16.12.1980
Efri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

143. mál, Fiskimálasjóður

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Meðan lögin um Fiskimálasjóð eru í því formi sem þau eru nú virðist breytingin, sem hér er lögð til, ekki nema eðlileg með tilliti til verðlagsþróunar. Er reyndar spurning hvað hún endist lengi. Það gæti orðið mál að breyta aftur mjög fljótlega ef fer fram sem horfir.

Hitt er annað mál, að það er skoðun mín að ástæða sé til að hyggja að skipulagi þessa sjóðs og lögunum, sem um hann gilda, með tilliti til þess að færa það frekar í það horf, að sjóðurinn samsvari betur þeim þörfum sem fyrir hendi eru í sjávarútvegi núna.

Þessari ábendingu vildi ég koma á framfæri, og fyrirvari minn við samþykkt þessarar breytingar er bundinn því, að menn vindi sér í það að líta á skipulag og þar með lögin um þennan sjóð.