17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Í tilefni af þeim fsp., sem hér hafa verið fram bornar um þetta mál, sem þm. voru upplýstir um með bréfi frá rn. til þm. í gær á sama tíma og rn. gaf út fréttatilkynningu þar að lútandi, vil ég segja nokkur orð án þess að taka mjög langan tíma hér í hv. þd., því að hæstv. forseti hefur tjáð mér að þess sé óskað, að ekki sé farið hér út í mjög langar umr. Hefði þó verið full ástæða til að eyða nokkrum tíma í að rekja stöðu þessa máls og færa inn í þinggögnin þá fréttatilkynningu sem rn. gaf út í gær um þessi efni. En ég ætla ekki að ganga þannig á tíma þingsins að lesa hana upp í heild sinni.

Ég vil leyfa mér í upphafi að minna á nokkur meginatriði sem þar koma fram. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta í fyrsta lagi:

„Iðnrn. hefur frá því í júní s.l. unnið að athugun á verðlagningu á súráli til Íslenska álfélagsins hf. Niðurstaða þessara athugana er sú, að innflutningsverð á súráti til Íslands er miklu hærra en eðlilegt má telja miðað við útflutningsverð frá Ástralíu. Þegar borin eru saman sambærileg verð, fob-verð í báðum tilvikum, kemur í ljós að á tímabilinu janúar 1974 til júní 1980 hefur súrálsverð hækkað í hafi sem nemur að meðaltali um 54.1% eða samtals um 47.5 millj. Bandaríkjadollara á verðlagi hvers árs. Til samanburðar má geta þess, að heildargreiðslur ÍSALs fyrir raforku voru 31.5 millj. Bandaríkjadollara á sama tímabili.“

Og í öðru lagi segir í fréttatilkynningunni:

„Á fundi ríkisstjórnar Íslands hinn 9. des. s.l. voru framangreindar samanburðartölur úr opinberum hagskýrslum og innflutningsgögnum lagðar fram og kynntar. Askildi ríkisstj. sér allan rétt í þessu efni og samþ. jafnframt á þessum fundi sínum, að hið fyrsta yrðu teknar upp viðræður milli Alusuisse og hennar varðandi þetta mál og jafnframt til endurskoðunar á núverandi samningum milli íslenskra aðila og Alusuisse og að þær viðræður færu fram hérlendis. Er í því sambandi sérstaklega höfð í huga brýn endurskoðun á orkuverði.“

Ég vil þá víkja að þáttum, sem hv. 2. þm. Reykn. kom fram með í fsp. sínum og bæta kannske við nokkrum þáttum sem tengjast þessu máli.

Hv. fyrirspyrjandi vék að því, að ég hefði verið varfærinn í orðum í sambandi við efnislegt mat á þessu máli og ekki viljað kveða upp ákveðna dóma um niðurstöður þess í samtölum við fjölmiðla í gær. Ég sé ástæðu til að víkja að þessu nokkrum orðum og skýra fyrir hv. þm. af hverju ég stend þannig að máli.

Ástæðan er ekki sú, að ég telji þau gögn, sem fram eru lögð, ekki traust og að þær upplýsingar, sem þar eru fram reiddar, fái ekki staðist. Þvert á móti tel ég að þau séu vel grunduð. En það er ekki rétt að fullyrða um endanlegu efnisniðurstöðu málsins, kannske sérstaklega vegna þess að þeir samningar, sem gerðir voru á sínum tíma um álverið í Straumsvík, eru þannig úr garði gerðir að þeir tryggja ekki stöðu Íslands og Íslendinga sem vera skyldi. Þeir eru kannske dæmigerðir um það, hvernig fyrirtæki, sem byggir upp rekstur sinn með sama hætti og álverið í Straumsvík, kemur sér fyrir í litlu landi eins og Íslandi og býr þannig um hnútana að það er erfitt að koma við skýrum og skilmerkilegum vörnum þó að aðfinnsluvert athæfi sé á ferðinni. Það er einn þáttur þessa máls og ekki sá þýðingarminnsti.

