16.12.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

167. mál, iðnaður á Vestfjörðum

Flm. (Sigurgeir Bóasson):

Herra forseti. Á þskj. 208 hef ég leyft mér að flytja eftirfarandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir gerð áætlunar um eflingu iðnaðar og þjónustu á Vestfjörðum.“

Tilefni þessarar þáltill. er það álit mitt, að á Vestfjörðum sé óeðlilegt misvægi í uppbyggingu atvinnulífsins og þjónustu mjög ábótavant og þess vegna sé þörf á að gera nú átak til að efla iðnað og þjónustu á Vestfjörðum með það markmið fyrir augum að skapa þar traustari byggð í framtíðinni. Það markmið tel ég mjög æskilegt, bæði vegna Vestfirðinga og þjóðarinnar í heild. Með þessari till. fylgir grg., sem ég mun nú hlaupa yfir.

Tækniframfarir og hagvöxtur hafa leitt til mikilla breytinga á atvinnuháttum og búsetu hér á landi. Á sama tíma hefur orðið mesta fólksfjölgun í sögu þjóðarinnar, en tala íbúa hefur þrefaldast frá aldamótum.

Á Vestfjörðum hefur þróunin á margan hátt verið ólík þróuninni í öðrum landshlutum. Um aldamót bjuggu 12 500 manns á Vestfjörðum, en 1. des. 1979 var íbúatalan 10 363 og eru Vestfirðir eini landshlutinn þar sem íbúum hefur fækkað frá aldamótum. Frá aldamótum til ársins 1940 var íbúafjöldi á Vestfjörðum svo til óbreyttur, en upp úr því fór að gæta verulegrar fólksfækkunar allt til ársins 1972, en þá var íbúatalan lægst eða 9925. Frá þeim tíma hefur orðið nokkur fólksfjölgun og var íbúafjöldinn 10 363 1. des. 1979.

Ef við athugum þetta nánar, þá sést að á ýmsan hátt hafa Vestfirðir sérstöðu. Í fyrsta lagi hefur fækkun í sveitum orðið hlutfallslega meiri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum. Á árinu 1940 bjuggu 6396 Vestfirðingar í sveitum en 1. des. 1979 bjuggu aðeins um 2088 manns í sveitum á Vestfjörðum. Í öðru lagi hafa Vestfirðir sérstöðu að því leyti, að fjölgun í þéttbýll hefur orðið mun minni en í flestum öðrum landshlutum. Á árinu 1940 bjuggu 6547 í þéttbýli á Vestfjörðum samanborið við 82751. des. 1979 og er fjölgunin aðeins 6.2% á þessu tímabili. Á sama tíma hefur fólksfjöldi í þéttbýli á landinu öllu aukist um 140%. Í samanburði við aðra landshluta er fjölgun í þéttbýli á Vestfjörðum svipuðum og á Norðurtandi vestra, en í öllum öðrum landshlutum hefur fólksfjöldi í þéttbýll meira en tvöfaldast á þessu tímabili.

Með tilkomu skuttogaranna og mikillar uppbyggingar og endurbóta á fiskvinnslustöðum hefur íbúum þéttbýlisstaða á Vestfjörðum fjölgað nokkuð hin síðari ár, en þó mjög mismunandi eftir stöðum. Í Bolungarvík t.d. hefur orðið mikil fjölgun, íbúum þar hefur fjölgað um 18.6% frá árinu 1975 til ársins 1979. Á Ísafirði hefur orðið nokkur fólksfjölgun allra síðustu ár, en á flestum öðrum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum hefur íbúafjöldi nokkurn veginn staðið í stað. Almennt má segja að þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum hafi ekki tekið við því fólki sem vegna breyttra atvinnuhátta hefur flust úr sveitum og minni útvegsstöðum. Margar ástæður hafa valdið þessari þróun og er ein mikilvægasta ástæðan sú, að atvinnulíf á Vestfjörðum er einhæft og þjónustu á mörgum sviðum mjög ábótavant. Á töflu, sem fylgir þessari tillögu, er sýnd atvinnuskipting á Vestfjörðum og enn fremur skipting mannafla við iðnað.

