03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

371. mál, Reykjanesbraut

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp., sem er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hefur Vegagerð ríkisins gert ráð fyrir að leggja nýtt slitlag á Reykjanesbraut til að koma í veg fyrir þá stórfelldu slysahættu, sem nú er vegna slits á veginum?

2. Hafa aðrar leiðir til viðhalds Reykjanesbrautar verið kannaðar?“

Ástæðan fyrir þessari fsp. er sú, að fólk kvartar mjög yfir því nú að hjólfaradýpt vegarins sé það mikil að hún skapi hættu, einkum í vatnsveðrum. Samkv. þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér fór hjólfaradýpt eða ástand vegarins yfir hættumörk fyrir fjórum árum. Talið er að með sömu umferð aukist hjólfaradýpt um 1.1 –1.2 mm á ári og verði því hættulegri því lengra sem líður. Slysatíðni á Reykjanesbraut hefur verið allmikil og er því ástæða til að gæta að hvort ekki er nauðsynlegt að halda brautinni betur við. Vegurinn var lagður á árunum 1962 –1966 og hefur ekkert viðhald verið við þann veg síðan. Þess má geta, að um Reykjanesbraut fer 10% af allri umferð í landinu svo að það mælir með því að vel sé hugað að úrbótum í þessum efnum.