Ég ætla ekki að fara að ræða um þennan samning sérstaklega að öðru leyti, það hefur verið gert svo oft og ítrekað. En varðandi það, sem hv. þm. vék að, hvaða skaðabætur væru hugsanlegar í þessu efni eða reikningslegar niðurstöður, þá er það rétt, sem fram kom í máli hans, að sú viðmiðun, sem vera á á hráefnisöflun til álversins í Straumsvík, á samkv. samningi að vera hagað eins og um væri að ræða viðskipti milli óháðra aðila. Nú er það svo, að á súráli er ekki neitt markaðsverð sem slíkt. Það er öðruvísi háttað um þessa afurð en álið sem úr súrálinu er unnið. Það er matsatriði og þarf gaumgæfilegrar athugunar við og þar þarf að kveðja til fleiri aðila en íslensk stjórnvöld til að finna út hvert teljist eðlilegt viðmiðunarverð á súráli í viðskiptum óháðra aðila. Það er ekki síst af þessum sökum sem ég staðhæfi ekki hvað úr þeirri athugun muni koma. En ég vil þó leiða nokkrar líkur að því, hvert verð á þessari afurð geti talist, og vil víkja hér að því nokkrum orðum.

Þa3 kemur fram í fréttatilkynningu ráðuneytisins í fyrsta lagi, eins og fram hefur komið, að við höfum borið saman fob-verð á útflutningi frá Ástralíu og innflutningsverð til Íslands. Þar kemur í ljós sá mikli munur, sem fram hefur verið dreginn, sem nálgast, ef reiknað er í íslenskum krónum á núgildi, um 30 milljarða kr. Það hefur ekki verið vefengt af Alusuisse eða talsmönnum ÍSALs hér, að þessar viðmiðanir séu réttar. Það eitt út af fyrir sig er merkileg niðurstaða og ætti að vera mönnum umhugsunarefni; að það hefur ekki verið vefengt. Þá er eðlilegt að spurt sé: Hvernig má það vera, að í viðskiptum landa í milli standist ekki opinberar upplýsingar um fob-verðmæti sem í öllum venjulegum viðskiptum eiga að vera sambærileg? Þar hefur Alusuisse reynt að bera fram tilteknar skýringar og um það mætti fara nokkrum orðum, en þær skýringar eru ekki vefenging á þeim talnagildum sem fram hafa verið reidd um þennan mikla mismun á fob-verði. Viðkomandi aðilar vilja hins vegar draga inn í þetta dæmi fjármagnskostnað, m.a. fjármagnskostnað sem þeir hafi orðið að leggja í til að standa undir fjárfestingu sinni í Ástralíu og þurfa að bera kostnað af, og vilja skýra þann mikla verðmismun, sem hér kemur fram, með þessum kostnaði.

Ég læt hv. alþm. um að dæma hvort það séu skilmerkilegir og eðlilegir viðskiptahættir að á slíku sé byggt, — tilkostnaði sem ekki er reikningsfærður í viðkomandi landi og ekki mun vera auðvelt að henda reiður á. En ofan í þau efni verður eflaust farið nánar og þau mál munu væntanlega liggja nánar fyrir síðar. Ég ætla ekki núna að fara að dæma sérstaklega um þær skýringar sem fram hafa verið bornar af talsmönnum Alusuisse, að svo miklu leyti sem fram hefur komið til þessa dags.

Ég vil þá víkja að súrálsverðinu sem slíku og hvaða ástæður við höfum til að halda að þar sé ekki um verð að ræða eins og vera ber milli óskyldra aðila.

Ég vil þá rekja það í upphafi, að sá samanburður, sem hér er gerður af hálfu ráðuneytisins, nær allt aftur til ársins 1972 eða frá þeim tíma sem súrálsverksmiðjan í Gove tók til starfa, en talnalega höfum við tekið inn í töfluefni tímabilið frá 1974. Á fyrstu árunum kemur ekki fram sá mismunur á fob-verðmæti sem byrjar fyrir alvöru á árinu 1974 og haldist hefur til þessa dag. Eitt út af fyrir sig er það athyglisvert.

