28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

151. mál, þingsköp Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þetta frv. til l. er að mörgu leyti góðra gjalda vert, og það er sannarlega gott að menn séu stuttorðir og gagnorðir og noti tíma sinn og annarra vel, en málfrelsið er mikill og dýrmætur réttur og þess vegna vil ég fyrir mitt leyti fara fremur varlega í það að takmarka mjög ræðutímann. Ég held að við þurfum að skoða þetta vandlega áður en við förum að takmarka mjög ræðutíma, ekki endilega bara ráðh., heldur gildir það eins um hinn almenna þingmann.

Í sjálfu sér ætti sómatilfinning þingmanna að setja þeim eðlileg tímamörk þannig að menn stæðu ekki hér og töluðu, endurtækju sig og færu hring eftir hring. Sumir fyrrverandi kennarar, sem hefur skolað hér inn, vita ekki af sér fyrr en þeir eru búnir með 45 mínútur hérna í ræðustól og gætu þó kannske komist af með 10.

En ég held, að það sé nauðsynlegt að endurskoða þingsköp öðru hverju og ég held, að það séu gagnlegar og mjög athyglisverðar hugmyndir sem hv. þm. Benedikt Gröndal var að hreyfa hér áðan. — Mér finnst ekki endilega þurfa að áfellast þm. fyrir að hafa farið nokkuð víða í fyrirspurnatímum á þessu þingi. Mér finnst hæstv. forseti hafa stjórnað fyrirspurnatímum vel í vetur og verið strangur með klukkuna, enda á hann að vera það. Þá geta þetta orðið fjörugar og líflegar umræður og menn geta létt á sér og hleypt út dampi án þess að fara allt of illa með tímann. Mér finnst að það þurfi miklu fremur að gá að utandagskrárumræðum og fyllilega ástæða til að setja þar tímamörk, e.t.v. ekki endilega þau sömu og í fyrirspurnatíma, en þetta þarf allt saman athugunar við og ég er ekki frá því að það megi breyta ýmsu. En samt sem áður er ég, með tilliti til málfrelsisins og hvað það er dýrmætur réttur og mikilvægur á þessu virðulega þjóðþingi okkar, nokkuð íhaldssamur á gagngerar breytingar.

Mér kom nokkuð á óvart að hv. þm. Vilmundur Gylfason skyldi flytja þetta frv. Að vísu er hann sjálfur stuttorður svo að er til fyrirmyndar. Þó að hann komi hér kannske óþarflega oft er hann ekki mjög lengi í einu. Hins vegar er þetta ekki nærgætið við hv. sessunaut hans, Sighvat Björgvinsson, sem kemur hér bæði oft og dvelst tengi. En kannske ætlar hv. þm. Vilmundur Gylfason ekki að gera hv. þm. Sighvat Björgvinsson að ráðherra alveg á næstunni.