höfðu gert. Þeir höfðu lýst því yfir, að þeir mundu reyna að gera sitt til að flýta fyrir þessu máli.

Hinu er svo ekki að neita, að mér er alveg ljóst til hvers þetta er gert. Svo skulu hv. þm. dæma um hve drengilegt það er. Þessi ræða, sem hér var flutt af hv. 1. þm. Vestf., er til þess eins haldin að búa til fyrirsögn í Morgunblaðið sem á sér enga staði, þ.e. að ófrægja hv. 8. landsk. þm. sem ónothæfan nefndarformann. Það má vel vera að það takist, og ber að óska þm. til hamingju með það, en síðari ræða hans bar þess öll vott að hann sæi sjálfur hversu ósanngjarnar þær ásakanir voru sem hér voru hafðar í frammi.