28.10.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

337. mál, málefni Flugleiða

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það líður brátt, hygg ég, að lokum þessarar umr. um skýrslu mína, þótt ég heyri að nokkrir þm. vilja enn tala. Ég ætla ekki að blanda mér í hnútuköst á milli þm. og ekki í þær deilur sem hafa orðið um mat á eignum félagsins og fleira þess háttar, þótt allt sé það vissulega þáttur í umr. um þetta mál. Ég ætla að reyna að svara efnislega því sem hefur fram komið.

Ég vil í fyrsta lagi taka undir það, sem mér heyrðist hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segja, að ræða hv. þm. Árna Gunnarssonar var að mörgu leyti hin ágætasta. En jafnframt verð ég að taka undir það, að leitt er að í þeirri ræðu komu fram ýmis atriði sem ég verð að gera aths. við.

Ég vil í fyrsta lagi taka undir það með hv. þm., að þetta mál verður að leysa. Það er kjarni málsins. Það verður að leysa. En það kunna að vera fleiri en ein lausn á svona máli. Ég hef hins vegar komist að þeirri niðurstöðu, eins og nú er ástatt með allt það þjálfaða lið sem Flugleiðir hafa, með alla þá aðstöðu sem Flugleiðir hafa með flugvélar o.s.frv., sem ég þarf ekki að telja hér upp, að skynsamlegast sé að leysa þetta mál innan Flugleiða og með Flugleiðum. Að því hefur allt mitt starf beinst. Þetta geri ég alls ekki af umhyggju fyrir Flugleiðum sem slíkum. Ég geri það eingöngu af umhyggju fyrir samgöngum okkar við nágrannalöndin. Það er aðalatriði málsins. Flugleiðir eru ekkert heilagt nafn í mínum huga, þótt ég meti mikils það gífurlega brautryðjendastarf sem menn hafa þar unnið, ekki síst á fyrri árum. Það er rétt hjá hv. þm. að ég set nokkurt jöfnunarmerki þar á milli. Þó efast ég um að jöfnuður náist. Ég held að við getum aldrei sagt annað en að hann verði nokkurn veginn. Aðalatriðið er þess vegna að tryggja landinu samgöngur. Að mínu mati verður það best gert innan Flugleiða, ef það er ekki orðið of seint. Ég kem að því nánar síðar.

Hv. þm. deildi nokkuð á samgrn. og samgrh. fyrir að hafa ekki afgreitt mál Arnarflugs. Ég hef þegar svarað þessu. Það liggur engin umsókn fyrir frá Arnarflugi. Hv. þm. sagði að það væri fyrirliggjandi umsókn frá Arnarflugi um flug til Amsterdam. (ÁG: Má ég grípa fram í? Það er svo samkv. upplýsingum forráðamanna Arnarflugs.) Farið hefur verið gegnum skjöl rn. Umsókn kom frá Arnarflugi haustið 1976. Hún var tekin fyrir í flugráði í jan. 1977. Þá fékk sú umsókn eitt atkv. og það var mitt. Allir aðrir voru á móti. Málið var síðan tekið fyrir í samgrn. á fundi, og það er til fundargerð frá þeim fundi þar sem talsmenn Arnarflugs mæta. Þeim er tjáð hver niðurstaðan hafi orðið. Þeir sögðust ekki þurfa frekari staðfestingar á þessari niðurstöðu. Því fór ekkert bréf til Arnarflugs. En þetta var staðfest á fundi þar sem þeir mættu í samgrn. Um þetta geta borið stafsmenn samgrn. sem þá voru, og um þetta geta skjöl samgrn. borið. Því kemur ákaflega spánskt fyrir sjónir að hér er fullyrt hvað eftir annað að fyrir liggi umsókn. Ég kannast ekki við það. Arnarflug hefur síðan komist undir verndarvæng Flugleiða, ef ég má orða það svo, og það er kannske ekki eðlilegt að fyrirtækið hafi síðan endurnýjað umsókn sína um Amsterdamflugið. Ég leiðrétti þetta og ég vil bjóða hv. þm. að fara í gegnum skjöl rn. til að fá þetta staðfest ef hann óskar.

Hv. þm. taldi að mikill dráttur hefði orðið á afgreiðslu. Ég veit ekki hvað hv. þm. hefði verið fljótur til að samþykkja 12 millj. dollara ríkisábyrgð. Ég verð að viðurkenna að ég tel mig ekki hafa heimild til slíks án samþykkis Alþingis. Ég er hræddur um að einhverjir hefðu fundið að slíkri málsmeðferð.

