15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

152. mál, biskupskosning

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er hægt að verða undrandi í sölum hins háa Alþingis ef það vekur undrun að biskupskjör skuli bera hér á góma þegar fyrir liggur frv. til l. um biskupskosningu. Ég held að það hljóti að vera með allra eðlilegustu málum að ræða hér einmitt á þessari stundu.

Ég ætla ekki að gera mikið mál úr þessu. Það er alveg greinilegt, að þeir hv. þm., sem hér hafa talað, skilja annaðhvort ekki röksemdir mínar eða vilja ekki skilja þær. Vitaskuld fer Alþingi í engu öðruvísi með frv., sem varða kristni og kirkju í landinu, en önnur frv. Það hlýtur að sjálfsögðu að vera hér til umr. Það frv., sem hér liggur fyrir, er að mínu viti prýðilegt frv. og ekkert á móti því að samþ. það. En að bera það á borð, að hér sé verið að búa til frv. fyrir einar biskupskosningar, er auðvitað fjarstæða. Ég óska vissulega bæði núverandi biskupi og þeim næsta langra lífdaga. En ég er hrædd um að ég geti ekki á nokkurn hátt tryggt það, þannig að ég held að við verðum algerlega að gleyma því, hver ævitími biskupa getur orðið í landinu. Frv. hlýtur að þurfa að skoða hér með tilliti til þess, að það eigi lengi að duga, eins og væntanlega öll lagasetning á hinu háa Alþingi.

Hins vegar ofbýður mér þegar boðið er upp á samlíkingu af því tagi, að fulltrúar ASÍ fá setu í einhverju ráði eða nefnd eða að menn eru að hafa á það úrslitaáhrif, hvernig kristni og kirkju er stjórnað í landinu. Þá verð ég að segja að ég tel ekki að þarna sé um sambærileg mál að ræða.

Ég geri ráð fyrir, því miður, að hv. þm. hafi ekki gefist mikill tími til að kynna sér þetta frv. Við því er auðvitað ekkert að segja þó að þeir kjósi að verða við þeirri beiðni að afgreiða þetta hér. Ég tel að frv. sé þannig úr garði gert að það megi vel duga. En ég endurtek að mér finnst ekki sæmandi að stofnun eins og kirkjuþing, sem er kjörið til að vera ráðgefandi um öll þau málefni sem varða kristni og kirkju, taki skyndilega þá ákvörðun að láta gera frv. sem eykur vald þess til þess að það geti einnig tekið þátt í biskupskjöri. Mér finnst það ekki eðlilegur gangur mála þegar um lagasetningu er að ræða og mér finnst það, eins og ég sagði áðan, ekki í anda sjálfrar stjórnarskrárinnar.

Ég veit ekki hvort mönnum er kunnugt um að þau lög, sem nú gilda um biskupskjör, eru í þá veru að þar hafa einungis kosningarrétt þjónandi prestar, biskupsritari, kennarar við guðfræðideild og ég man ekki hvort það voru einhverjir örfáir aðrir. Leikmenn hafa ekki haft þar neinn rétt. Ég er síður en svo á móti því, að þeir kjörnir leikmenn til kirkjuþings, sem kosnir eru til þess sex ár í senn, fái þennan rétt. En ég held að,flestum lögspekingum mundi koma saman um að það væri eðlilegt að þá leituðu þeir að nýju umboðs sinna umbjóðenda.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Þessi brtt. liggur hér frammi til atkvgr. Auðvitað er ekkert við því að segja hvernig hún fer. En ég held að það þurfi mikinn viðvaning á hinu háa Alþingi til að finnast ekkert undarlegt að lagagrein geti hljóðað á þann veg að lög þessi skuli taka gildi 1. jan. 1981 og síðan sé sérstaklega tekið fram að að þeim skuli fara við næstu biskupskosningar á því ári. Ég tel að það hljóti að leiða af sjálfu sér og hér sé einungis um leiðréttingu að ræða, en vel má vera að ég misskilji það ákvæði af einhverjum annarlegum sökum.

Við skulum gera okkur grein fyrir að við berum ábyrgð á réttlæti og lýðræði í landinu. Það er enginn vandi að hugsa sér, ég er ekki að segja að það hafi gerst, en það er enginn vandi að hugsa sér að slíkt frv. sé samið í ákveðnum tilgangi. Það er vitað um þessar fyrirhuguðu biskupskosningar. Á þennan hátt geta ákveðnir aðilar hugsanlega haft bein áhrif á hver verður biskup Ístands. Nú er ég langt frá því að segja að svo hafi verið. En möguleikinn er fyrir hendi og það er Alþingis að gæta þess, að slíkt gerist ekki. Þess vegna er þessi brtt. lögð fram.