Nýjustu upplýsingar um skiptingu mannafla á atvinnugreinar og landshluta eru frá árinu 1978. Samkv. þeim var mannafli á Vestfjörðum 5059 árið 1978. Heildarmannafli það ár var 100 912 og er hlutdeild Vestfjarða af heildarmannafla því um 5%. Ef atvinnuskipting á Vestfjörðum er athuguð nánar, þá kemur í ljós hve gífurlegt misvægi er í uppbyggingu atvinnulífsins. Vestfirðingar hafa mikla sérstöðu hvað varðar fiskveiðar og fiskvinnslu. En við þessar greinar störfuðu 40.1% mannaflans á Vestfjörðum á árinu 1978. Á landinu öllu störfuðu aðeins 13.7% heildarmannaflans við þessar greinar. Í samanburði við aðra landshluta starfa hlutfallslega flestir við fiskveiðar og fiskvinnslu á Vestfjörðum. Á hinn bóginn kemur hér einnig fram sérstaða Vestfjarða hvað varðar annan iðnað en fiskiðnað. Á árinu 1978 störfuðu aðeins 394 við annan iðnað á Vestfjörðum eða 7.8% mannaflans. Á landinu öllu störfuðu 17 638 við annan iðnað eða 17.5% heildarmannaflans. Í samanburði við aðra landshluta starfa hlutfallslega fæstir við annan iðnað á Vestfjörðum.

Eins og sjá má af töflu 2, var hlutdeild Vestfjarða miðað við mannafla aðeins 2.2% í öðrum iðnaði en fiskiðnaði á árinu 1978. Ef nánar er athugað hvernig mannaflinn við þennan iðnað skiptist á iðngreinaflokka sést hve hlutur framleiðsluiðnaður á Vestfjörðum er lítill.

Við matvæla- og drykkjarvöruiðnaði störfuðu 128 manns á árinu 1978. Á landinu öllu störfuðu 2 894 við þessar iðngreinar og er hlutdeild Vestfjarða miðað við mannafla 4.4% í matvæta- og drykkjarvöruiðnaði. Ef teknir eru saman allir aðrir iðngreinaflokkar framleiðsluiðnaðar, þ.e. vefjar-, fata- og skinnaiðnaður, trjávöruiðnaður, pappírsiðnaður, prentun og svo allur annar framleiðsluiðnaður, þá kemur í ljós að á Vestfjörðum störfuðu aðeins 85 manns við þessa iðngreinaflokka árið 1978. Á landinu öllu störfuðu hins vegar 8639 við þessar iðngreinar. Í heild er því hlutdeild Vestfjarða í þessum iðngreinaflokkum tæpt 1%, en eins og áður hefur komið fram var hlutdeild Vestfjarða um 5% af heildarmannafla á árinu 1978.

Hlutdeild Vestfjarða af heildarmannafla í verslun og viðskiptum var aðeins 2.7% á árinu 1978. Þetta segir sína sögu um stöðu verslunar á Vestfjörðum. Á árinu 1977 gerðu aðilar á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins könnun á verslun og þjónustu á Vestfjörðum. Niðurstaða þessarar könnunar varð m.a. sú, að verslunarþjónusta á Vestfjörðum væri víða mjög ófullnægjandi, vöruúrval mjög lítið, sérstaklega af ýmsum sérvörum, póstverslun við Reykjavík væri mikil og verslunarferðir til Reykjavíkur tíðar.

Vandi verslunar á Vestfjörðum er einkennandi fyrir dreifbýlisverslunina yfirleitt. Fjarlægð frá heildsölum veldur minni veltuhraða vörubirgða. Meiri vörubirgðir krefjast aukins rekstrarfjár, vaxtakostnaður verður meiri og stærra geymslurými nauðsynlegt. Við verslun með sérvörur verður þessi vandi sérstaklega mikill og veldur því, að margar verslanir treysta sér ekki til að hafa þær á boðstólum. Fleira má nefna, eins og kostnað við pantanaafgreiðslu og lánsviðskipti, en slíkan kostnað þurfa verslanir í þéttbýli ekki að bera.