Bréfleg beiðni berst til rn. 15. sept.

Bréfið er birt með þeirri skýrslu sem ég hef látið gera. Í lok þess bréfs frá 15. sept. segir:

„Til tryggingar á þessari aðstoð koma veðsetningar í eignum Flugleiða hf. eftir nánara samkomulagi við stjórnvöld.“

Ekkert er í þessu bréfi á bls. 20 sem gefur til kynna að þörfin sé fyrr en 1. nóv. Það er sú fyrsta dagsetning sem er nefnd.

Ég vil hins vegar láta það koma fram, að forráðamenn Flugleiða hafa síðar sagt við mig að langtímalánið sérstaklega sé orðið ákaflega brýnt. Þess vegna ræddi ég við bankastjóra Landsbankans til að afla mér upplýsinga um hvort einhver bráðabirgðafyrirgreiðsla kæmi til greina. Það var satt að segja mjög vafasamt, að slíkt væri í mínum verkahring, en ég taldi þó rétt að kanna það mál. Bankastjóri, að höfðu samráði við bankastjórn, sagði mér að slík aðstoð kæmi til greina ef ljóst væri að ríkisstj. ætlaði að leita eftir ríkisábyrgð. Ég hef því litið svo á að þetta væri ljóst eftir að frv. kom fram og eigi ekki að standa á Landsbankanum að veita einhverja aðstoð, ekki síst eftir að hv. þm., t.d. málsvari Sjálfstfl. í þessum umr., hefur lýst yfir að hann ætli að fylgja þessari aðstoð og sama skilst mér einnig á hv. Alþfl.- mönnum. Þannig held ég að bankanum hljóti að vera ljóst að slík heimild verður veitt.

Ég verð að endurtaka það, að ég fæ ekki séð hvernig hefði mátt hraða þessari aðstoð meira en gert er. Strax eftir að umrætt bréf barst var það tekið fyrir í ríkisstj. og líka eftir að ég kom frá Lúxemborg. Þá var þegar ákveðið að láta fara fram mat á eignum Flugleiða. Vilja menn áfellast ríkisstj. fyrir það? Ég ræddi það mál einnig við viðskiptabanka fyrirtækisins, sem upplýsti að hann teldi slíkt nauðsynlegt, hann teldi mjög erfitt að veita frekari fyrirgreiðslu áður en slíkt mat færi fram. Átti ríkisstj. án heimildar Alþ. að veita slíka ríkisábyrgð áður en mat fer fram?

Ég get hins vegar ekki að því gert, að ég hlýt að lýsa nokkurri undrun yfir því, að slíkt bréf skuli ekki koma fram fyrr en 15. sept., tveimur dögum áður en ég fer til Lúxemborgar eftir marga fundi með forustumönnum Flugleiða. Var forustumönnum Flugleiða ekki ljóst að ástandið væri svona ljótt? Ég efast ekki um að þeim hefur verið það ljóst. Slíkt mál sem þetta þarf vitanlega töluverða umfjöllun. Ég held að það hljóti að vera öllum mönnum ljóst.

Einlæg von mín er sú, að Landsbankinn sjái sér fært að veita bráðabirgðafyrirgreiðslu þannig að þetta mál geti fengið þinglega meðferð og þá vonandi orðið til þess að gera flugfélaginu kleift að halda áfram sinni nauðsynlegu starfsemi.

Þá segir hv. þm.ríkisstj. hafi beðið um að ekki yrði hætt við Norður-Atlantshafsflugið. Þetta er alrangt. Ég gæti að vísu farið nokkuð langt aftur í tímann, t.d. staldrað við í tíð ríkisstj. hv. þm. Benedikts Gröndals. Þá hygg ég að fundur hafi verið í desember þar sem fram kom beiðni frá forráðamönnum Flugleiða um aðstoð til að halda fluginu áfram. Ég ætla hins vegar að láta nægja að fara aftur til fundar sem var haldinn 21. mars með forsrh. og mér. Þar segir í fundargerð, sem er að vísu — ég vil taka fram — ekki staðfest, en var send öllum og engin aths. komin við hana, með leyfi forseta:

„Varðandi flugið á Norður-Atlantshafinu sagði Örn [þ.e. stjórnarformaður] að þar ætti félagið í verulegum erfiðleikum. Starfsemin þar hefði verið rekin með verulegu tapi s.l. tvö ár“ — og svo bið ég þm. að taka eftir „sem félaginu hefði tekist að brúa að mestu leyti.

