28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

348. mál, dvalarkostnaður aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef fengið frá skrifstofu ríkisspítalanna í dag svar við fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar. Í fsp. er beðið um sundurliðun kostnaðar og að með verði teknir kostnaðarliðir sem verða til utan deildarinnar sjálfrar, þ.e. hjúkrunardeildar Landspítalans að Hátúni 10 B, bæði að því er varðar þá sjúklinga, sem eru í fullri vistun, og þá vistmenn sem um er að ræða í dagvistun.

Þær tölur sem ég hef sundurliðaðar í þessum etnum, eru fyrir árið 1979. Ég taldi að það væri skynsamlegra að taka heilt ár í þessu sambandi en að vera að taka þessa þætti út eins og þeir eru í augnablikinu, vegna þess að innan heils árs falla til allir þeir kostnaðarliðir sem nauðsynlegt er að taka tillit til í þessum efnum. Ég held að þessi upptalning eigi að gefa nægilega skýra mynd af þeim kostnaði sem þarna er um að ræða.

Það er fyrst öldrunarlækningadeild. Dvalardagar 1979 eru 23389. Kostnaður á því ári nam samtals 571 millj. 582 þús. kr. Sá kostnaður skiptist þannig:

Laun 366 millj. 521 þús. Pappír, bækur, tilföng o.fl. 526 þús. Fatnaður, hreinlætisvörur o.fl. 17 millj. 487 þús. Lyf og spítalavörur 12 millj. 842 þús. Orka til ljósa og hitun 8 millj. 405 þús. Ýmis áhöld 474 þús. Auglýsing, fjölritun o.fl. 312 þús. Ferðir, námskeið og þess háttar 1 millj 158 þús. Húsaleiga og leigugjöld 7 millj. 201 þús. Akstur 4 millj. 212 þús. Hreingerning, þvottur og fatahreinsun 23 millj. 511 þús. Viðhaldskostnaður 583 þús. Ýmis sérfræðiþjónusta 7 millj. 772 þús. Ýmislegt 203 þús. Gjaldfærður stofnkostnaður 2 millj. 547 þús. Samtals 453 millj. 754 þús. — Síðan kemur fæðiskostnaður 67 828 þús. Ýmsar tæknilegar og faglegar rekstrareiningar, eins og það er orðað í skýrslu frá skrifstofu ríkisspítalanna til mín, 50 millj. Samtals 571582 þús. við öldrunarlækningadeildina á 23389 dvalardaga, sem gerir kostnað á dvalardag upp á 24438 kr., og að viðbættum skrifstofukostnaði er kostnaðurinn á dvalardag á legudeildinni 25157.

Á dagdeildinni varð heildarkostnaður á þessu ári, 1979, 41303 þús. Dvalardagar voru 4710. Kostnaður á dvalardag þar var 8 769 kr., en að viðbættum skrifstofukostnaði varð kostnaður á dag 9483 kr. Þessi kostnaður skiptist þannig þessi 41 millj.:

Laun 11957 þús. Lyf og ýmsar spítalavörur 2 220 þús. Akstur og flutningsgjöld 2595 þús. Þvottur frá þvottahúsi ríkisspítalanna 260 þús. Ýmis áhöld 79 þús. Viðhaldskostnaður 6 þús. Fatnaður og hreinlætisvörur 259 þús. Fæðiskostnaður 13 659 þús. Orka 683 þús. Húsaleiga 585 þús. Og svo loks liðurinn „Ýmsar tæknilegar og faglegar rekstrareiningar“ 9 millj.

Auk þess, sem hér hefur komið fram, vil ég láta þess getið, að ég hef í dag látið dreifa til þm. riti heilbr.- og trmrn. nr. 2/1980, þar sem er um að ræða ítarlegan samanburð á öllum kostnaðarþáttum heilbrigðisstofnana í landinu. Á bls. 533–536 í þessu riti kemur mjög greinilega fram hver þessi kostnaður er á hverja kostnaðareiningu. Í þessu riti kemur glöggt fram í hverju mismunurinn liggur þarna á milli stofnana.

Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi gat um áðan, að umræður um fyrirkomulag kostnaðargreiðslna við heilbrigðisþjónustuna hafa verið allmiklar að undanförnu í framhaldi af nýafstöðnu heilbrigðisþingi. Þar hafa menn annars vegar rætt um hvort setja eigi allar stofnanir heilbrigðismálanna á svokallaða beina fjárveitingu, líkt og nú er gert og gert hefur verið um nokkurra ára skeið á ríkisspítölunum, eða hvort menn vilja hafa þarna daggjaldafyrirkomulag áfram.

