04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2351)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh.(Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er nú kannske ekki rétt að gera skíðamennskuna hér að aðatumræðuefni, enda hóf ég ekki þá umr. Hins vegar verð ég að lýsa ánægju minni með það, að hv. þm. skuli njóta þess ágæta sports, útivistar, harma að hann hafi aldrei kynnst öðrum brekkum en hér, en ég ætla ekki að fara að kynna honum slíkt hér úr ræðustólnum. Hins vegar get ég bent honum á það, að hv. þm. Kjartan Jóhannsson er vel kunnugur skíðamennsku erlendis, og m.a. sem sjútvrh. fór hann einu sinni til Lech og það er einn sá staður sem mig langar mest til að koma á. Það var skrýtið, að það var ekkert eftir því tekið, en hann getur áreiðanlega frætt hv. þm. um að það er ákaflega gaman að bregða sér þannig einstöku sinnum. Ég held að við höfum allir gott af því.

Ég vil hins vegar segja að ég hélt mig svara þessum spurningum. Það getur vel verið, að honum þyki svörin ófullnægjandi. Ég sagði m.a. áðan að ef spádómar hv. þm. reynist réttir um samdrátt í skelinni — ég lýsti því, að ég vonaðist til að svo yrði ekki — þá gilti um það að sjálfsögðu grundvöllur þeirra laga sem við byggjum á, þ.e. um samræmingu á veiðum og vinnslu, að þeir staðir hljóti að ganga fyrir sem eru upp byggðir með ærinni fjárfestingu og myndarskap til að vinna skelina. Þá væri það brot á þeim lögum, ef kippt yrði atvinnu- og rekstrargrundvelli undan slíkum stöðum. Það væri rangt. En ég hef talið kleift að veita þarna smávegis úrbót stöðum sem ég mat svo að hefðu af þessu gagn og þörf. Mín niðurstaða í sambandi við Grundarfjörð var nokkuð önnur en hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Ég viðurkenni að vísu að þar kunna aðstæður að breytast þegar þar kemur nýr togari t.d. En ég mat það svo, að atvinnuástand væri þar slíkt um tíma að æskilegt væri að vinna þar nokkra skel. Mitt svar er þess vegna ósköp hreint og beint, að hinir staðirnir ganga að sjálfsögðu fyrir, þeirra rekstrargrundvöllur verður að vera tryggur, ef til einhvers samdráttar kemur sem um munar í skelvinnslunni. Og þetta var fram tekið við þá aðila sem leyfi fengu.

En aðeins til þess að menn geri sér ljóst hver þróunin hefur orðið þar, t, d. bara á tveimur árum bendi ég á þetta: Í fyrra var í upphafi úthlutað 6000 lesta veiðimagni af skel og fór það til Stykkishólms. Síðan var bætt við 1000 lestum, þ.e. farið upp í 7000 lestir, og þá fékk einn staður Grundarfjörður, 400 lestir. Hinir voru þá með 6600 lestir. Síðan var að vísu veitt smávegis viðbótarmagn til Stykkishólms, 300 lestir í des., af atvinnuástæðum og af því að markaður var mjög góður. Talið var æskilegt að nota verðið, þann markað sem var og var mjög góður. Þá var að vísu skýrt tekið fram að þetta yrði dregið frá á næsta ári. Nú hef ég úthlutað Stykkishólmi 7200 lestum, þ.e. 600 lestum meira en þeir höfðu í hinni reglulegu úthlutun í fyrra, og ekki dregið 300 lestirnar frá, svo að mér fannst satt að segja að atvinnulega væri vel séð fyrir Stykkishólmi um leið og aðrir í kring, sem að mínu mati þurftu gjarnan á því að halda, fengu nokkra úrbót.