En þótt búist væri við betra ástandi í framtíðinni, þá sýndu afkomuspár félagsins og mikið tap í ár og hið næsta ár að félagið gæti ekki meira. Þar sem mikilvægir hagsmunir væru í húfi fyrir atvinnu- og efnahagslíf Íslands og Lúxemborgar vænti félagið aðstoðar úr þeirri átt.“

Þarna er beinlínis farið fram á að íslensk stjórnvöld veiti aðstoð til að halda megi áfram Atlantshafsfluginu. Þetta varð að sjálfsögðu til þess, að ríkisstj. tók málið fyrir eftir beiðni Flugleiða, sem kemur t.d. fram í þessari fundargerð frá 21. mars, og það varð til þess að ég fór til Lúxemborgar.

Eftir allt það, sem á milli fór og ég hef áður rakið og lá fyrir í samþykkt ríkisstj. um aðstoð frá 16. sept., sem var svo endanlega samþykkt, er Flugleiðum skrifað bréf sem birtist í skýrslunni. Með leyfi forseta vil ég lesa það:

„Með vísun til fyrri funda forráðamanna félagsins um erfiðleika og breytt rekstrarviðhorf í Atlantshafsflugi þess, sendir rn. hér með myndrit af ályktun ríkisstj. frá 16. þ. m. svo og staðfestri fundargerð frá viðræðum íslenskra og lúxemborgískra stjórnvalda 17. og 18. þ. m.

Í skjölum þessum og bréfi samgrn. í Lúxemborg, dags. 27. júní s.l., til stjórnar félagsins, kemur fram sú aðstoð sem stjórnvöld landanna telja sig geta boðið félaginu til stuðnings, komi til áframhald á flugi þess milli Lúxemborgar, Íslands og Bandaríkjanna, svo nefnds Atlantshafsflugs.

Með hliðsjón af ofanrituðu er óskað svars frá félaginu við því, hvort félagið muni endurskoða nýlegar ákvarðanir sínar og halda áfram flugi á milli Lúxemborgar og Bandaríkjanna.“

Félagið er ekki beðið um framhald Atlantshafsflugs. Þessi aðstoð er nokkurn veginn nákvæmlega jafnmikil og endurskoðuð áætlun flugfélagsins gefur til kynna að tapið muni verða, þ.e. 3. millj. dollara frá Lúxemborgarstjórnvöldum, 3 millj. frá íslenskum og 1 millj. dollara u.þ.b. í viðbót sem hlutafé. Svar berst 1. okt. Þar segja Flugleiðir:

„Með hliðsjón af þeirri aðstoð, sem boðin hefur verið af ríkisstj. Íslands og Lúxemborgar, mun stjórnin mæla með því við hluthafafund, sem haldinn verður í félaginu 8. okt. n.k., að áframhald verði á Norður-Atlantshafsflugi í félagsins“.

Ég verð að viðurkenna að ég fæ ekki annað séð en um atgjörlega eðlileg samskipti sé að ræða. Hitt skal ég fúslega viðurkenna, að það hafði áhrif á mig til að beita mér fyrir þessari aðstoð, sem mætir fullkomlega því rekstrartapi sem félagið áætlaði síðast. Ég viðurkenni einnig að margir fundir með starfsliði Flugleiða, m.a. flugmönnum og fjölmörgum öðrum, bjartsýni þeirra á að unnt væri að halda þessu flugi áfram í breyttu formi, blönduðu vöruflutninga- og farþegaflugi o.s.frv., hafði allt áhrif á mig svo að ég taldi rétt að beita mér fyrir því, að umrædd aðstoð yrði boðin. En hún er bara boðin. Það er að sjálfsögðu félagsins að ákveða framhaldið.

