05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

96. mál, vegagerð

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég get fagnað stórhuga till. sem fram er komin í vegamálum. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst hún bera nokkurn keim af óskalista stjórnarandstöðu, sem gerir ekki ráð fyrir að hún þurfi að framkvæma hana, og kannske er það raunsætt mat hjá hv. flm. Mér sýnist eiginlega hver maður fá sitt óskaverk, ekki síst í þeim sérstöku verkefnum sem hér á að framkvæma, mörg hver ákaflega góð, ég viðurkenni það, og sannarlega þess virði að þau séu skoðuð, enda öll í athugun.

Hins vegar sýndist mér vanta mikið til að fá heildarstærð þeirra vegaframkvæmda sem fælust í raun og veru í þessari till. til þál. Ég bað því Vegagerðina að láta mér í té mat á því, hvað þetta mundi kosta í raun og veru, og þar — sem ég veit að hv. 1. flm. — eins og hann sagði áðan — ber mikið traust til þeirrar stofnunar, eins og vera ber, þá ætla ég að leyfa mér að fara yfir hennar svar. Reyndar kemur fram í svari Vegagerðarinnar, að erfitt sé að meta þetta til hlítar og ljóst sé að í vanti mikilvæga þætti vegagerðar. Þar segir m.a. að hér sé ekki innifalinn kostnaður við almenna uppbyggingu þjóðbrauta og brúa á þeim, annarra en þeirra sem sérstaklega eru taldar í till. Áætlað er að kostnaður við þær nýframkvæmdir, sem þar er um að ræða, yrði u.þ.b. 3 milljarðar á ári og að því meðtöldu yrði þetta verkefni eitt, fyrir utan öll önnur verkefni sem Vegagerðin er með, þ.e. viðhald o.fl., ekki undir 28 milljörðum kr. Auk þess treystir Vegagerðin sér illa til að meta hin mörgu sérstöku verkefni sem upp eru talin, en náttúrlega skiptir tugum milljarða kostnaðurinn við öll þessi ágætu sérstöku verkefni eins og nokkrar brýr yfir firði o.s.frv. Því þarf náttúrlega meira að gera en að setja slíkt á blað, með fullri virðingu fyrir þeim vilja sem á bak við stendur.

Síðan segir í fskj. I, sem fylgir með, með leyfi forseta: „Sést einnig að framkvæmdamagn í nýjum framkvæmdum eykst um liðlega 50% frá vegáætlun 1980. Hér væri um stökkbreytingu að ræða sem krefðist mikils undirbúnings. Er þá einnig haft í huga að mikil áhersla er lögð á bundið slitlag. Má gera ráð fyrir að það taki a.m.k. eitt ár að undirbúa svo mikla magnaukningu í nýjum framkvæmdum eftir að ákvörðun væri tekin þar um.“

Síðan segir: „Á meðfylgjandi korti sjást þeir vegir, sem byggðir skulu samkv. till. með bundnu slitlagi, sérverkefni ekki talin með. Þar sést að teknir eru fyrir í hverjum áfanga heillegir kaflar og þá fjallvegir jafnt sem vegir í byggð. Er þá ekki heldur alltaf tekið tillit til umferðarmagns. Í áætlun sem þessari væri eðlilegra að taka meira tillit til umferðar og láta þá byggðavegi að öðru jöfnu ganga fyrir fjallvegum.“ — Ég get bætt því við, að í vinnu að þeirri áætlun, sem ég mælti fyrir hér áðan, var rætt um það, hvernig ætti að fara með snjóþunga fjallvegi í sambandi við bundið slitlag er veldur erfiðleikum í sambandi við snjóhreinsun o.fl.

Síðan segir: „Reyndar er í sumum tilvikum reiknað með slitlagi á vegum með mjög lítilli umferð, þar sem gott malarslitlag hentaði vel, en aðrir vegir með mun meiri umferð ekki teknir með.

