15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ekki fannst mér seinasta ræða, sem hér var flutt, innihaldsrík í réttu hlutfalli við hávaðann.

Hv. þm. spyr, hvers vegna núv. ríkisstj. hafi ekki séð sér fært að koma til móts við launamenn á hinum almenna vinnumarkaði í lífeyrismálum. Á ég að trúa því, að einn af forustumönnum Alþfl. í verkalýðshreyfingunni hafi alls ekki tekið eftir því sem gerðist í lífeyrismálum almennu verkalýðsfélaganna í haust í tengslum við þá kjarasamninga sem þar voru gerðir? Á ég að trúa því að hv. þm. Karvel Pálmason sé svo niðursokkinn í atkvæðaveiðar á Vestfjörðum að hann viti ekkert hvað gerist í kjarasamningamálum á hinum almenna vinnumarkaði, að hann taki ekkert eftir því þegar t.d. er ákveðið að hækka tekjutryggingu um 5% í sumar og svo aftur um 5% á næsta ári, sem auðvitað kemur fyrst og fremst öllum þeim til góða sem ekki eru í opinberum lífeyrissjóðum? Tekjutryggingin er auðvitað þáttur í lífeyriskjörum allra þeirra sem ekki eru í verðtryggðum opinberum sjóðum og hækkun tekjutryggingar um 10% á einu ári kemur alveg sérstaklega til góða þeim félögum í lífeyrissjóðum Alþýðusambandsins sem hafa ekki aðrar tekjur.

Í öðru lagi er reynt að vekja á því athygli, að í þessum samningum var ákveðið að félagar í hinum almennu lífeyrissjóðum, sem njóta réttar samkvæmt lögunum um eftirlaun aldraðra, skyldu fá aukinn stigafjölda samkvæmt því kerfi sem gildir í þeim lögum. Með þessu ákvæði styttist þó bilið milli lífeyrisþega í hinum almennu lífeyrissjóðum annars vegar og hins vegar þeirra sem njóta greiðslna úr lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna.

Mér þykir það sem sagt harla merkilegt, að hv. þm. hafi verið svo upptekinn við að undirbúa Alþýðusambandsþing og þau stórmerkilegu tíðindi sem þar áttu að gerast að hann tæki ekki eftir stórmikilvægum ákvæðum og réttarbótum sem náð er fram í þágu skjólstæðinga hans og félaga í verkalýðshreyfingunni. Það er að vísu alveg rétt, að ef það er það sem hv. þm. á við, að ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að samþykkja að ríkissjóður borgi verðtryggingu allra lífeyrissjóða í landinu, en það hefur heldur engin ríkisstjórn treyst sér til að gera. Ég veit ekki betur en flokksmenn — bæði fyrrverandi og núverandi flokksmenn — hv. þm. hafi verið í ríkisstjórn fyrr og síðar. Alþýðuflokksmenn áttu nú félags-, heilbr.- og trmrh, um langt skeið í mörgum ríkisstjórnum. Ég man ekki til þess að neinn af þeim mönnum, sem gegndu því starfi, hafi nokkurn tíma komið með þá tillögu að ríkissjóður greiddi verðtryggingu fyrir alla lífeyrisþega í landinu. Ég held að það sama gildi um ráðh. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, sem m.a. höfðu heilbrigðis- og tryggingamál og félagsmál. Ég minnist þess ekki að þeir hafi nokkru sinni gert tillögur um þetta efni.

Auðvitað er það ósköp einfalt að við verðum að gera ráð fyrir því, þegar lífeyrissjóðirnir í landinu verða allir orðnir verðtryggðir og bjóða verðtryggðan lífeyri, að atvinnurekendur standi undir þeim kostnaði ásamt launafólki eftir þeim reglum sem þá verða ákveðnar og að sjóðirnir, ef um sjóði verður að ræða, verði verðtryggðir þannig að fé þessara sjóða rýrni ekki í verðbólgunni. En að reikna með því, að ríkissjóður geti tekið upp á sína arma að borga allt það sem á vantar í þessum sjóðum, það er fjarstæða sem ég hef ekki heyrt nokkurn þm. eða ráðh. úr flokki hv. þm. halda fyrr fram. Auðvitað verður ríkið að láta sér nægja að greiða verðtryggingu fyrir sína starfsmenn og það á ekki að álasa ríkinu fyrir að gera það.

Ég verð að segja að leiðarahöfundur Alþýðublaðsins hefur komið mér býsna mikið á óvart á undanförnum mánuðum. (Gripið fram í.) Ja, ég þekkti þann mann að ýmsu góðu áður fyrr. Hann var m.a. í mínum flokki og hélt þá ekki uppi jafneinkennilegum málflutningi og hann hefur gert eftir að hann lenti í flokki með hv. þm. Karvel Pálmasyni. Ég veit ekki hvort það eru vond áhrif að vestan sem því valda. (Gripið fram í.) Já. Jæja, þeir lentu nú þarna saman félagarnir, í sama flokknum, hvor sem hafði áhrif á hinn. — En nú í seinni tíð heldur hann uppi þeim áróðri í blaði sínu dag eftir dag og viku eftir viku að kjarasamningar opinberra starfsmanna hafi verið hreint hneyksli. Ég er hræddur um að þetta þyki nokkur tíðindi meðal Alþýðuflokksmanna í hópi opinberra starfsmanna.

Ég fæ ekki betur heyrt en hv. þm. Karvel Pálmason sé að flytja hér inn í þingið þann róg og það níð um samtök opinberra starfsmanna sem ritstjóri Alþýðublaðsins hefur haft forustu um á undanförnum vikum. Ég tel það ekki hv. þm. Karvel Pálmasyni til hróss að ganga í þau fótspor og mundi vilja vara hann alvarlega við að halda áfram á þeirri braut.