Hv. þm. segir að það væri ábyrgðarlaust að halda Norður-Atlantshafsfluginu áfram. Ég er ekki nægilega fróður um þetta mál, þótt ég sé búinn að sitja yfir því síðan ég kom í rn., til að meta það eins ákveðið og hv. þm. Ég get það ekki. Ég hef heyrt bæði sjónarmiðin og bæði frá fróðum mönnum. Ég hef heyrt þau sjónarmið, og það réð upphaflegri till. minni um þriggja ára reynslutíma, að það tæki lengri tíma að ná þessu flugi upp vegna, eins og sumir segja, mjög alvarlegra mistaka sem orðið hafi í þessu sambandi á undanförnum árum þar sem glatast hafa mikil viðskiptaverðmæti, t.d. í fragtflugi o.fl., vegna þess að ekki hefur verið tekið upp svokallað „blandað flug“. En ég hef ekki treyst mér til að meta það. Það verður að sjálfsögðu stjórn félagsins að meta.

Ég vil jafnframt geta þess, að á sérstökum fundi með forráðamönnum félagsins spurði ég að því, hvort félagið gæti hugsað sér að þessu flugi yrði haldið áfram af sérstöku félagi, en ekki Flugleiðum, t.d. af starfsmönnum þeirra, þá að sjálfsögðu með leigusamningi um vélar og þess háttar. Forráðamenn félagsins lögðust gegn því og töldu stórum hyggilegra að gera það innan félagsins. Ég féllst á það og féll frá þeirri hugmynd að beita mér fyrir stofnun nýs flugfélags, sem ýmsir, flugmenn og aðrir sem þetta flug stunda, hafa tjáð sig mjög hlynnta.

Ég vil því vísa því algjörlega á bug, sem hér virðist vera reynt að draga upp, að því er mér skilst af stuðningsmönnum Flugleiða, að þetta Norður-Atlantshafsflug sé á ábyrgð íslensku ríkisstj. Norður-Atlantshafsfluginu hefði aldrei verið hætt fyrr en nú í haust. Það kom aldrei til mála að hætta Norður-Atlantshafsfluginu í vor. Sumarið er skásti tími þess flugs. Eins og ég sagði 24. sept. lá fyrir hvað íslenska ríkisstj. vildi gera. Það er því flugfélagsins sjálfs að ákveða hvernig það vill hafa framhaldið.

Ég hef hins vegar lýst því áður hér í ræðu, að ég óttast mjög þá þróun sem hefur verið frá því að flugfélagið hljóp til 15. ágúst og kunngerði alheimi að það ætlaði að hætta við þetta flug. Slíkar fréttir birtust í víðlesnum tímaritum. Það er alveg ljóst að þá var satt að segja brennd brú að baki sem mjög erfitt er að endurbyggja. Ég hygg þetta hafi haft mjög alvarleg áhrif á þetta flug. Þannig kann vel að vera að það sé orðið of seint að snúa við en það verður félagið sjálft að meta.

Ég vil hins vegar taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum, t.d. hv. þm. Friðrik Sophussyni, að ég tel að ekki sé miklu hætt til þó að þessu flugi sé haldið áfram í eitt ár þannig að skapast megi grundvöllur til að skoða framhaldið mjög vandlega, t.d. til að skapa þeim mönnum, sem þarna hafa vinnu, aðra atvinnu og yfirleitt til að leita leiða til að gera endalok þess ef svo má segja, sem auðveldust bæði starfsliði og félaginu og þjóðinni. Sýnist mér því ekki miklu til fórnað. En á það legg ég alveg sérstaka áherslu, að erfiðleiki flugfélagsins, sem er af stærðargráðunni 12 millj. bandaríkjadala, a.m.k., eins og lýst er í bréfi félagsins frá 15. sept., er alveg óháður Norður-Atlantshafsfluginu. Þótt hætt verði við það núna er sá erfiðleiki engu að síður fyrir hendi og hann er langtum stærri.

Hv. þm. fullyrti að ekki hefði verið staðið við það sem ég sagði í Lúxemborg. Ég vil andmæla því. Ríkisábyrgðin var veitt örfáum dögum eftir að ég kom heim. Engin lendingargjöld hafa verið innheimt síðan af Atlantshafsfluginu. Það er hins vegar rétt, að þeir höfðu greitt lendingargjöld í 7 mánuði, sem mér var að vísu ekki kunnugt um. Ég hélt að þarna stæði miklu meiri skuld, en það stafar af því að þeir skulduðu einnig mjög mikið í öllu Evrópuflugi sem blandast þarna inn í og kom aldrei til greina að fella niður þau lendingargjöld.

