04.02.1981
Neðri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

197. mál, þingsköp Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. flm. fyrir þetta frv. Ég vil enn fremur þakka honum fyrir mjög skilmerkilega og fróðlega ræðu sem hann flutti í framsögu. Hann er mjög kunnugur þingsögunni, hagvanur hér í þessari virðulegu stofnun, og flutti fyrir ekki löngu nokkur stórfróðleg erindi í útvarpið. Og það hefur komið fram, að forsetar munu beita sér fyrir, því að þau verði gefin út á prenti. Ég held að hann hafi aukið virðingu Alþingis og skilning á þessari stofnun meðal þjóðarinnar með þessum erindaflutningi. Og það er auðvitað mjög þakkarvert.

Ég er eða vil vera talsmaður víðtæks málfrelsis hér á Alþingi. Það er stolt þessarar stofnunar hvað við höfum mikið málfrelsi. Okkur er ekki varnað máts ef okkur liggur eitthvað á hjarta. Þess vegna er ég varfærinn að takmarka mjög ræðutíma eða málfrelsi manna. Ég viðurkenni það fúslega, að ég er íhaldssamur í þessu efni. En auðvitað verður að skipuleggja þá vinnu sem hér fer fram. Það þarf að skipuleggja hana þannig að menn sói ekki tímanum í fánýtt tal eða einskis nýtt, og það er mikið verkefni. Þó verð ég að telja, þegar ég les þetta frv., að þarna séu atriði sem ég vil ekki fallast á umhugsunarlaust.

Ég styð 3. gr. mjög eindregið eins og hún er. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að koma í þingsköp slíkum ákvæðum, e.t.v. ekki endilega nákvæmlega þessum tímamörkum, en það er mjög nauðsynlegt að setja tímamörk um umr. utan dagskrár og líka e.t.v. að koma á fastari reglum um það, út af hverju menn eigi skilið að fá orðið utan dagskrár. Eins þarf e.t.v. að koma á fastara skipulagi um umr. um þingsköp, því að ef lokað væri fyrir umr. utan dagskrár, þá geta menn opnað eldhúsdagsumræður um þingsköp eða undir því yfirskini að þeir séu að tala um þingsköp. Og þá kemur þetta í sama stað niður.

Hvað varðar 2. gr., þá er ég ekki — a.m.k. ekki að lítt athuguðu máli — tilbúinn að samþykkja það, að aðrir þm. en fyrirspyrjandi og ráðh., megi taka til máls um fsp. Það geta komið fram í máli þeirra staðhæfingar sem óhjákvæmilegt er að gefa mönnum kost á að svara eða að fjalla um. Enn fremur er álitamál hvort það er nokkuð til bóta að flytja meginumræðu um þáltill. aftur fyrir nefndarafgreiðsluna. Margar af þeim þáltill., sem fram koma, hljóta raunverulega sína afgreiðslu í fyrri hluta umræðunnar, eins og nú er, og menn sjá gjarnan á þeirri umræðu hvaða till. það eru sem eiga erindi úr nefnd aftur. Mál skýrast í fyrstu totu e.t.v. gleggra en í nefnd. Þarna er að vísu fært út til nefnda meira starf, en ég er ekki viss um að það væri til bóta. Það verða hér iðulega hressilegar umr. Ég er alveg tilbúinn að takmarka ræðutíma t.d. við 5 mín. eða eitthvað því um líkt, en ég held að það sé hæpið- t.d. þegar fluttar eru þáltill. um hápólitísk mál — að málsvörum flokkanna a.m.k. sé ekki gefið tækifæri til að taka til máls um þessar till. áður en þær fara til nefndar.

