30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

16. mál, rafknúin samgöngutæki

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég tek undir með flm. þessarar þáltill. Það verður að athuga þessi mál mjög vel. Fyrir utan rafknúna bíla, eins og hér er talað um, má t.d. vel hugsa sér að hafa loftlínur yfir helstu þjóðvegum landsins, sem bæði vörubílar og stórir fólksflutningabílar geti fengið orku frá. En varðandi það, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði um járnbrautir og járnbrautarlagnir, þá efast ég stórlega um að það eigi framtíð fyrir sér. Ég reikna með að flutningar séu yfirleitt það litlir hjá okkur. Járnbrautir eru alls staðar reknar með verulegum halla þó að flutningar séu miklu meiri en hér. Ég er ekki að segja að það sé ekki rétt að skoða það mál, en ég held að allir aðrir möguleikar séu nærtækari, bæði bílar með rafgeyma og rafvélar og eins það að leggja leiðslur með helstu þjóðbrautum og tengja meiri háttar farartæki þannig við raforku.

Við megum ekki verða hræddir við nýjungar, eins og oft vill verða hjá okkur. Við verðum að skoða alla hluti og skoða alla hluti miðað við breyttar aðstæður, því okkur hættir við að hengja okkur í gamlar reglur og taka ekki mið af því þó að aðstæður breytist gersamlega, eins og er að verða í orkumálum okkar. Ég styð þessa þáltill.