29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

80. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um viðgerðarkostnað vegna alkalískemmda á steinsteypu í húsum. Ég vil fyrst taka það fram og taka undir með hv. flm., að hér er um allverulegt vandamál að ræða og það hefur komið fram á síðustu árum að fjölmörg hús hér á Reykjavíkursvæðinu sem og á Akureyri, þar sem þetta hefur verið kannað, eru stórskemmd af völdum alkalívirkni. Þessi alkalívirkni er nokkuð merkilegt fyrirbæri og ætla ég ekki hér að gerast neinn sérfræðingur í þeim efnum eða fara að lýsa henni en það er athyglisvert að tíðni alkalívirkninnar vex verulega eftir 1960. Að vísu er þarna kennt um sementinu og má það vera rétt. Hins vegar vitum við um ástæður fyrir alkalívirkninni. Hún fer af stað þegar saman fer mikill raki eða vatn og notuð hafa verið sjávarefni í steypuna. Virðist svo sem alkalívirknin sé í hámarki þegar um er að ræða slíka samsetningu.

Ef bornir eru saman staðir, þ.e. Akureyri og Reykjavík, kemur fram að alkalívirknin er allverulega meiri á Reykjavíkursvæðinu. Fyrst og fremst er það rakið til þess, að úrkoma er meiri hér syðra. Auðvitað geta fleiri þættir komið þarna inn í, en fyrst og fremst er þar um að ræða meiri úrkomu. Nú er afskaplega erfitt að mínum dómi að meta til fullnustu hvar höfuðorsökin liggur, og þarna er um að ræða nokkuð langt orsakasamhengi.

Nú getur verið um tvö hús að ræða. Í öðru sýnist „grassera“ alkalívirkni, þ.e. þessu húsi hefur e.t.v. verið haldið mjög illa við, þess hefur ekki verið gætt e.t.v. að mála þetta hús og sprungufylla. Alkalívirknin veldur ómældum skaða. Annað hús er e.t.v. við hliðina þar sem alkalívirknin blundar, ef ég má svo að orði komast, en viðkomandi húsi hefur verið mjög vel við haldið og alkalívirknin ekki náð sér á strik. Í þessari till. er ýjað að því að greiða jafnvel bætur þeim sem hafa orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Þetta, sem ég síðast nefndi, þ.e. munur á viðhaldi húsa hjá hinum ýmsu einstaklingum, getur komið til álita og blandast saman við þessar umræður.

Í þessu sambandi eru menn að tala um, og ég vil út af fyrir sig ekki draga úr því, að það sé ámælisvert að um hefur verið að ræða hér á markaðnum efni sem hefur sumpart valdið þessari alkalívirkni. En ég vil minna á að undanfarið hafa verið notuð ýmis byggingarefni sem e.t.v. er ábyrgðarhlutur að hafa samþykkt að nota mætti. Við skulum láta hugann reika aftur til áranna 1955–1956. Ég minnist þess, að á þeim árum var mjög algengt að notaður væri hleðslusteinn í hús, vikursteinn. Eftir því sem ég veit best um fjölmörg þeirra húsa, sem byggð voru á þeim tíma, er búið að klæða þau og hefur komið í ljós að mjög mörg þeirra eru bókstaflega gegndreypt raka og yfirleitt er saggi í þessum húsum og þau mjög óþægileg í umgengni. Fjölmörg þessara húsa er búið að einangra núna og klæða að utan. Þegar þessi hús voru byggð var það gert sumpart að tilhlutan opinberrar forsjár, ef ég má svo að orði komast. Síðan hafa eigendur orðið fyrir umtalsverðu tjóni af þeim sökum sem ég er þegar búinn að nefna. Vandamál húseigenda eru því á ýmsum öðrum forsendum en alkalívirkni.

Það má enginn skilja orð mín svo, að ég sé á nokkurn hátt að draga úr því, að áframhaldandi rannsóknir fari fram á alkalívirkni í steinsteypu, þvert á móti, og einmitt þyrfti að athuga það víðar um landið en eingöngu hér á stór-Reykjavíkursvæðinu og á Akureyri. En eitt finnst mér þó athyglisvert í samanburði við annað byggðarlag. Nú er ég e.t.v. ekki nægilega kunnugur því, en ég hef þó grun um að alkalívirkni hafi verið athuguð í steinsteypu í Keflavík, þar sem um hefur verið að ræða notkun sements sömu gerðar, en gott malarefni. Eftir því sem ég veit best hafa menn ekki komist á snoðir um alkalívirkni þar í steinsteypu sem neinu nemur.

Þar kemur fram í þeim skýrslum sem handbærar eru um þessi mál, að alkalívirknin er mun algengari í stórhýsum, sérstaklega í fjölbýlishúsum. Það hlýtur að mínum dómi að leiða hugann að því, hvort þarna ráða ekki gífurlega miklu þau vinnubrögð sem eru viðhöfð við húsbyggingar, og á það er að sjálfsögðu bent í þeim skýrslum sem eru tiltækar. Það er afskaplega mikilvægt að steypan sé ekki þynnt allt of mikið með vatni. Hefur greinilega komið fram að það eykur alkalívirknina allverulega. Fjölmargir aðrir þættir að því er varðar niðurlögn steypu og jafnframt hönnun húsa skipta máli. Mér finnst samanburðurinn á fjölbýlishúsunum og hinum minni húsum, sem er blokkunum mjög í óhag, benda til þess, að ein af ástæðunum fyrir þessu sé óvönduð og hroðvirknisleg vinnubrögð í byggingarmáta og þá kannske fyrst og fremst í niðurlögn steypunnar.

Enda þótt ég hafi farið um þetta nokkrum orðum og einhver hafi e.t.v. tekið þau að einhverju leyti sem neikvæð gagnvart tillögunni, þá vonast ég til þess að enginn hafi tekið orð mín svo. Ég vil lýsa stuðningi við þessa till. Ég efast um að það sé réttlætanlegt að fara út í beina fjárhagsaðstoð, þ.e. óafturkræf framlög, í þessu skyni, en ég vil taka undir það, að athuga þyrfti mjög vel að veita sérstaka lánafyrirgreiðslu í þessu tilliti.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri, en ég vil taka undir þann hluta till. sem ég hef lýst.