Það er rétt, að ég lagði til að lendingargjöld yrðu felld niður allt árið 1979. Fjmrn. taldi vandkvæði á því að fella niður lendingargjöld sem þegar væri búið að borga í ríkissjóð og komin væru inn í ríkisreikning. Málinu var því frestað með greiðslufresti. Þegar málið var tekið upp að nýju var sæst á að endurgreiða þann hluta lendingargjalda, sem þegar hafði verið greiddur í formi hlutafjár. Hlutafjáraukningin er upp í 20%. Það eru um 530 millj. kr., sem sagt margföld sú upphæð sem nemur lendingargjöldunum sem greidd höfðu verið, þ.e. 196 millj. Í þeim umr. kom m.a. til tals að þessi hlutafjáraukning gæti verið liður í 3 millj. dollara bakábyrgðinni, þ.e. hún yrði lægri, en hluti af því kæmi sem hlutafjáraukning. Algjört samkomulag varð um það, með tilliti til þess sem ég lagði áherslu á með lendingargjöldum, að halda aukningu á hlutafjáreign ríkisins utan við bakábyrgðina, en greiða lendingargjöldin til baka með því. Þannig lít ég svo á, og get sagt það hvar sem er, ekki síst í Lúxemborg, að fullkomlega hafi verið staðið við það sem ég ákvað að beita mér fyrir.

Bæði hv. þm. Friðrik Sophusson og hv. þm. Árni Gunnarsson nefndu viðræður við varnarliðið. Það er rétt, að ég lagði það til í skýrslu minni til ríkisstj. og nefndi það í Lúxemborg. Þær viðræður hafa farið fram. Reyndar hófust þær í utanríkisráðherratíð hv. þm. Benedikts Gröndals, ef ekki fyrr. A.m.k. hófust þær þá. Þær viðræður hafa verið í gangi á vegum utanrrn. eða fyrir tilstilli þess, en á milli félagsins sjálfs og amerískra stjórnvalda. Fyrirtækið þarf ekki að spyrja neinn um leyfi til þess að ræða við varnarliðið um flutninga. Það er því að sjálfsögðu frjálst og enginn getur bannað utanrrn. að veita fyrirtækinu liðsinni í slíkum umr. Aldrei hefur komið til mála að banna slíkt. Engin ríkisstjórnarsamþykkt var nauðsynleg í því sambandi.

Ég hefði heldur kosið að utanrrh. greindi sjálfur frá ferð sinni til Bandaríkjanna, en um hana vil ég segja þetta:

Það er rétt, að hann átti viðræður við forráðamenn þar um hugsanlega flutninga fyrir varnarliðið, og athugun á því er enn í gangi. Hins vegar skilst mér að mörg tormerki séu á því t.d., hvort flugvélakostur Flugleiða er af þeirri stærð að hann geti borið ýmsa þunga hluti sem varnarliðið þarf að flytja, einnig hvaðan þeir flytjast í Bandaríkjunum o.s.frv. Mér skilst því, — ég verð að segja: að mér skilst, því ég hef ekki sett mig inn í það mál að öðru leyti, — að þarna séu ýmis vandkvæði á. Að sjálfsögðu hefur ríkisstj. verið kunnugt um þessa viðleitni utanrrn. eða félagsins sjálfs og ekki gert um það neina samþykkt hvorki, með né á móti.

Mér þótti það fróðlegt, sem hv. þm. Árni Gunnarsson upplýsti hér, að Lúxemborgarar ætli að hefja eigið flug yfir Norður-Atlantshafið eftir ár. (Gripið fram í: Það er alveg nýtt.) Það er alveg nýtt. Ég vil gjarnan að hv. þm. hlusti á það. — Ég verð að lýsa undrun minni á því. Þá hefur starfsbróðir minn í Lúxemborg sagt mér ósatt. Hann lýsti því yfir í margra viðurvist, að eftir þá samninga mundu þeir ekki gera neinar slíkar ráðstafanir.

