27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

29. mál, Grænlandssjóður

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. og vil óska þess, að það geti fengið fljóta og greiða afgreiðslu gegnum þingið.

Ég skildi ekki hvað fyrir hv. 8. landsk. þm. vakti þegar hann var að brýna fyrir okkur í þessu sambandi að við ættum að mæta Grænlendingum á jafnréttisgrundvelli, því ég sé nú raunar ekkert í þessu frv. sem stangast á við það.

Þar sem þessi hv. þm. er rauðsokka, þá má kannske minnast á það, að fyrir rúmum 100 árum var íslenskt skáld á ferðalagi í Danmörku, sem sagði við heimkomuna:

„Komir þú á Grænlands grund,

ef gjörir ferð svo langa,

þér mun ég kenna að þekkja sprund,

sem þar á buxum ganga.“

Ég held því að við höfum snemma lært það, að við getum ýmislegt lært af Grænlendingum. Ég hélt að þessi hv. þm. hefði kannske gert það öðrum fremur í þessum þingsal. Sem sagt, ég ítreka það, að ég óska eftir, að þetta frv. fái góða og skjóta afgreiðslu, og get ekki annað séð en það svari þeim tilgangi sem til er ætlast af flm., að stuðla að betri kynnum og samskiptum þessara tveggja þjóða um leið og undirstrikað er að þessi nánari samskipti yrðu báðum til hags, bæði á sviði menningar- og efnahagsmála.