03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég svaraði þessari fsp. reyndar allítarlega fyrir einum og hálfum mánuði, hélt ég, og reifaði alla þætti þessa máts og kann ekki við að fara að endurtaka það nú.

Hins vegar vil ég segja að það er dálítið til í því, sem hv. þm. sagði, að gefnir hefðu verið út þrír óútfylltir tékkar: fyrst af þm., síðan af Framkvæmdastofnun og svo af ríkisstj. Það verður að segjast eins og er. En hitt er annað mál, að sjútvrn. hefur aldrei tekið að sér að kaupa togara eða ákveða breytingar á togurum o.s.frv., o.s.frv. Togarinn er keyptur, síðan eru ákveðnar breytingar, og það eru útgerðaraðilarnir sem ákveða þær breytingar.

Í samþykkt ríkisstj. er Framkvæmdastofnun beðin um að hafa forsjá þessa máls og ég geri ráð fyrir að hún hafi fylgst með þessu eins og hún hefur getað. En fyrst og fremst eru það náttúrlega útgerðaraðilarnir sem kaupa skipið. Þeir eiga að greiða skipið þó að þeir fái lán til þess, og ef lélegt samband er á milli hv. þm. og útgerðarmanna í kjördæminu get ég lítið gert við því. Svo er ekki í mínu kjördæmi þegar um svona mál er að ræða, verð ég að segja. Þm. fylgjast með fyrir milligöngu réttra aðila.

Ef hv. þm. vilja nú hlaupa frá sínum óútfyllta tékka væri mjög fróðlegt að heyra það. Mér heyrðist hv. þm. Stefán Jónsson vera á báðum áttum áðan. Hann vill að þeir fái togara, en helst ekki taka neinn þátt í að ábyrgjast að þeir fái togara. Það getur vel verið að endurskoða eigi þetta mál frá grunni og ef bæði þm. og Framkvæmdastofnun draga til baka sín meðmæli með því, að Þórshafnarbúar fái togara, hlýtur ríkisstj. að endurskoða sína samþykkt sem var gerð á grundvelli þessara ályktana eða bréfa.