Draga má framangreindar hugleiðingar saman í eftirfarandi þrjú meginatriði:

1. Tillagan útheimtir miklu meira fjármagn miðað við þjóðarframleiðslu allt áætlunartímabilið heldur en varið hefur verið til vegarmála undanfarið. Einstök ár, sem hæst hafa verið, ná ekki því hlutfalli sem hér er um að ræða“, og þó — eins og ég sagði áðan — án þess gífurlega fjármagns sem þarf í sérverkefni. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„2. Magn nýrra framkvæmda tæki stökkbreytingum, en það krefðist mikillar undirbúningsvinnu og tíma.

3. Í markmiðum till. gætir óskhyggju og ósamkvæmni gagnvart þörfum vegakerfisins (bundin slitlög og sum sérverkefni). Röðun till. er í grófasta lagi og þyrfti að endurskoðast ef til framkvæmda kæmi. Bæði í markmiðum og röðun er ekki tekið nægilegt tillit til arðsemi.“

Ég leyfi mér að lesa þetta upp af því að framlag þessarar ágætu stofnunar er áreiðanlega gott í þetta mál og vitanlega sjálfsagt, og ég á fyllilega von á því, að fjvn. kalli á Vegagerðina til umsagnar um þetta mál þegar hún fær það til meðferðar. En það styður þá niðurstöðu mína, að þótt fagna beri stórhug ætti að leggja meiri vinnu í að raða þessum verkefnum niður og athuga á hvern máta við getum náð þessum mikla framkvæmdahraða. Ég held að við séum litlu bættari með því að taka eina stökkbreytinguna enn, meira að segja, eins og hér er gert ráð fyrir, svo mikla að Vegagerðin telur að ekki sé nægur undirbúningur til að unnt sé að ná þessum framkvæmdahraða. Ég veit ekki hvort hv. þm. telur í raun og veru að við getum tekið slíkt stökk og haldið framkvæmdum töluvert umfram það sem mest hefur gerst á nokkru ári til þessa. Ef hv. þm. og hv. Alþingi er sannfært um að það sé unnt væri það vitanlega mjög æskilegt. Þá hygg ég þó að slíkt ætti að gera frekar með almennri ákvörðun um þann hundraðshluta, sem ég legg til í þeirri till. sem ég flutti áðan, ekki á einu ári, heldur gera ráð fyrir nokkrum stíganda í honum frá ári til árs þannig að svigrúm fáist til undirbúnings.

Þá held ég jafnframt að vafasamt sé að hverfa frá því sem hefur verið leiðarljós í vegáætlun, að þm. viðkomandi kjördæmis raði verkefnunum. Ég held að vafasamt sé að hverfa frá því að skipta fjármagninu upp eftir ákveðnum hundraðshluta á kjördæmin. Að vísu viðurkenni ég að endurskoða þarf e.t.v. þann hundraðshluta. Fjvn. tel ég vera einfæra um að koma með till. um það. En ég held að við eigum að láta þm. viðkomandi kjördæmis hafa mjög mikið að segja um það, hvernig verkefnum verður niður raðað.

Upp hefur verið tekinn sá háttur, að eitt sérverkefni skuli vera í gangi í hverju kjördæmi, og það er fyrir utan þennan hundraðshluta sem varið er til kjördæmisins almennt. Ég tel þetta vera nokkuð skynsamlega ákvörðun og veita svigrúm fyrir viðkomandi kjördæmi til þess að ákveða hvað er mikilvægast. Það held ég einnig að ekki beri að leggja niður.

Ég vil ljúka þessari stuttu aths. með því á ný að fagna þeim stórhug sem þarna er, en þó vísa á þær aths. sem ég hef gert og ég tel að bendi til þess, að á þessu þurfi að gera verulegar lagfæringar, og vísa til þeirra varnaðarorða sem ég flutti hér áðan og tekin eru saman af Vegagerðinni.