18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef ritað undir þetta nál. með fyrirvara. Í því felst í raun og sannleika að ég treysti mér ekki til að taka afstöðu gegn þessu frv. eins og það liggur nú fyrir, í þeirri mynd sem það er. Hins vegar verður að segja það eins og það er, að ég tel ekki heldur forsendur til að taka afstöðu með fyrstu þremur greinum þess. Í fyrstu þremur greinum frv. felst eftiráheimild handa ríkisstj. til viðbótarlántöku vegna ársins 1980 um nær 5 milljarða króna, eins og gengið var skráð 1. ágúst 1980. Hefur það þó nokkuð breyst síðan, svo þetta er auðvitað enn þá hærri tala.

Það orkar tvímælis almennt að vera með eftiráheimildir af þessu tagi, þótt auðvitað megi færa rök fyrir því, að það geti verið nauðsynlegt, sérstaklega í þeirri verðlagsþróun sem hér er, að gera undantekningar í einstökum tilvikum. Nú hefur stjórn verðlagsmála auðvitað ekki tekist svo vel að auðvelt hafi verið að standa við það sem áður var umrætt í þessum efnum. Hér er engu að síður um mjög verulegar fjárhæðir að ræða á heildina litið. Það má vel vera að brýna nauðsyn hafi borið til í einhverjum þeirra mála sem hér eru talin upp í 2. gr. frv., en það hefur stjórnarandstaðan auðvitað ekki aðstöðu til að prófa á svo skömmum tíma sem hér um ræðir og getur því tæpast tekið á því ábyrgð, enda hafa ekki verið lögð fram nein gögn sem sönnuðu að svo væri.

Á hinn bóginn eru í þessari upptalningu líka nýir liðir, sem ekki voru á lánsfjáráætlun fyrir þetta ár, 1980. Það að taka upp nýja liði með þessum hætti stangast auðvitað á við tilgang lánsfjárlaganna, og menn geta þá spurt: Til hvers eru slík lög sett ef ekki er eftir þeim farið? Ég get ekki fallist á að meiningin sé að fara þannig með lánsfjárlögin. Dæmi um þetta eru augljóslega í sambandi við framkvæmdir við Kröflu, þar sem bætt hefur verið við borholum, og kemur það fram í skýringum við 2. gr. frv. Í annan stað eru kaupin á vél Landhelgisgæslunnar að ýmsu leyti merkileg, því að lánsfjárheimildar til kaupanna var ekki aflað í lánsfjárlögum fyrir árið 1980. Og hvað sem líður skýringum hæstv. fjmrh. þar að lútandi í gær, sem reyndar voru kannske frekar ásökun á þingið fyrir málsmeðferð heldur en skýringar við málið, þá liggur þó ljóst fyrir af yfirlýsingu, sem hæstv. dómsmrh. gaf í sumar, hver er sannleikurinn í því máli. Hann lét í sumar hafa það eftir sér, að ástæðan fyrir því, að flugvélin hefði ekki verið á lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum fyrir árið 1980, hefði einfaldlega verið sú, að það hefði verið of þröngt á áætluninni, það hefði ekki verið pláss, þess vegna hefði hún ekki verið með og þess vegna yrði að leysa málið einhvern veginn öðruvísi, þ.e. eftir á með þeim hætti sem hér er gert.

Þetta eru tvö dæmi um þær tegundir fjárveitinga, sem ég tel að síst af öllu eigi að koma upp með þeim hætti, sem hér er gert, og stangast á við tilgang laganna. Nú er það auðvitað svo, að í þeirri skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1981 fyrir opinberar framkvæmdir, erlenda lánsfjáröflun og fjárfestingu, sem dreift hefur verið, vottar fyrir sams konar tilhneigingu á bls. 9, þar sem talað er um að umbreyta eða taka lán vegna afborgana af lánum, og látið að því liggja að þetta sé þá utan við hinar eiginlegu lántökur sem auðvitað er ekki. Þetta eru sams konar undanbragðavinnubrögð og koma fram í þeim greinum sem hér um ræðir og ég gerði sérstaklega að umtalsefni.

Af þessum sökum mun ég sitja hjá við afgreiðslu fyrstu þriggja greinanna. Ég hef ekki talið ástæðu til að mæla gegn þeim, en geri þessar athugasemdir. En að því er 4. gr. frv. varðar tel ég — vegna þeirra upplýsinga sem hæstv. fjmrh. hefur veitt um það hve hagkvæm þessi lántaka sé — sjálfsagt að veita heimild til þess, enda hafa nú verið gerðar í Nd. breytingar á greininni sem koma til móts við það sjónarmið, sem Alþfl. hefur borið fram um þetta efni, og ekki gert ráð fyrir ráðstöfun öðruvísi en í samræmi við lánsfjárlög fyrir árið 1980 og engri ráðstöfun þessa fjár fyrr en að lánsfjárlögum samþykktum. Ég tel að greinin í þessari mynd svari þeim kröfum, sem Alþfl. hefur gert um þetta efni, og er fylgjandi þeirri grein frv. svo og hinni fimmtu.