18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

171. mál, jöfnunargjald

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að skila séráliti um frv. til l. um jöfnunargjald. Í því felst að ég tel rétt að framlengja núverandi jöfnunargjald, sem er 3%, með tilliti til þess, að þetta jöfnunargjald er eingöngu á lagt til að vega upp á móti því óhagræði sem stafar af því, að söluskattur er á lagður á Íslandi, en virðisaukaskattur í samkeppnistöndunum. Á hinn bóginn tek ég eindregið afstöðu gegn því ákvæði til bráðabirgða sem allir aðrir flokkar hafa gengið í heilagt hjónaband um að mæla með í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Þetta ákvæði til bráðabirgða, sem meiri hl. nefndarinnar mælir með að bætist við frv., felur í sér óskorðaða, ótakmarkaða heimild handa ríkisstj. til viðbótarskattlagningar í hvaða formi sem er, hvaða formi sem ríkisstj. kýs, þar sem það ákvæði, sem hér um ræðir, tiltekur ekki einungis heimild til hækkunar á jöfnunargjaldi eða framtengingu aðstöðugjalds, heldur einnig álagningu svonefnds ígildis þess, eða eins og stendur hér: „Ríkisstj. er heimilt á árinu 1981 að leggja á til viðbótar“ — því jöfnunargjaldi upp á 3% sem ég nefndi áðan — „allt að 2% jöfnunar- og aðlögunargjald eða ígildi þess, enda renni tekjur af þessu viðbótargjaldi óskiptar til iðnþróunar.“ Með þessu móti hefur ríkisstj. sem sagt frjálsar hendur um hvaða form skattlagningar hún velur í þessu skyni.

Á sama hátt er Alþingi — ef það samþykkir þetta ákvæði — að afsala sér ráðstöfunarvaldi yfir því fé sem fengist með þessum hætti, úr því að ekki eru nein sérstök ákvæði þar að lútandi, heldur aðeins vísbending um að tekjurnar skuli renna til iðnþróunar, sem er allvítt og ónákvæmt hugtak er túlka má á ótal mismunandi vegu. Það er því augljóst, að ef þetta ákvæði yrði samþykkt afhenti Alþingi ríkisstj. bæði óútfyllt tékkahefti að því er útgreiðslurnar varðaði og óskrifaða reikningablokk til skattlagningar.

Í þeirri skattheimtustefnu, sem ríkisstj. rekur, er nægilegt svigrúm til fjárveitinga til iðnþróunarverkefna án þess að sérstök gjaldtaka komi til. Tilvísun í iðnþróun er þess vegna ekki rök fyrir álagningu þessa gjalds. Till. meiri hl. nefndarinnar verður því ekki heldur studd rökum um fjárþörf til iðnþróunar.

Ég gat þess, að þetta ákvæði væri að öllu leyti óhæft með tilliti til þess hvernig það er saman sett. En það verður að segjast um málið í heild, að það er ekki sérlega vel upplýst, og það kom glögglega fram á nefndarfundum að það stangast margt á í málflutningi embættismanna og sérfróðra aðila um þetta mál. Og stefnumörkun af hendi ríkisstjórnarflokkanna er alls ekki fyrir hendi, eins og sést náttúrlega glöggt á því, að í sömu andránni er talað um hækkun jöfnunargjalds og framlengingu aðlögunargjalds ellegar bara eitthvert ígildi annars hvors.

Augljóst er að gjaldtaka af þessu tagi, sem á að vera tímabundin að sagt er, er til þess fallin að afsaka og fresta nauðsynlegum og eðlilegum aðgerðum, sem eru grundvallar forsenda fyrir farsælli framvindu í iðnaði og skynsamlegri iðnþróun.

Það er reyndar athyglisvert, að sú 2% heimild, sem hér er talað um, er látin ná til ársins 1981. Hér er enn einu sinni um tímabundna ráðstöfun að ræða, sem menn tala um með sama hætti og áður, og gáfu þó ýmsir aðilar afdráttarlausar yfirlýsingar um það hér á Alþingi fyrir 18 mánuðum eða rúmlega það, að hið tímabundna aðlögunargjald skyldi niður fellt. Minnist ég í þessu sambandi sérstaklega orða Einars Ágústssonar núverandi sendiherra og fyrrv. hv. þm. En ég hef orðið var við það, ekki einungis á nefndarfundum, heldur líka af viðtölum við ýmsa aðra menn sem hafa unnið að því að þessi gjöld voru upp tekin á sínum tíma, að þar eru menn alls ekki á eitt sáttir. Og það mun vægt til orða tekið að segja að hvað rekist á annars horn í málflutningi manna.

Það, sem gera þarf er vitaskuld að bæta og jafna aðstöðu iðnaðarins miðað við aðrar atvinnugreinar hér á landi. Þetta á að gera með almennum aðgerðum, svo sem á sviði tollamála og lánamála. Það eru mýmörg dæmi um það, að aðföng til iðnaðarins eru tolllögð, hlutir sem notaðir eru til innlendrar iðnframleiðslu eru tollaðir, lögð á þá aðflutningsgjöld af ýmsu tagi, á sama tíma og fullunnin vara, sem þessir hlutir eru aðeins partur af, er undanþegin aðflutningsgjöldum. Þetta fyrirkomulag er vitaskuld gersamlega vonlaust og dregur úr iðnþróun á Íslandi.