Óskað var eftir því við alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki, Coopers & Lybrand í London, á árinu 1974 að yfir reikninga ársins 1973, reikningsárs ÍSALs, yrði farið fyrir það tímabil. Endurskoðunarskrifstofan komst að þeirri niðurstöðu, að þar væri ekki neitt sérstakt athugavert. Virtist stemma það hráefnisverð sem upp var gefið á þeim tíma.

Ári síðar eða á fyrri hluta ársins 1975 er farið fram á sams konar endurskoðun varðandi reikninga reikningsárs ÍSALs fyrir árið 1975 og þá er annað uppi á teningnum í sambandi við súrálsverð. Ég tel rétt að greina nokkuð frá því vegna þess að hv. fyrirspyrjandi vék hér að því máli sérstaklega og mun hafa komið að því með einhverjum hætti, ef ég hef skilið hann rétt, í sambandi við þessa könnun. Hann vitnaði ekki til gagna, sem voru lokagögn í þessu máli, í sambandi við mat á niðurstöðum ársins 1974, heldur hygg ég að hann hafi vitnað í skýrslu frá miðju sumri eða svo varðandi þetta.

Að beiðni íslenskra aðila, Viðræðunefndar um orkufrekan iðnað, sem hafði fengið það verkefni að fara ofan í þessi mál og undirbúa sérstaklega upptöku samninga við Alusuisse vegna ýmissa þátta, bæði skattgreiðslna og raforkuverðs, var óskað eftir nánari upplýsingum frá endurskoðunarskrifstofunni varðandi þetta tiltekna ár. Ég leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að vitna til þessarar skýrslu, sem dagsett er 3. okt. 1975, en verð að biðja forláts á því að ég les hér á ensku vegna þess að ég er ekki með íslenska þýðingu á þessu gagni fyrir framan mig og vil koma því hér á framfæri eins og það er orðað hjá þessu fyrirtæki. Er sú heimild veitt, herra forseti? Já. Þar stendur m.a.:

„Accordingly the report, that in our opinion, the calculation on net profit of ISAL for the year ended 31st December 1974 is not in accordance with the requirements of section 27.04 of the Master Agreement. Consequently we do not consider that the amount of the tax credit claim as submitted by Alusuisse is justified.“

Þetta segir m.a. í þessu gagni og ég vitna frekar í sömu skýrslu:

„We also point out that although we discussed a draft of our earlier report with representatives of ISAL and Alusuisse, we have not received any further comments or submissions which they may wish to make in relation to the final version of our report dated 29th August 1975. Subject to the foregoing, our tentative opinion is that, based on the information available to us, fair arm'slength prices for 1974 under the terms of section 27.04 of the Master Agreement would have been as follows: — 1974 US $ per tonne January to March 105, April to June 115, July to September 120, October to December 130“, þ.e. á bilinu frá 105 og upp í 130 Bandaríkjadollara á tonn á þessu tímabili. Og síðan víkja þeir að hvaða áhrif þessi breyting á viðmiðunarverðum hefði á hag fyrirtækisins á þessum tíma:

„Effect on amount payable for alumina. The substitution of the prices in paragraph 4 for those paid by ISAL would have the following effect on the amount payable for alumina“. Heildarupphæðin, sem þar ætti að koma sem „Totat reduction“ er 3 160 432 dollarar og því er bætt við: „It will be seen, that the prices payed by ISAL for alumina diverged to a greater extent in the last two quarters of the year from those which we consider to represent arm's-length prices.“

Þetta svarar til 343 millj. 802 þús. kr. á þessu tímabili, en þetta er hins vegar ekki það sem hefði komið út sem lækkun á skattinneign fyrirtækisins, heldur voru þetta brúttótölur inn í reikninga sem hér var vitnað til, en niðurstaða fyrirtækisins í sambandi við þetta var sú sem hér segir:

„Thus a reduction in the purchase price of alumina for 1974 totaling Icelandic kr. 343 802 632 would have the effect of increasing the profit for the year by Icelandic kr. 199 647 427 kr. while the remaining balance of Icelandic kr. 224 155 196 would reduce the value of the inventories in the balance sheet at 31st December 1974. Consequently although the amount of Icelandic kr. 224 155 196 would not affect the profits for the year ended 31st December 1974, the profitability of ISAL would be increased by that amount in 1975“.