Varðandi þær umræður, sem spunnist hafa út af þessu frv., var hin ítarlega ræða hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar nóg efni í langa ræðu. Hann kom víða við, og margt af því vekur mann til umhugsunar um þetta efni. Ég álít að það sé nauðsynlegt og yrði til bóta í þinghaldi, ef varamenn tækju sæti fyrir ráðherra meðan þeir sætu í ríkisstj. Ég vil hins vegar endilega að ráðherrar hafi reynslu af þingstörfum sjálfir, og þeir verða að sjálfsögðu að vera viðstaddir umræður þegar þeirra mál eru til meðferðar. En að gera þeim að skyldu að sitja hér kannske heilar nætur og bíða eftir atkvgr., það finnst mér vera sóun á starfskröftum þeirra. Það er afar mikill vandi, held ég, að vera ráðh., og uppgefinn og illa fyrir kallaður ráðh., sem tekur rangar ákvarðanir, getur gert mikið illt af sér á skömmum tíma og verið dýr þjóðarbúinu, væru betur sparaðir hans kraftar. Ráðherrar verða að sjálfsögðu að starfa í þingflokkunum eins og verið hefur.

Ég mótmæli alfarið því sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson varpaði hér fram, að þm. væru afgreiðsluvélar fyrir misvitrar ríkisstjórnir. Það er ekki þannig hjá okkur í þingflokki Framsfl. — ég neita því alfarið. Við fjöllum mjög ítarlega um stjfrv. á þingflokksfundum áður en þau eru lögð fram. Allir hæstv. ráðherrar, sem nú sitja, gæta þess vel að senda okkur til afgreiðslu frv. sín og þau mál sem þeir hyggjast flytja, og það er hið besta samband milli þessarar ríkisstj. og okkar þingflokks. Og ráðherrar eiga lof skilið fyrir þá þolinmæði sem þeir sýna okkur. Stundum tekst okkur ekki að afgreiða mál alveg um hæl, stundum þurfum við að fá umhugsunarfrest áður en við segjum til um hvort við fylgjum frv. eða ekki.

Menn hafa talað hér um þmfrv. sem séu orðin , að því er mér skilst á sumum, allt of fágæt. Ég er ekki sammála þessu. Þm. eru að sjálfsögðu viðriðnir samningu og mótun flestra stjfrv., kannske allra, á einu eða öðru stigi. Mörg eru samin upp úr málatilbúnaði þm. og af þm., og þegar þm. eru að starfa að frumvarpasamningu fyrir ríkisstj. hafa þeir auðvitað gott tækifæri til þess að nota sér aðstoð sérfræðinga. Það er alls ekkert algilt, að frv. verði til á einhverjum kontórum úti í bæ hjá embættismönnum. En þetta þarf allt að vinnast saman. Sum þmfrv., sem flutt hafa verið á undanförnum árum, hafa verið góð og vönduð, svo sem það sem hér er til umr., en sum þeirra hafa verið frekar léttvæg. Og ég held að þau hafi, eins og við segjum í sveitinni, mikla minni meðalvigt en stjfrv.

Menn hafa talað hér um lengingu á þingtíma. Ég held að vel geti komið til greina að lengja þingtímann eitthvað, en það verður að fara eftir verkefnunum. Og ég held að það sé mjög mikils virði að þm. séu í sem traustustu sambandi við fólkið í landinu, það líf, sem fólkið lifir, og þá atvinnuvegi, sem eru undirstaða þess lífs sem við lifum hér, að þeir séu ekki hópur lögfræðinga t.d., einangraður hér í hálfgerðum fílabeinsturni. Ég er á móti því. Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað af atvinnupólitíkusum sem geta gefið sér tíma til þess að starfa eingöngu fyrir flokkana, en það er alls ekki fengur að því, að þm. séu það flestir eða allir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hér séu menn með reynslu af atvinnulífi og hinni ýmsu starfsemi sem fram fer í landinu.