Á sama hátt er vafalaust öllum alþm. kunnugt um það, að aðstaðan á lánamarkaði er mjög misjöfn. Sumar atvinnugreinar búa þar við langtum betri aðstöðu en iðnaðurinn. Og meðan þetta misrétti er ríkjandi t.d. í tollamálum og lánamálum eru allar skýrslur um iðnþróun til lítils, þá verður ekki raunveruleg iðnþróun hér á landi hversu þykkar skýrslur sem menn skrifa.

Af ýmsum öðrum orsökum ber brýna nauðsyn til að endurskoða tollskrár- og aðflutningsgjaldaákvæði, samræma þau og einfalda. Og ég staðhæfi að framlenging á gjaldi af þessu tagi tefji einungis fyrir því, að menn vindi sér í þau verkefni sem nauðsynleg eru í þessum efnum. Þetta er afsökun sem menn hafa komið sér upp, afsökun sem menn vilja sífellt framlengja, og það bitnar einungis á eðlilegri iðnþróun.

Nú hefur það komið fram, að forsvarsmenn iðnaðarins hafa talað að undanförnu fyrir því, að aðlögunargjald yrði framlengt, en allt er það þó undir því formerki, að yfirlýst er af hálfu iðnaðarins að hann kjósi langtum helst þá aðstöðujöfnun sem ég er nú að ræða og um var talað og lofað var í upphafi. Og það er augljóst að slíkar aðgerðir eru fyrir löngu tímabærar. Þannig er t.d. fyrsta atriðið á minnisblaði frá Félagi ísl. iðnrekenda, dagsettu 12. des., ábending um það, að félagið hafi hamrað allt þetta ár á nauðsyn þess, að skilyrði iðnaðar verði lagfærð áður en aðlögunargjaldið rennur út. Þarna er beinlínis gert ráð fyrir því, að aðlögunargjaldið renni út, hvað sem líður málflutningi nú seinustu dagana. Það er ekki fyrr en fyrirsjáanlegt er að ekki er ætlunin að breyta starfsskilyrðunum, sem Félag ísl. iðnrekenda fer að tala fyrir framlengingu aðlögunargjaldsins. Þeir óska fyrst og fremst eftir því, að þau skilyrði, sem ég geri hér að umtalsefni, hin almennu starfsskilyrði, sem m.a. felast í ástandinu í tollamálum og lánamálum, verði leiðrétt.

Á öðru minnisblaði, sem hefur borist frá þessum sömu samtökum, dagsettu 3. des., er talað um að nauðsynlegt sé að fella niður greiðslu allra aðflutningsgjalda (tolls, vörugjalds sölugjalds, jöfnunargjalds og aðlögunargjalds) af aðföngum (hráefni, rekstrarvörum, umbúðum, vélum, tækjum, hlutum til véla og tækjavarahlutum) þeirra iðnfyrirtækja sem eiga í beinni samkeppni við innfluttar vörur, sem sagt, að nauðsynlegt sé að fella niður greiðslur allra aðflutningsgjalda, þar með talið aðlögunargjald, af aðföngum til þeirra iðnfyrirtækja sem eiga í beinni samkeppni við innfluttar vörur, eða óbeinni samkeppni þegar fluttar eru inn vörur sem geta komið í stað þeirra sem hér eru framleiddar. Og það mun eiga við, að þar sem ekki er um beitta samkeppni að ræða sé um óbeina samkeppni að ræða, svo að þetta nær yfir æðivítt svið.

Þetta tel ég nauðsynlegt að komi hér fram. Félag ísl. iðnrekenda hefur á þessum minnisblöðum annars vegar gert ráð fyrir því, að aðlögunargjaldið rynni út, og hins vegar mælt með því, að það rynni út, en á sama tíma lagt áherslu á að það séu hin almennu skilyrði iðnaðarins sem þurfi að vera í lagi.

Ég legg þá til, herra forseti, án þess að fara frekar út í þessa sálma á þessu stigi, að till. um ákvæði til bráðabirgða verði felld, en frv. samþykkt að öðru leyti, enda er 3% jöfnunargjaldið til þess eins að vega upp á móti samkeppnisóhagræði af þeim söluskatti sem lagður er á hérlendis. Þetta minnir auðvitað á hinn bóginn á nauðsyn þess að afnema söluskatt og taka upp virðisaukaskatt í hans stað. En það eru engar forsendur fyrir þessu ákvæði til bráðabirgða. Það tefur einungis fyrir eðlilegri þróun. Allur málflutningur sérfræðinga og embættismanna, sem um þetta hafa fjallað, sannar að málið er illa upplýst. Þar rekst hvað á annars horn og þess vegna eru ekki forsendur fyrir þessu ákvæði til bráðabirgða, auk þess sem í því felst hrikalegt valdaafsal af hálfu Alþingis í hendur ríkisstj. Allt mælir þetta gegn því, að ákvæðið verði samþykkt.