Og heildaráhrifin á skattgreiðslu á þessu tímabili: „Increase in tax payable translated to US dollars at rate of Icelandic kr. 99.3002 to US dollars being the average rate of exchange for 1974“ — voru 549 849 dollarar 79 cent sem niðurstöðutala miðað við þessa úttekt þeirra og lækkun á inneign sem þessu næmi.

Þessar upphæðir lágu fyrir og voru til viðmiðunar og inni í umræðum um endurskoðun samninga á árinu 1975, sem leiddu til breytinga á fyrirkomulagi á skattgreiðslum í desember á því ári og einnig á raforkuverðinu á þeim tíma. Þannig liggur fyrir, að af hálfu þessa alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækis, sem hafði gefið viðkomandi aðilum möguleika á að koma við athugasemdum sem ekki komu fram, var þarna um að ræða veruleg frávik frá verði á súráli milli óskyldra aðila. Þessi atriði komu sem sagt inn í þær viðræður sem á eftir fylgdu.

Það er athyglisvert, að talsmenn fyrirtækisins og þar á meðal framkvæmdastjóri ÍSALs, hafa ítrekað í fjölmiðlum að undanförnu staðhæft annað, að það hafi ekki komið fram gagnrýni af hálfu opinberra aðila á reikningsfærslur félagsins þrátt fyrir endurskoðun. Ég bið hv. þm. um að taka eftir þessu, því að það stangast mjög greinilega á við það sem ég hef vitnað hér til.

Íslensk stjórnvöld hafa eflaust vænst þess, að fyrirtækið mundi breyta um viðskiptahætti eftir þessa endurskoðun og eftir að gerðir höfðu verið nýir samningar um fyrirkomulag á skattgreiðslum, og hafa ekki talið ástæðu til að tortryggja það sérstaklega að þarna væri farið fram yfir eðlilegar viðmiðanir, þó að menn geti haft misjafna skoðun á því að sýna fyrirtækinu þann trúnað.

Ég er ekki með þessum orðum að fullyrða hvað komi út úr endurskoðun þess tímabils sem síðan er liðið, en ég bendi á þær upplýsingar, sem fram hafa verið reiddar, og ég vil bæta þar við alveg sérstaklega að við höfum staðfestar upplýsingar um það frá Hagstofu Ástralíu, hvert sé meðalútflutningsverð á þessari afurð, súrálinu, frá Ástralíu á öllu þessu tímabili. Það er að finna í töflu 4, að ég hygg, í þeim gögnum sem fram voru lögð fyrir hv. þm. í gær. Hvað kemur út úr þeim samanburði? Jú, það kemur út úr honum að fob-verðið, sem upplýst er að verið hafi á útflutningi Alusuisse út úr Ástralíu, pendlar sitt hvorum megin við þetta meðalútflutningsverð. Það er á árunum 1974 fram á árið 1976 sem það liggur nokkuð yfir þessu meðalútflutningsverði, en síðan er það nokkru lægra. Þetta meðalútflutningsverð er sem sagt heildarverð frá þessum heimshluta í Ástralíu sem samkvæmt staðhæfingum, sem fram voru reiddar í dag, veitir ekki lítið af heildarsúráli í heimsviðskiptum. Ég taldi mig hafa þá tölu hér einhvers staðar nálæga, en það var staðhæft einmitt af framkvæmdastjóra álversins í Straumsvík. Ég vil ekki fara út af fyrir sig að leggja mat á heimildargildi þess, en ég heyrði það eftir honum haft í hádeginu að „frá Ástralíu sé fluttur út helmingur þess súráls sem er á vestrænum markaði“, svo orðrétt sé vitnað til orða framkvæmdastjórans í hádegisfréttum útvarpsins í dag.