Annar vandi smásöluverslunar á Vestfjörðum er uppbyggingarvandinn. Vegna lélegrar rekstrarafkomu hefur víða ekki tekist að skapa fjármagn til uppbyggingar, og stofnlán til byggingar verslunarhúsnæðis hafa ekki verið fyrir hendi nema að takmörkuðu leyti. Hér þarf Byggðasjóður að koma til, en til þessa hefur Byggðasjóður ekki lánað til byggingar verslunarhúsnæðis.

Herra forseti. Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið rakið, er ljóst að mikið misvægi er í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og verslunarþjónustu ábótavant. Flutningur þessarar þáltill. er viðleitni í þá átt að úr þessu verði bætt. Eðlilegt er að sú áætlun, sem till. gerir ráð fyrir, verði unnin af Framkvæmdastofnun ríkisins í samvinnu við sveitarstjórnir á Vestfjörðum og Fjórðungssamband Vestfirðinga. Í framhaldi af því er eðlilegt að stofnlánasjóðum auk Byggðasjóðs verði falið að veita lán til þeirra framkvæmda sem áætlunin felur í sér.

Eins og við þekkjum öll hefur á undanförnum árum verið mikil uppbygging í sjávarútvegi og fiskvinnslu víða um land. Hefur Byggðasjóður komið þar við sögu. Hér hefur verið stigið fyrsta skrefið í framkvæmd byggðastefnunnar, en aðeins fyrsta skrefið. Ef markmið byggðastefnunnar eiga að nást hlýtur Byggðasjóður nú að snúa sér að öðrum verkefnum til að skapa fjölbreyttara atvinnulíf á landsbyggðinni og að uppbyggingu verslana í dreifbýli.

Einhæfir atvinnuvegir stuðla að óstöðugleika í búsetu. Fólk, sem af einhverjum ástæðum getur ekki unnið við fiskveiðar og fiskvinnslu, á erfitt með að fá starf við sitt hæfi og verður oft að flytjast búferlum þangað sem atvinnutækifærin eru fjölbreyttari. Þá laðar einhæft atvinnulíf fólk ekki til búsetu, eins og reynslan sýnir ef athuguð er sú litla fólksfjölgun sem orðið hefur á flestum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum á undanförnum árum, þrátt fyrir mikla en einhæfa atvinnu.

Nálægð Vestfjarða við ein bestu fiskimið landsins og góð hafnarskilyrði valda því, að fiskveiðar og fiskvinnsla verða um ókomin ár aðalatvinnuvegir Vestfirðinga. Þá veldur fjarlægð Vestfjarða frá aðalmarkaðs- og orkuöflunarsvæði landsins því, að þar er ekki hagkvæmt að reka orkufrekan stóriðnað. Á hinn bóginn er það ljóst, að ákveðin fjölbreytni í atvinnulífi er nauðsynleg ef halda á uppi traustri byggð í landshluta eins og Vestfjörðum. Það er eitt meginmarkmiðið með þessari þáltill. að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi á Vestfjörðum.

Hitt skiptir ekki minna máli, ef halda á uppi traustri og vaxandi byggð úti um land, að verslunarþjónustan sé viðunandi. Málefni dreifbýlisverslana hafa mikið verið til umræðu á undanförnum árum, en í raun hefur lítið annað gerst. Nefndir hafa verið skipaðar og skýrslur samdar, en raunhæfar úrbætur ekki komist í framkvæmd. Það er því annað meginmarkmiðið með þessari þáltill., að úr þessu verði bætt hvað Vestfjörðum viðkemur, en hið sama á við um dreifbýlisverslanir víða um land.

Herra forseti. Við þessa grg. hef ég ekki miklu að bæta. Ég tel mig hafa lýst þeim forsendum sem liggja að baki þessari þáltill. Ég veit, að hv. alþm. vilja stuðla að traustri búsetu á landsbyggðinni, og vona því að þáltill. fái greiða leið gegnum þingið og komist til framkvæmda.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að till. verði vísað til hv. atvmn.