Þeir legðu áherslu á að ef Atlantshafsfluginu yrði haldið áfram yrði þegar sest niður og leitað að leið til að halda því flugi áfram í samstarfi við okkur. Þeir mundu ekki ljá máls á samstarfi við aðra á meðan svo stæði. Ég hef ekki ástæðu til að vefengja þessi orð forráðamanna í Lúxemborg og þykir ákaflega leitt, satt að segja, að slíkt skuli koma hér fram.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. sagði um flugfélagið í Ísrael. Það er mjög athyglisvert. Þau eru fleiri flugfélögin sem hafa bjargað sér út úr erfiðleikum með slíku samstarfi starfsliðs og stjórnenda. Ég hef sagt það hér hvað eftir annað, að ég tel þarna komna kannske mestu brotalömina í starfsemi Flugleiða. Ég nefndi hér, hygg ég, í framsöguræðu minni British Caledonian sem hefur haft svipaða starfshætti og komið ólíkt betur úr en flugfélagið British Airways. Þetta er einmitt það sem við höfum viljað stuðla að með þrýstingi á aukna hlutdeild starfsliðs í félaginu og aukna hlutdeild starfsliðs í ákvarðanatöku á vegum félagsins. Ég held einmitt að Norður-Atlantshafsflugið geti staðið af sér þessa erfiðleika ef svona starfshættir eru upp teknir. Ég hef óbilandi trú á mikilli aðild og mikilli þátttöku starfsliðs í starfsemi, ekki síst eins og þeirri sem hér er um að ræða.

Ég vona að ég hafi nú svarað því sem kom fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni.

Hv. þm. Friðrik Sophusson ræddi um að ríkisstj. bæri ábyrgð á þessu. Ég er ákaflega undrandi á því, hvernig ríkisstj. á að bera ábyrgð á afkomu flugfélags þar sem ríkisvaldið á 6%. Þá skil ég ekki einkareksturinn. Ég verð að viðurkenna það. Ég skyldi taka undir það ef ríkissjóður ætti meiri hluta í félaginu. Þá bærum við ábyrgð. Við eigum ekki einu sinni fulltrúa í stjórn þessa félags.

Ég verð að segja að mér sýnast margar þær upplýsingar, sem við höfum beðið um, hafa komið ansi seint. Ég gæti talið upp spurningar sem eftirlitsmenn hafa sent, en ekki hefur verið svarað enn. Ég get einnig sagt það hér, að s.l. mánudag, 20. okt., kallaði ég á forstjóra Flugleiða og bað hann að gefa mér upp sem gleggst yfirlit yfir það hvernig ástandið væri nú. Ég er ekki búinn að fá svar við því enn. Ef ríkisstj. bæri ábyrgð þyrfti ekki að spyrja slíkra spurninga. — Nei, ríkisstj. ber ekki ábyrgð á rekstri Flugleiða. Ríkisstj. hefur boðið fram það sem ríkisstj. treysti sér til að leita heimildar Alþ. fyrir, og málið er hjá Flugleiðum.

Hv. þm. ræddi um lendingargjöldin, sem ég vona að ég hafi svarað, flug fyrir varnarliðið einnig, en ég kem þá að Iscargo og stefnubreytingu og mun fara um það nokkrum orðum.

Ég hef áður upplýst umsókn Arnarflugs. Ég svara því ákveðið að heimild fyrir Iscargo að fljúga blandað vöru- og farþegaflug til Hollands boðar enga stefnubreytingu. Ég vil vekja athygli á því, að í því bréfi, sem þáv. samgrh. skrifaði Flugleiðum, segir svo, með leyfi forseta, — það er bréf frá 1973 — þar segir svo m.a.:

„Telur ráðuneytið ekki neina ástæðu til að gera ráð fyrir að breyting verði á þessari stefnu þótt yfirstjórn félaganna verði sameinuð, nema síður sé. Rn. minnir á að opinber stjórnvöld hafa átt frumkvæðið að sameiningartilraunum flugfélaganna, og hlýtur rökrétt afleiðing þeirrar stefnu að vera sú, að sameinað flugfélag eða núverandi flugfélög, sem verða undir þess yfirstjórn, verði tilnefnd til að njóta allra þeirra réttinda til reglubundins áætlunarflugs á erlendum flugleiðum sem Ísland hefur samkv. loftferðasamningum og það eða þau vilja nýta.“

Flugfélagið hefur ekki nýtt rétt sinn til Amsterdamflugs í 13 ár. Kannske er það ástæðan fyrir því, að hv. þm. m.a., sem sitja í flugráði, samþykktu þessa beiðni. Ég hefði gjarnan viljað að þeir hv. þm. hefðu þá skýrt frá því, hvers vegna þeir samþykktu hana. — Ég samþykkti beiðnina á eftirgreindum forsendum:

Í fyrsta lagi: Fjórir af fimm í flugráði mæltu með því og aðeins einn sat hjá, og það rekstrarstjóri Flugleiða, sem hlyti að vera kunnugt um hvað Flugleiðir ætla sér á þessum sviðum.