Hv. fyrrv. þm. Oddur Ólafsson opnaði Alþingi hvað eftir annað víðari sýn til heilbrigðismála en öðrum þáv. þm. hefði verið unnt. Hér eru menn með þekkingu á landbúnaði og þekkingu á verslun og sveitarstjórnarmálum og reynslu úr öllum atvinnugreinum. En t.d. fyrsta kjörtímabilið, sem ég sat hér á þingi, saknaði ég manna sem hefðu náin tengsl við sjávarútveg. Ég held að það hafi verið galli á Alþingi fyrsta kjörtímabili sem ég sat hér, hve fáir voru kunnugir því sem var að gerast í sjávarútvegi. Það hefur að vísu staðið til bóta.

Það er eitt sem ekki hefur verið talað um hér, það er fundartími þingsins. Mér finnst það mikið umhugsunarefni, hvort við ættum ekki að skipuleggja fundartíma þingsins öðruvísi en við höfum gert. Hann mótast að vísu væntanlega nokkuð af því, að ráðherrar sitja jafnframt hér eða eiga að sitja hér á þingfundum. Ég held að það væri t.d. til bóta að fundartími þingsins væri árdegis. Þingflokkar þurfa miklu meiri tíma en þeim er ætlaður í starfsskrá þingsins. A.m.k. er það svo hjá okkur framsóknarmönnum, að þriggja tíma fundur tvisvar í viku dugir okkur ekki. Við þurfum að hafa rýmri tíma undir þingflokksfundina því að þeir eru grundvallarsamkomur hér í þingstörfunum og þess vegna má ekki skammta þeim of knappan tíma.

Hæstv. félmrh., Svavar Gestsson, taldi að Alþingi ætti að hafa þann starfsmetnað, eins og hann sagði, að afgreiða með einum eða öðrum hætti, þau mál sem fram kæmu á hverju þingi. Ég er honum ekki sammála. Ég held að meginatriðið sé að úr þessari stofnun komi vönduð löggjöf og réttlát sem stenst í framkvæmd og fer ekki óspilunarlega með fjármuni þjóðarinnar. Þess vegna held ég að það sé meginatriðið að löggjafinn vandi sig, fremur en að hann afkasti einhverjum ósköpum. Hér koma fjöldamargar góðar hugmyndir fram, en margar þeirra þurfa nokkurrar þróunar við. Menn eru hér að hneykslast á því, að frv. hafi verið til meðferðar á hverju þinginu eftir annað og að við höfum þvælt þeim á undan okkur nokkur þing í röð áður en þau verða að lögum. En flest eða öll þessi frv. breytast á þessum tíma og breytast yfirleitt til bóta. Þetta gefur höfundum frv. eða ráðh. tækifæri til þess að endurbæta þau, svo að þau hljóti byr og verði að betri löggjöf en ella mundi verða. Ég held að hættulegast sé í löggjafarstarfinu ef menn fara með æðibunugangi að húrra málum í gegn án þess að velta þeim nægilega fyrir sér. Ég gæti nefnt um það dæmi, að meiri hl. þm. hefur komið sér saman um að hespa einhverju í gegn, þáltill. sem er óframkvæmanleg eða einhverju slíku. En það er ekki til fyrirmyndar.

Mér dettur í hug að endingu, þar sem þingsköp eru hér til umræðu, að spyrja eftir starfi nefndar sem kjörin var held ég haustið 1978 og átti að hafa það verkefni að endurskoða þingsköp. Þáv. hæstv. forseti Sþ., Gils Guðmundsson, var formaður hennar. Ég man ekki eftir að haf séð álit frá þessari nefnd, en ég hef það fyrir satt að hún hafi unnið nokkurt starf. Kannske hefur henni ekki unnist tími enn þá til þess að ljúka störfum. En ég vil þá beind því til allshn., þegar hún fær þetta frv. til meðferðar, hvort hún sjái sér ekki fært að kalla formann nefndarinnar, Gils Guðmundsson, til fundar og frétta hjá honum hvað gerst hefði í nefndinni. E.t.v. vita það einhverjir hér inni og væri vel þegin fræðsla um það.