Við höfum nú nýlega sett af stað sérstaka athugun á daggjaldastofnunum í landinu þar sem tekið verður út alveg nákvæmlega hvernig kostnaður fellur þar til eins og sakir standa. Á grundvelli þeirrar úttektar verða teknar ákvarðanir um hvernig heilbrigðisstofnanir verða fjármagnaðar í framtíðinni. Við teljum að möguleikar heilbr.- og trmrn. til að hafa eftirlit með daggjaldaspítölum í landinu séu allt of litlir eins og sakir standa og daggjaldanefnd sé í rauninni furðuveikt stjórnvald, miðað við þá miklu ábyrgð sem á henni hvílir, og þurfi að styrkja það talsvert, bæði til þess að geta nýtt þá fjármuni betur sem þarna fara í gegn, en líka til þess að geta tryggt betur en nú er að fagleg forusta heilbrigðisþjónustunnar sé í skaplegu horfi alls staðar á viðkomandi stofnunum. — Þegar þessi úttekt á daggjaldaspítölunum, sem nú á að fara í gang, liggur fyrir verða sem sagt teknar ákvarðanir um þetta.

Ég er þeirrar skoðunar, að reynslan af hinum beinu fjárframlögum til ríkisspítalanna sé út af fyrir sig allgóð. Ég held að daggjaldakerfið hafi ýmsa kosti, en stýringarmöguleikar heilbrigðisyfirvalda í daggjaldakerfinu eru ekki nægilega traustir miðað við þá gífurlegu fjármuni sem fara í gegnum þetta kerfi. Heilbrigðisþjónustan kostar á þessu ári á Íslandi um 104 milljarða króna. Þá er alveg augljóst mál að það verður að treysta miklu betur möguleika stjórnvalda til þess að fylgjast með þessum málum en nú hefur verið. Þarna er ég ekki að tala um að það verði teknir út af fyrir sig kverkataki forráðamenn þeirra stofnana heilbrigðisþjónustunnar sem hér um ræðir, heldur verði reynt að stuðla að sem bestu samstarfi og samvinnu þeirra við heilbrrn., þannig að bæði fjárhagslegt aðhald sé í lagi og faglegt aðhald líka.

Í umræðunum, sem fram hafa farið í framhaldi af heilbrigðisþingi um fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, hefur talsvert verið rætt um hvort kerfið sé betra: daggjaldakerfið eða kerfi beinna fjárframlaga. Ég held í sjálfu sér að málið liggi ekki þannig fyrir að menn geti tekið endilega annað kerfið og kastað hinu og það eigi að vera einhverjar trúarsetningar í gildi í þeim efnum. Við þurfum aðallega að koma á þarna fyrirkomulagi sem tryggi aðhald í fjármálum og faglegu eftirliti, en við eigum ekki að bíta okkur fasta í einhver kerfi, eins og mér hefur fundist að menn hafi gert dálítið í þeim annars mjög góðu umræðum sem hafa farið fram um þessi mál nú eftir að heilbrigðisþingi lauk.

Ég vil svo biðja hv. þm. afsökunar á því að ég sleppti tiltekinni stofnun þegar ég var að telja upp það sem í undirbúningi væri. En það, sem ég var að tala um, voru stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga fyrst og fremst.

Það er þannig núna, að í byggingu eru í landinu sjúkrastofnanir og hjúkrunarheimili sem geta tekið við 570 sjúklingum í rúm. Í Reykjavík eru rúm á sjúkrastofnunum núna um 1100, ef ég man rétt. Reksturskostnaður á ári hverju við þessar stofnanir, sem nú eru í byggingu, yrði miðað við þau daggjöld sem nú eru greidd u.þ.b. 20 milljarðar kr. á ári, þ.e. 20% hækkun á þeim útgjöldum sem nú eru til heilbrigðismála í landinu. — Á þessu ári verjum við 8% af okkar þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála eða hærra hlutfalli en nokkru sinni fyrr. Mér finnst að stjórnvöldum sé skylt, standandi frammi fyrir svona miklum útgjaldatölum, að staldra við og reyna að átta sig á því, með hvaða hætti þessu fjárstreymi verður best fyrir komið.

Ég tel að horfur séu þannig núna, að þegar þessar stofnanir eru komnar í gagnið, sem ég nefndi, með 570 rúmum verði í öllum meginatriðum séð fyrir sjúkrarúmaþörf í landinu, nema fyrir ákveðnar sérgreinar læknisfræðinnar í vissum tilvikum og eins að því er varðar stofnanir aldraðra. Þar er um að ræða talsverð vandamál, einkum og sér í lagi nú, en þau lagast verulega ef við getum flýtt byggingu þeirra stofnana sem nú eru að hefjast framkvæmdir við. Þar minni ég t.d. á B-álmu Borgarspítalans.

En frammi fyrir þessum stórum kostnaðartölum stöndum við. Þessi samanburður, sem hv. þm. er hér að fara fram á á kostnaði Hátúns-deildarinnar, segir okkur margt um Hátúns-deildina, en hann segir okkur ekki að það kerfi sé út af fyrir sig óalandi og óferjandi eða miklu betra en einhver önnur kerfi. Það gefur okkur tilteknar upplýsingar til að miða við þegar við tökum ákvarðanir um hvernig best verður varið hinum miklu fjármunum heilbrigðisþjónustunnar á næstu árum.