27.01.1981
Sameinað þing: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

82. mál, þáttur söluskatts og aðflutningsgjalda í framleiðslukostnaði landbúnaðarvara

Svar landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Helgasonar um þátt söluskatts, tolla og annarra aðflutningsgjalda í framleiðslukostnaði landbúnaðarvara, á þskj. 88, sent þm. 27. jan.

Á undanförnum árum hafa orðið allmiklar breytingar á gjöldum, sem leggjast við framleiðslukostnað landbúnaðarafurða í formi söluskatts, tolla og annarra aðflutningsgjalda. Þannig hafa tollar af rekstrarvörum í landbúnaði, þ.m.t. vélar, farið stighækkandi. Þar á móti hefur komið vörugjald af fjárfestingarvörum hvers konar og hækkun söluskatts af söluskattskyldum rekstrarvörum.

Almennt er innheimtur 2% tollur og söluskattur af innfluttum vélum og tækjum í landbúnaði og af vélum og tækjum fyrir vinnslu landbúnaðarafurða.

Vörugjald leggst á hinar ýmsu fjárfestingarvörur í landbúnaði og í úrvinnslugreinum landbúnaðarins, svo sem mjólkurvinnslu og slátrun.

Tollar af fjárfestingarvörum hafa almennt verið felldir niður, en eru af einstökum vörum enn um 25–35%. Heildarkönnun á þætti söluskatts, tolla og annarra aðflutningsgjalda í framleiðslu landbúnaðarvara hefur ekki verið gerð. Þáttur söluskatts í framleiðslukostnaði landbúnaðarvara hefur verið áætlaður, en ekki þáttur tolla og annarra aðflutningsgjalda. Sú áætlun var miðuð við framleiðslukostnað landbúnaðarvara í júní 1980 og benti til þess, að um 3.1% af heildarverði landbúnaðarvara væri uppsafnaður söluskattur, er innheimtist á öllum stigum framleiðslunnar.

Þann 9. september s.l. var skipuð nefnd samkv. ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að gera samanburðarathugun á starfsskilyrðum iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar með tilliti til samkeppnisaðstöðu í útflutningi og á heimamarkaði. Verði að því stefnt að skapa atvinnuvegunum sambærilega aðstöðu, m.a. með tilliti til mismunandi álagningar opinberra gjalda, sem leiðir til óhagstæðrar gengisskráningar fyrir einstaka atvinnuvegi. Jafnframt verði gerð athugun á lækkun á sölugjöldum af fjárfestingarvörum og hjálpartækjum með tilliti til jöfnunar á samkeppnisaðstöðu og aukinnar framleiðni, svo og á breytingu á stimpilgjöldum.

Samkvæmt upplýsingum, sem ráðuneytinu hafa borist, vinnur nefndin að könnun á þætti þeirra gjalda, sem um er spurt í þessari fyrirspurn, í framleiðslukostnaði atvinnuveganna, þ. á m. landbúnaðarins. Þegar sú úrvinnsla liggur fyrir, verður unnt að svara fyrirspurn þessari á ítarlegri hátt en nú er mögulegt. Mun þá verða gerð nánari grein fyrir þessu efni til Alþingis.