Í öðru lagi hefur Iscargo haft allmikla og vaxandi vöruflutninga frá Hollandi. Ég tel skynsamlegt að reyna að sameina slíkt, og félagið eigi að hafa möguleika til þess.

Í þriðja lagi leggur rn. á það fulla áherslu — það þarf ekki að spyrja um það — að öllum ákvæðum loftferðaeftirlits sé fullnægt, — öllum ákvæðum, ekki síst öryggisákvæðum, viðhaldsatriðum og öllu þess háttar, og sömuleiðis því ákvæði loftferðareglugerðar að félagið skili fyrir 1. apríl ár hvert reikningum síðasta árs.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem þannig liggja fyrir, var nokkur rekstrarhalli á Iscargo síðasta ár. Ég sé ekki ástæðu til að gefa upp hvað hann var mikill, hann var æði miklu minni en Flugleiða, jafnvel í hlutfalli. En hann var nokkur, en ekki þannig að það stofni rekstri félagsins í beina hættu. Hins vegar hef ég ekki glöggar upplýsingar um hvort félagið hafi á síðustu vikum staðið við allar skuldbindingar sínar. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að viðskiptabanki félagsins, þegar kemur að fyrirgreiðslu vegna þessa flugs, muni skoða það mjög vandlega. Það er ekkert óeðlilegt. Það er verkefni viðskiptabanka.

Ég verð að segja að mér finnst lágt lagst þegar menn eru að gefa hér til kynna að ég hafi veitt þetta leyfi af því að flokksbróðir minn sé þarna innan dyra. Eigum við ekki flestir t.d. flokksbræður í flugráði sem samþykktu þetta? Þeir leggjast lágt, er það ekki? Ég veit a.m.k. að hv. þm. Árni Gunnarsson á þar flokksbróður sem samþykkti þetta. Ég held að svona málflutningur þjóni engum tilgangi, ekki nokkrum.

Ég er þeirrar skoðunar að eitt flugfélag eigi að hafa allar áætlunarflugferðir til og frá landinu. En það á ekki að þýða að það félag eigi að einoka alla slíka flutninga. Kem ég nánar að því áður en ég kem að þeirri stefnu sem ég álít að eigi að fylgja.

Þingmenn hafa fullyrt og kemur fram í bréfi frá Flugleiðum sem var dreift til allra þm., að víðast annars staðar hafi eitt félag slíka flutninga. Þetta er að hluta rétt, en ekki að öllu leyti. Ég hef upplýsingar um hverjir eiga þessi flugfélög. Finnska ríkið á 80% af Finnair. Norðurlöndin eiga 50% af SAS og ráða þar öllu innan dyra. Spánska ríkið á 97% af Iberia. Franska ríkið á 100% af Air France. Belgíska ríkið á 90% af Sabena. Og m.a.s. þýska ríkið, þessir menn frjálshyggjunnar, á 82% af Lufthansa. Hollenska ríkið á 78% af KLM. Ég hef ekki fengið upplýst hvað ríkisvaldið á mikið í Swiss Air, en það mun ráða þar öllu. Það kynni nú ekki að vera, að þessum ríkisstj. hafi sýnst eðlilegt að veita þessum félögum einkaleyfi af því að þau eru ríkiseign?

Ég verð að segja að ég er ekki undrandi á því þótt menn efist um skynsemina í því að veita einu einkafélagi hér einkarétt á öllum samgöngum við landið, — félagi sem er í eigu Eimskips hf., sem er ágætisfélag, og örfárra einstaklinga að meiri hluta. (Gripið fram í: Það var ákvörðun vinstri stjórnarinnar.) Það var ákvörðun vinstri stjórnarinnar, en hana má sannarlega endurskoða.

