28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

349. mál, fuglaveiðar útlendinga hér á landi

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. dómsmrh. við fsp. minni svo langt sem þau náðu. Ég staðhæfi það, og þó það sé ekki í verkahring mínum sem alþm. býðst ég til að nefna að því votta, að miklu meiri fjöldi útlendinga, þ. á m. útlendinga sem koma gagngert til landsins til að stunda hér skotveiðar að haustinu, heldur en 6 hafa verið hér við veiðar á þessum tíma, að þeir hafa flutt inn í landið og haft með sér byssur kalíber 10, sem þykir ekki við hæfi að nota við fuglaveiðar hér á landi eða í siðuðum veiðimannasamfélögum, og þeir hafa haft með sér sjálfhlæðar byssur. Þær hafa verið afgreiddar í gegnum tollinn hérna, sjálfsagt með þeirri aðferð, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að skrifuð hafa verið númer á þessum skotvopnum og kannske tekin trúanleg hlaupvídd sem upp hefur verið gefin.

Ég ítreka aðeins þetta atriði, sem ég hefði kannske mátt segja ljósari orðum strax í upphafi, en vil nú kveða þannig að að meining mín fari ekki á milli mála, að íslenskir ríkisborgarar, að því er virðist með aðstoð embættismanna með e.t.v. hæpnum reglugerðum sem eru til þess sniðnar að hægt sé að ganga fram hjá íslenskum lögum berlega, iðka það sér til atvinnubóta, — kannske bestu menn, — að leyfa þessum aðilum eða greiða fyrir þeim að stunda fuglaveiðar á landi hér. Með því móti er gengið á almannarétt á Íslandi rétt einu sinni af hálfu manna sem vilja nota hlunnindi landsins sér til tekjuauka.

Ég ítreka, að ég er reiðubúinn að skrifa formlega kæru ef þarf varðandi þetta mál, krefjast lögreglurannsóknar á því og tilnefna vitni að því, hversu hér hefur verið að unnið. En að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðh. fyrir svör hans, sem ég veit að eru gefin eftir bestu vitund, enda þótt þessi iðja hafi fyrst of fremst verið stunduð í kjördæmi hæstv. ráðh.