17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

147. mál, almannatryggingar

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., á sér ákveðna forsögu, eins og hv. nm. þekkja. Á sínum tíma var lögfest að konur skyldu fá fæðingarorlof greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Minnast þeir, sem þá voru á Alþingi, vaskrar framgöngu Ragnhildar Helgadóttur, fyrrv. hv. þm., í þeim efnum.

Hér er tvímælalaust um spor í rétta átt að ræða, þótt ýmsum finnist frv. sem hér liggur fyrir, nokkuð flókið og verði kannske erfitt í framkvæmd á ýmsum sviðum, en það er önnur saga.

Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það þarf að skoða nánar það ákvæði til bráðabirgða sem hann gerði hér að umræðuefni. Ég hef fengið sama bréf og hann og aðrir nm. í heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar. Ég tek undir það með honum, að þetta þarf að skoða nánar.

En á því vildi ég fyrst og fremst vekja athygli hv. deildar í sambandi við þetta mál, að ef það verður lögfest fyrir áramót, sem allar horfur eru á þar sem hér er um að ræða mál sem allir hv. þm. styðja í meginatriðum, skortir að setja greiðslur vegna fæðingarorlofsins í lífeyristryggingaþátt fjárlaganna og enn fremur að gera ráð fyrir í fjárlögum þessum greiðslum frá atvinnurekendum, sem eru 2% af öllum launum í landinu. Það mun vera ívið hærri tala en er gert ráð fyrir að atvinnurekendur greiði í lífeyristryggingakerfið eða um 1.8 milljarðar, ef ég hef réttar upplýsingar, en þá skortir nærri sömu fjárhæð á móti úr ríkissjóði í útgjaldahlið fjárlaga. Þessu þarf að kippa í liðinn fyrir áramót, áður en fjárlög verða afgreidd, ef þetta frv. nær fram að ganga, sem ég vona og allir hv. þm. sem að þessu máli hafa vikið.