29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

80. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er kannske rétt að byrja á að þakka hv. 12 þm. Reykv. fyrir þennan fróðlega fyrirlestur og tæknilega um þetta vandamál sem till. sú, sem hér er til umr., fjallar um.

Það er vissulega orðið alvarlegt mál þegar í ljós er komið að verulegur hluti nýrra húsa á höfuðborgarsvæðinu er stórkostlega skemmdur, liggur undir skemmdum og að frekari skemmdir eiga enn eftir að koma í ljós. Þetta er enn alvarlegra þegar það er haft í huga að steinsteypan hefur nú um langt árabil verið það sem menn hafa treyst á til að fjárfesta í, lagt ómældan hluta tekna sinna og vinnu í að koma sér upp eigin húsnæði, þegar það síðan kemur í ljós að þessi mannvirki liggja meira og minna undir skemmdum. Þess vegna er þessi till. þörf og tímabær. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, ef koma á í veg fyrir margvísleg vandræði og vandkvæði, að komið sé til móts við þá eigendur íbúðarhúsa sem verða fyrir stórkostlegum skakkaföllum af völdum atriða sem þeir geta ekkert ráðið við.

Það hefur ýmislegt verið sagt hér um orsakir þessara steypuskemmda. Ég var staddur á fundi fyrir stuttu þar sem forstjórar Sementsverksmiðjunnar fjölluðu m.a. um þessi mál og skýrðu þau á afskaplega ljósan og einfaldan hátt: Sem sagt: Íslenskt sement er alkalívirkt. Það er í lagi ef notaður er í það sandur sem ekki er alkalívirkur. Þegar bætist við alkalívirkur sandur nægir það til að það sígur á ógæfuhlið í þessum efnum og skemmdir fara að eiga sér stað. — Nú hefur hins vegar, eins og síðasti ræðumaður minntist á, verið brugðið á það ráð að blanda kísilryki, sem sagt úrgangs- og mengunarefnum frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, í sementið og með því telja þeir, sem gerst eiga til að þekkja, að þetta vandamál eigi ekki að skapast. Þessi efni koma sem sagt frá þeirri verksmiðju sem nú hefur því miður verið lokað um stundarsakir, en hv. formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, lét sér sæma í umr. í gær eða fyrradag að kalla „delluverksmiðju“ — og talaði þar fulltrúi argasta afturhalds og mestu íhaldsaflanna sem hér heyrist í.

Ég hygg að það hafi komið í ljós, að raunhæfasta leiðin til að ráða bót á þessum vanda sé sú, sem hér hefur raunar verið minnst á, að nota þá gömlu byggingaraðferð sem hér var viðurkennd fyrir 40–50 árum, og það er bárujárnið eða hinar nútímalegu myndir þess, þ.e. að klæða þessi steinsteyptu hús að utan með bárujárni. Það hefur komið í ljós, að oft er það gott sem gamlir kváðu, að eina vörnin er að gera steypuhallir okkar nútímamanna að bárujárnshúsum að nýju. Það er það eina sem hefur reynst öruggt og haldgott, eins og síðasti ræðumaður raunar gat um og fjallaði um af sérþekkingu.

Þess eru dæmi hér í Reykjavík að heil hverfi húsa liggja meira og minna undir skemmdum af þessu tagi og raunar sums staðar búið að klæða ýmist gafla eða húshluta til að koma í veg fyrir slíkar skemmdir. Annars staðar eru menn að basla við að eiga viðskipti við þá aðila sem fást við að þétta veggi. Það er ekki löggilt iðngrein hér og misjafn sauður þar eins og víða annars staðar. Ég hygg að margir geti sagt fróðlegar sögur af viðskiptum við þá sem við þetta fást og auglýsa slíka þjónustu.

Ég held að það þurfi ekki aðeins að koma til móts við þá, sem hér verða fyrir skakkaföllum, með þeim hætti sem þessi till. gerir ráð fyrir, heldur þurfi einnig að kanna niður í kjölinn hversu stórt og umfangsmikið þetta vandamál er, hversu miklir fjármunir eru hér í húfi, að það liggi fyrir, og í öðru lagi þurfi að veita almenningi leiðbeiningar um það, hvernig bregðast skuli við þessu og hvernig best verði úr bætt. — Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að hér sé vissulega hreyft þörfu máti og rík ástæða sé til að samþykkja þessa tillögu og það sem allra fyrst.