Nú er það einnig svo, að súrálsverksmiðjan í Gove er að 70 prósenthlutum í eigu Alusuisse, en að 30% hlutum í eigu ástralsks fyrirtækis, Gove Australia Ltd., og við teljum okkur hafa um það upplýsingar, að það verð, sem greitt er til þessa fyrirtækis, til þessa óskylda aðila í Ástralíu fyrir það súrál sem flutt er til Íslands, sé mjög nálægt meðalútflutningsverði á súráll frá Ástralíu eins og það liggur fyrir í hagskýrslum.

Ég vil bæta því við til frekari stuðnings máli mínu og ábendinga af hálfu rn., að ástæða sé til að láta fara fram úttekt hjá hinu óháða alþjóðlega endurskoðunarfyrirtæki Coopers & Lybrand á því, hvað eðlilegt sé að telja viðmiðunarverð á súráti milli óskyldra aðila. Ég vil bæta því við, að ef lítið er til Noregs og innflutnings til Noregs á súráti á þessu tímabili frá Ástralíu hefur það legið á undanförnum 4–5 árum um 25% undir því sem verið hefur hingað til lands. Má þó ætla að viðskipti af því tagi, sem stundum eru kennd við fjölþjóðafyrirtæki, kunni að blandast inn í viðskiptin við Noreg. Ef lítið er til Japans, á cif-verðið til Japans frá Ástralíu, er munurinn á innflutningsverðinu hingað og innflutningsverðinu þar að meðaltali nálægt því 50% á árunum 1974–1977, að vísu minnkandi, en yfir 20% á árinu 1978, sem ég hef heimildir um.

Ég held ég láti þessar upplýsingar, sem ég hef hér fram borið varðandi súrálsverð, nægja sem svar varðandi þann þátt sérstaklega. En ég tel að þegar um er að ræða útflutning frá Ástralíu á þessari afurð sé það eðlilegt af hálfu okkar Íslendinga að líta svo til, að þegar lítið er til viðskipta milti óháðra aðila sé ekki síst litið til þess lands og verðs sem þaðan kemur og meðaltalsverðið tel ég að segi þar sína sögu. Ofan í þessi mál verður farið af hinu alþjóðlega endurskoðunarfyrirtæki og ég hef sparað mér að kveða upp dóma um niðurstöður af því fyrir fram.

Ég gat þess, að talsmenn Alusuisse hefðu ekki vefengt upplýsingarnar um samanburðinn á fob-verðunum, sem iðnrn. hefur lagt megináherslu á í framsetningu þessa máls. En í sambandi við skoðun hins alþjóðlega fyrirtækis á þessari vinnu hafa Coopers & Lybrand verið látnir fylgjast með þessari úttekt, rétt eins og ríkisendurskoðun hér heima sem hefur látið rn. í té frumgögn í sambandi við innflutning hingað allt þetta tímabil, farmbréf og reikninga sem eru útgefnir af Alusuisse. Þeir segja m.a. í niðurstöðum sínum — ég læt nægja að vitna aðeins í meginniðurstöðu sem kemur efnislega fram í fréttatilkynningu, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt athugun okkar á bráðabirgðaskýrslunni teljum við að heimildirnar, sem útreikningar aukningar súrálsverðs í sjóflutningi eru grundvallaðir á, eigi rétt á sér. Að tilskildum skekkjum, sem leiðrétta ber, sýnir athugun okkar á útreikningunum að tölurnar hafa verið rétt teknar upp úr gögnunum og tölfræðilegu upplýsingunum, sem vísað er til í bréfi þessu, og að útreikningarnir hafa verið gerðir á réttan hátt.“

En þeir eiga eftir að fara ofan í það fyrir rn. og leggja á það mat, rétt eins og þeir gerðu fyrir árið 1974, hvert þeir telji vera viðmiðunarverð á súráli milli óskyldra aðila.