Ég mundi fagna því ef tækist að vinna hjartaskelina, og ég fagna því tilboði sem mér var flutt af öðrum framleiðandanum í Stykkishólmi, og hef komið því á framfæri. Hins vegar á það nokkurn aðdraganda, og sú litla skelfiskvinnsla, sem væntanlega verður þá á Brjánslæk, gæti orðið aðdragandinn að því, að farið yrði að vinna hjartaskel sem er þarna nálægt. Vinnsla hennar er að vísu tiltölulega einföld, en markaður hefur ekki verið kannaður, markaðar hefur ekki verið aflað fyrir hjartaskel. Sömuleiðis eru skiptar skoðanir um það hjá kunnugum mönnum, hvort það magn sem þarna fæst, sé nokkuð til að byggja á. Það þarf að skoða betur.

Ég veit ekki hvort það var eitthvað fleira sem hv. þm. telur mig ekki hafa svarað. Má ég spyrja úr stólnum hvort það var eitthvað. (EG: Já, hvort sjútvrh. telur þetta vera í samræmi við boðaða stefnu ríkisstj.) Ég tel það fyllilega vera í samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. hefur, að styrkja atvinnulífið um land allt og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það er grundvallaratriði og hefur tekist á síðasta ári betur en yfirleitt áður. Á það leggjum við höfuðáherslu.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson taldi mig játa of mörgu. Það verður hver og einn að meta. Ég er ekki sá reiknimeistari sem hann er, og á mínum reiknistokki kemur ekki alltaf upp mínus a.m.k. Ég skoða vandamál hvers manns, sem til mín kemur, og reyni að meta það, ekki vélrænt, heldur frá mannlegum sjónarmiðum. Þetta veil ég reyndar að hv. þm. gerði líka þegar hann var ráðh. og leysti úr ýmsum vandamálum, t.d. í sinu kjördæmi, sem við ræddum á ríkisstjórnarfundum, og ég gat mætavel skilið hann þó að sumt gengi kannske stundum dálítið gegn þeim boðskap sem hann nú flutti. En ég ætta ekkert að ræða þau mál. Ég studdi hann í þeim sumum af því að ég áleit þau mannleg, og þannig reyni ég að starfa áfram. Þau eru mörg slík málin, og ég álít að vélræn afgreiðsla á svo viðkvæmum málum sem varða atvinnu og afkomu manna hingað og þangað um landið sé fráleit og lög alls ekki til þess sett, t.d. alls ekki til þess sett að Stykkishólmur fái algera einokun á skelinni. Við þurfum að kanna hvaða svigrúm er til þess að skelin jafni búskaparhætti og aðstöðu við Breiðafjörð. En ég þarf ekki að endurtaka það, að vitanlega má grundvöllinn á Stykkishólmi aldrei bresta.

Ég hef ekki heyrt nokkur rök fyrir því, að rekstrargrundvöllur þessara fyrirtækja sé að einhverju leyti veiktur með þessu, og það getur reyndar ekki verið, því að þeir fá meiri skel en nokkru sinni fyrr.

Ég vil segja að mér finnst hér gert mikið fjaðrafok út af þessu máli.

Ég vil svo að lokum vona að hv. þm. takist að sannfæra konurnar þarna fyrir vestan um það, að þær fái eins mikla skel og þær hafa nokkurn tíma áður unnið, reyndar 600 lestum meira en þær fengu í reglulegri úthlutun í fyrra. (EG: Væri ekki rétt að ráðh. heimsækti þær?) Ja, ég skal með ánægju koma þangað, en ég þekki enga góða skíðastaði þar í kring, svo að ég verð líklega að fara skíðalaus, nema hv. þm. drífi í því af sinni skíðakunnáttu að koma þar upp einhverjum skíðastöðum.

En ég skal með ánægju gera það, og ég efast ekki um að vel muni fara á með okkur, ef málið er skýrt rétt og magn það, sem þangað kemur, fyrir þær lagt, svo að þær sjái hverjar staðreyndirnar eru. En ég vil ekki síður fagna því, að hv. þm. vill beita sér fyrir því, að sú fiskvinnsla, sem þarna er, fái það hráefni sem til fellur, og það getur hann náttúrlega gert í krafti sinnar þekkingar á staðnum og tíðra ferða þangað og beitt sér fyrir því með viðtölum við menn. Ég skal gjarnan taka við hverri þeirri tillögu sem hv. þm. hefur til mín að flytja og stuðlað gæti að því að aflinn yrði þarna unninn.