Ég er undrandi á því, að hv. þm. Sjálfstfl. skuli.gagnrýna eða óttast stefnubreytingu. Ég hef ekki lýst yfir neinni stefnubreytingu. Ég hygg þó að þm. mættu hugleiða upplýsingar um eignaraðild ríkisvalds í félögum sem hafa slíkt einkaleyfi. En málinu er ekki þar með lokið. Staðreyndin er sú, að í öllum þeim löndum sem ég nefndi, hverju einasta þeirra landa, eru mörg flugfélög sem reka víðtækt flug við önnur lönd. (Gripið fram í: Ekki reglubundið áætlunarflug.) Ekki reglubundið áætlunarflug, en hver er munurinn þegar menn geta gengið upp í flugvél sem fer á ákveðnum tíma frá Kaupmannahöfn til Mallorka allar vikur og flesta daga vikunnar? Munurinn er enginn annar en sá, að sú flugstarfsemi er ekki með fargjöld sín eins undir smásjá stjórnvalda.

Fyrst og fremst hef ég gagnrýnt að á einni hendi hér skuli vera ekki aðeins allt áætlunarflug, heldur allt leiguflug. Ég vil leggja á það ríka áherslu, að ég tel slíkt algjörlega ótækt. Ef svo illa fer að flug stöðvast, þá stöðvast allar samgöngur við landið. Þótt við hefðum ekki nema eitt leiguflugfélag gætum við kannske bjargað okkur einhvern tíma. En ég fæ ekki séð að við getum það.

Ég er mótfallinn þeirri stefnu að allt flug til og frá landinu sé á einni hendi. Ég mun beita mér gegn henni. Ég er hins vegar fylgjandi því, að eitt félag hafi allar megináætlunarleiðirnar til landsins. Ég tel það ekkert brot á þeirri stefnu þótt félag fái áætlun á einn stað sem það flýgur þegar á og það félag, sem hefur allar megináætlunarleiðirnar, hefur ekki sýnt áhuga á að sinna. — Þetta er sú stefna sem ég fyrir mitt leyti vildi lýsa.

Ég tek undir það með hv. þm., að sannarlega er tímabært að stefnan sé mörkuð á þessu sviði. Ég mun beita mér fyrir því að það verði gert, en fyrst verður eflaust að komast yfir þann þröskuld sem við erum nú við, rekstrarerfiðleika Flugleiða.

Ég vil segja að lokum, að það er einlæg von mín að takast megi að halda þessu flugi gangandi innan Flugleiða. Ég er ekki hlynntur ríkisrekstri flugfélags. Ég held satt að segja að við Íslendingar höfum nógu mikið annað á okkar hendi. Ég hef því sagt opinberlega og vil segja hér, að ef svo fer að Flugleiðir hf. treysta sér ekki til að halda áfram t.d. nauðsynlegustu samgöngum vegna rekstrarerfiðleika ber að leita annarra leiða, t.d. víðtæks samstarfs við starfslið sem hefur sýnt vilja til þess. Ég er hins vegar viss um að ef til þess kemur þarf miklu meiri aðild ríkisvaldsins er nú er um að ræða. Ég hygg að enginn muni treysta sér út í slíkan rekstur án þess.

Ég tel jafnframt að ríkisvaldið eigi skilyrðislaust að fá miklu beinni aðild að stjórn flugfélagsins en það hefur nú, þannig að ekki þurfi að biðja um upplýsingar og fá þær á síðustu stundu og síðan upphrópanir um að ekki sé hlaupið upp til handa og fóta og orðið við öllum beiðnum. Þess vegna legg ég á það ríka áherslu, að þáttur í því, sem nú er verið að gera, er aukin aðild ríkissjóðs. Það á að tryggja ríkissjóði e.t.v. tvo menn í stjórn og því möguleika til að hafa bein áhrif á stjórn félagsins.

Ég vona að hið háa Alþingi sjái sér fært að afgreiða fljótt það frv. sem liggur fyrir. Mér er hins vegar ljóst að þm. þurfa að afla ýmiss konar upplýsinga. Það er von mín að töluverðar upplýsingar hafi komið fram í þessum umr. og því megi hraða afgreiðslu þess máls, því undir það vil ég taka, sem kom fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að ástandið mun verða ákaflega alvarlegt og ég óttast að við höfum jafnvel enn meiri og vaxandi erfiðleika á höndum okkar ef ekki er brugðið skjótt við.

Hitt er svo líka spurning sem við þurfum að spyrja okkur sjálfa: Er þessi aðstoð næg? Þess vegna kallaði ég á forstjóra Flugleiða 20. okt. og spurði hann þeirrar spurningar. Ég hef ekki fengið svar við henni enn.