Þessi endurskoðunarskrifstofa hefur lofað að hraða athugun sinni og mun væntanlega gera það, þannig að niðurstöður hennar liggi fyrir innan nokkurra vikna. Við höfum talið sjálfsagt og eðlilegt að skrifstofan hafi samband við Alusuisse í sambandi við þetta mál, hlusti á rök þeirra og rannsaki gögn, sem þeir vilja leggja fram í sambandi við þetta mál, og þannig verði þetta byggt á hlutlægu mati þessa aðila, sem er virt og þekkt endurskoðunarfyrirtæki.

Varðandi einn þáttinn, sem hv. fyrirspyrjandi vék að í máli sínu um kostnaðarverð súráls sem hlutfall af nettóverði áls, hef ég ekki hér fyrir framan mig tölulega útreikninga á því á undanförnum árum. Ég vil þó gefa vísbendingar um þetta atriði með því að vísa til þess, sem áætlað var þegar álsamningurinn var gerður 1967, hvað teldist vera eðlileg hlutdeild hráefnis frá Alusuisse í heildarumsetningu álversins í Straumsvík. Það var talið þá, þegar áætlanir voru gerðar um fyrirtækið, að það ætti að vera 38%, en á árinu 1975 kom í ljós að þetta hlutfall var ekki 38%, heldur orðið 57.7%. Á árinu 1978 var þetta hlutfall enn yfir 50%, eða 52.2%, og í fyrra 46.4%, eða langt yfir því sem áætlanir voru gerðar um á sínum tíma. En frekari upplýsingar um þessa þætti er sjálfsagt að afla.

Það kemur fram af hálfu rn. og ríkisstj., að nauðsynlegt sé að endurskoða samningana um álverið í Straumsvík alveg sérstaklega með tilliti til orkuverðs og leita eftir breytingum á þeim samningum sem gerðir hafa verið um þetta, þannig að við fáum leiðréttingu á orkuverði sem hefur farið langt út fyrir alla eðlilega viðmiðum við orkuverðsþróun í heiminum á undanförnum árum.

Það má rifja upp að gert var ráð fyrir að þetta hlutfall orku ætti að vera yfir 10% þegar áætlanir voru gerðar um fyrirtækið. En það var komið niður í 6.7% á árinu 1975 og hefur haldist þannig síðan, verið aðeins 6.7% af heildarrekstrarkostnaði fyrirtækisins á þessum tíma, bæði á árinu 1978 og 1979. En í áliðnaði í Noregi er orkuverð verulega hærra á þessu tímabili, þannig að miðað við árið 1978, þegar verðið hér á kwst. var 5.1 mills, (það er núna í 6.5 mills) var meðalverðið í áliðnaði í Noregi 8.42 mills á kwst., en ekki hið sama og reynt er að halda fram í umræðum um þessi mál hér nú. Ber þó að hafa í huga að það gegnir nokkuð öðru máli þegar viðkomandi iðnaður er í innlendri eigu, eins og meginhlutinn af áliðnaðinum í Noregi, og þjóðhagslegur arður af framleiðslunni verður eftir í landinu. Þegar hér er um að ræða erlenda aðila og erlent fyrirtæki, sem flytur út hagnað sinn að mestu leyti, er auðvitað þeim mun meiri ástæða til þess að orkan skili eðlilegu verði. Er auðvitað alveg sérstaklega knýjandi að það verði tekið upp með sanngirnisrökum okkar Íslendinga. Getum við þar vitnað til þeirrar umræðu og þróunar sem í gangi er erlendis um þessi efni. Nægir þar að nefna þá umræðu, sem nú er í gangi, og tillögur norsku ríkisstjórnarinnar um stefnu varðandi verðlagningu á orku þar sem norska ríkisstjórnin, ríkisstjórn norska Verkamannaflokksins, setur það fram í orkustefnu sinni í mars s.l. að eðlilegt sé að miða orkuverð við „Langtidsgrense“-kostnað, væntanlegt framleiðslukostnaðarverð orku í sambandi við nýja samninga um orkufrekan iðnað, en einnig ber að leita aðlögunar að sama marki varðandi eldri samninga. Því máli er ekki lokið þar í landi, en þess má geta, að Ný-Sjálendingar, sem um margt eru í svipuðum sporum og við Íslendingar, bæði með verulegt vatnsafl og jarðvarma, brutust út úr gömlum samningum um orkufrekan iðnað við erlend fyrirtæki á árinu 1977 og tókst að fá það hækkað með pólitískri samstöðu þarlendis, — ekki bara tvöfalda, heldur að fimmfalda orkuverðið í vissu tilvikum. Ég er ekki að leiða neinar getur að því, hverju ná má fram í sambandi við endurskoðun samninga um álverið í Straumsvík, en ég tel að niðurstaðan af því fari fyrst og fremst eftir því, hvaða samstaða tekst um það hér heima fyrir. Ég er mjög vongóður um að um það mál verði samstaða, bæði innan þings og utan, svo miklir hagsmunir eru hér í húfi fyrir okkur Íslendinga. Við þurfum að gæta þess í framtíðinni að tefla ekki á tvær hættur í þessum efnum og gæta þess hvað er að gerast í orkumálum umheimsins, hvaða breytingar eru að verða á viðmiðun orkuverðs.

