19.12.1980
Efri deild: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

176. mál, vörugjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil nú ekki lengja þessar umræður með því að standa í orðaskaki um fjárlög. En ég get auðvitað ekki látið ómótmælt þessum yfirlýsingum hv. þm. um að verið sé að hækka skattana um svo og svo mikið umfram verðlag, eins og kom fram hjá honum áðan, vegna þess að það er alls ekki réttilega tilgreint. Ég vil t.d. taka það fram í sambandi við þann skatt sem hér um ræðir, að vissulega hækkar hann miðað við verðlag frá því á seinasta ári. En við erum í raun og veru ekki að gera neitt annað með þessar breytingu en að færa skattinn til horfs og viðmiðunar við breytingar á verðlagi sem átt hafa sér stað á við skulum segja seinasta hálfa áratug eða liðlega það. Þessi skattur var miklu hærri fyrir tiltölulega fáum árum, og var jafnhár fyrir nokkrum árum, en hefur rýrnað mjög ört í verðbólguþróun seinustu ára. Þetta hefur verið svona, að við höfum tekið stalla í breytingum á þessum skatti, tekið okkur til öðru hverju og leiðrétt hann í samræmi við verðlag, og það er það sem við erum að gera núna.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm., að tekjuáætlun fjárlaganna hækkar núna. Ég veit eiginlega ekki heldur hvaða þingmaður það er, sem ekki átti von á því að tekjuhlið fjárlagafrv. hækkaði, eins og hún hefur gert öll undanfarin ár við 3. umr, fjárlaga. En það þarf ekki að vera að þar sé bara um að ræða hækkun umfram verðlag. Þar er fyrst og fremst um að ræða hækkanir miðað við breyttar aðstæður og miðað við nýjar upplýsingar um skattheimtu o.s.frv. En það ræðum við allt betur við umræðu um fjárlagafrv. Það er alveg rétt að tekjuskattur og eignarskattur og sjúkratryggingagjald hafa samanlagt verið hækkuð um 6 milljarða. En það er langt frá því að hægt sé að skrifa það á reikning hækkunar umfram verðlag. Það er fjarri öllu lagi. En um það er rétt að ræða á síðara stigi.

Ég hef líka heyrt fullyrðingar manna um að launakostnaður hækki einhver reiðinnar býsn við álagningu samkv. þessu frv. Ég hald að ekkí sé heldur tími til að fara ofan í þá hlið málsins nákvæmlega. En ég get upplýst menn um það, að hækkun á eggjum, sem varð í nóvember, óvænt hækkun á eggjum á haustmánuðum, veldur líklega um 50% meiri launahækkunum í landinu en þessi hækkun, einfaldlega vegna þess að hún kom inn í vísitölu og hafði þar sín áhrif. Svo geta menn auðvitað reiknað það í milljörðum, hvaða áhrif þetta hefur. En þetta gildir nánast um alla skapaða hluti, að þeir eru auðvitað að meira að minna leyti inni í vísitölu, og allar hreyfingar á vísitölu, t.d. í þessu tilviki 0.24% — (Gripið fram i: 26.) Jæja, ég hélt að það væri 0.24%. Það eru 0.18 plús 0.6, 0.6 af sælgætinu og 0.18. Nú erum við búin að lækka sælgætið svo að það er sennilega aðeins minna. En allar hreyfingar af þessu tagi hækka auðvitað alla launasummuna í landinu í jöfnum takti, og það á ekki að koma mönnum neitt á óvart í þessu sambandi frekar en öðru.

Hv. þm. var hér með alveg nýjar upplýsingar fyrir mig um það, að gosdrykkir yrðu svo gríðarlega þungir í væntanlegum vísitölugrundvelli að þessi summa upp á 3.5 milljarða hyrfi eins og dögg fyrir sólu þegar nýi vísitölugrundvöllurinn væri kominn. Vel getur verið að þetta sé alveg rétt, ég hef bara ekki frétt af þessu fyrr. Það má vel vera að viskí og sódavatn sé orðið þyngsti vísitöluliðurinn eftir nýlega neyslukönnun. Ég þekki það ekki, en þó þykir mér það heldur ótrúlegt. (Gripið fram í: Þetta ætti nú ráðh. helst að vita.)