Herra forseti. Ég hef vikið að fáum atriðum sem ástæða væri til að nefna í sambandi við þetta stóra mál. Hv. fyrirspyrjandi vék að því, að það væri slæmt ef upplýsingar iðnrn. stæðust ekki í meginatriðum. Ég er honum alveg sammála um það. En ástæða er til að vænta þess, að þær upplýsingar, sem við höfum gefið upp, séu á rökum reistar, og það hefur ekki komið fram vefenging á því, að á fob-verðinu, sem á að standast samkvæmt öllum eðlilegum viðskiptum, er stórfelldur munur. Gagnrýni á því hefur ekki fram komið. Sú staðhæfing hlýtur því að standast í meginatriðum. Síðan geta menn litið á þau gögn sem fram verða dregin til skýringar á því og hvernig meta beri þá víðskiptahætti sem þar liggja að baki.

Ég hef bent á einstaka efnisþætti máli þessu til stuðnings, bæði meðaltalsútflutningsverð frá Ástralíu, verð sem óskyldur aðili fær þar í hlut sinn í sambandi við útflutninginn til Íslands, og að innflutningsverðið á súráll til Noregs frá sama landi liggi verulega undir því sem gerist um verðið hingað til lands, sem hefur auðvitað veruleg áhrif á afkomu þessa fyrirtækis og þar með þær greiðslur sem því ber samningum samkvæmt að inna af hendi til íslenska ríkisins. Ég hef ekki verið að fara hér út í tölur í því sambandi, — ég tel það ekki nauðsynlegt á þessu stigi mála, það verður að koma í ljós, — en ég get upplýst það eitt í þessu efni, að ef miðað er við meðattalsútflutninginn frá Ástralíu á súráll á þessu tímabili væri hér um að ræða upphæðir sem eru eitthvað nálægt 8 milljónum dollara eða svo sem koma ættu í hlut okkar ef eitthvað slíkt reyndist uppi á teningnum. Um það vil ég ekki dæma, það verður annarra að líta á það mál. Reynt verður að hraða þeirri athugun og taka upp samninga, eins og um hefur verið rætt, við forráðamenn fyrirtækisins hið fyrsta um þetta mál og endurskoðun samninganna í heild, og ég vænti þess, að þar verði tekið á móti málflutningi og rökum okkar Íslendinga af sanngirni. Ég efast ekkert um að fyrirtækið sýni festu af sinni hálfu, en við hljótum að sýna festu þar á móti.